Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 230/2016

Gjaldár 2014 og 2015

Lög nr. 90/2003, 68. gr. B-liður.   Reglugerð nr. 990/2001, 4. gr.  

Kærandi keypti íbúð á árinu 1998 og flutti í íbúðina á árinu 2016. Talið var að lagaskilyrði um eigin not íbúðarhúsnæðis væri ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að ekki yrði litið framhjá þeim langa tíma sem liðið hefði frá kaupum kæranda á íbúðinni og þar til hún flutti í húsnæðið. Var kröfu kæranda um vaxtabætur gjaldárin 2014 og 2015 hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 2. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 132/2016; kæra A, dags. 2. júlí 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2014 og 2015. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 2. júlí 2016, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 1. apríl 2016, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2014 og 2015. Með úrskurðinum felldi ríkisskattstjóri niður áður ákvarðaðar vaxtabætur kæranda umrædd gjaldár á þeim forsendum að lagaskilyrði um eigin not viðkomandi íbúðarhúsnæðis hefðu ekki verið uppfyllt. Í kæru er þess krafist að kæranda verði ákvarðaðar vaxtabætur gjaldárin 2014 og 2015.

II.

Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 2014 tilgreindi kærandi vaxtagjöld af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota að S í Hafnarfirði. Þrátt fyrir það voru kæranda ekki ákvarðaðar vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2014. Með kæru, dags. 25. ágúst 2014, krafðist kærandi leiðréttingar á álagningu ríkisskattstjóra að þessu leyti. Kom fram í kærunni að kærandi hefði verið í námi erlendis en veikst alvarlega á árinu 2008. Með kæruúrskurði, dags. 9. október 2014, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að lagaskilyrði um eigin not viðkomandi íbúðarhúsnæðis hefði ekki verið uppfyllt umrætt gjaldár. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt þjóðskrá hefði kærandi aldrei búið í íbúðarhúsnæði sínu frá kaupum þess á árinu 2005 (svo) og samkvæmt framtalsgögnum hefði húsnæðið verið í útleigu á árunum 2012 og 2013. Samkvæmt þessu yrði ekki talið að kærandi uppfyllti skilyrði um eigin not íbúðarhúsnæðisins, sbr. 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta. Með kæru, dags. 8. janúar 2015, skaut kærandi kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 131, 29. apríl 2015 var hin kærða breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2014 felld úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Í úrskurðinum kom m.a. fram að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2014 hefðu kæranda ekki verið ákvarðaðar neinar vaxtabætur, án þess þó að henni hefði áður verið tilkynnt um breytingar á skattframtali árið 2014 eða gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna. Tekið var fram að engin efnisafstaða væri tekin til ágreiningsefnis málsins. Af úrskurði yfirskattanefndar leiddi að kæranda voru ákvarðaðar vaxtabætur að fjárhæð 400.000 kr. gjaldárið 2014. Þess er að geta að í skattframtali sínu árið 2015 tilgreindi kærandi vaxtagjöld af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota að S í Hafnarfirði. Voru kæranda ákvarðaðar vaxtabætur að fjárhæð 381.768 kr. við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2015.

Með bréfi til kæranda, dags. 27. nóvember 2015, beindi ríkisskattstjóri því til kæranda, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, að sýna fram á eigin not íbúðarhúsnæðisins við S á árunum 2013 og 2014. Kom fram að svo virtist sem kærandi hefði tilgreint skuldir og vaxtagjöld vegna íbúðarhúsnæðisins í skattframtölum árin 2014 og 2015 þrátt fyrir að hafa ekki búið í húsnæðinu frá kaupum þess á árinu 1998, sbr. þjóðskrá. Réttur til vaxtabóta væri háður því að lán væru tekin vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Vakti ríkisskattstjóri athygli á því að hefði maður fengið greiddar vaxtabætur án þess að eiga rétt á þeim skyldi honum gert að endurgreiða þær að viðbættu 15% álagi, sbr. 13. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003.

Í svarbréfi kæranda, dags. 15. desember 2015, var vísað til fyrrgreinds úrskurðar yfirskattanefndar, dags. 29. apríl 2015, vegna gjaldársins 2014 og tekið fram að í kjölfar uppkvaðningar þess úrskurðar hefðu kæranda verið ákvarðaðar vaxtabætur sem felldar hefðu verið niður við upprunalega álagningu. Í millitíðinni hefði kærandi staðið skil á skattframtali sem hefði að öllu leyti verið sambærilegt fyrri framtölum og hefði hún í kjölfarið fengið greiddar vaxtabætur. Á árinu 2013 hefði kærandi að mestu búið á Íslandi og unnið launaða vinnu. Hún hefði búið í eigin íbúð sem hún hefði unnið við að lagfæra og betrumbæta. Síðan hefði íbúðin verið leigð út og kærandi haldið til útlanda til að halda áfram námi. Eins og fram kæmi í fyrri bréfaskriftum hefði kærandi átt við erfið veikindi að stríða og fengið læknismeðferð erlendis. Vegna veikindanna hefði nám og dvöl erlendis orðið mun lengri en áætlað hefði verið. Í bréfi kæranda kom jafnframt fram að öll gögn er vörðuðu málið væru ríkisskattstjóra tiltæk. Var tilvísun ríkisskattstjóra til ákvæðis 13. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 sérstaklega mótmælt.

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2016, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, að fyrirhugað væri að fella tilfærð lán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis að S í skattframtölum árin 2014 og 2015 úr skuldum og vaxtagjöldum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota og færa lán þessi sem aðrar skuldir og vaxtagjöld. Kom fram að það væri skilyrði fyrir rétti til vaxtabóta vegna vaxtagjalda af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis að eigandi þess nýtti það sjálfur til íbúðar og að réttur til vaxtabóta félli niður ef skilyrðið væri ekki lengur uppfyllt. Þrátt fyrir framangreint gætu sérstakar aðstæður valdið því að eigandi íbúðarhúsnæðis gæti ekki sjálfur nýtt það íbúðar um ákveðinn tíma, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001. Miðað væri við að tímabundnar aðstæður vöruðu ekki lengur en þrjú ár sem heimilt væri að framlengja í fimm ár þegar sérstaklega stæði á. Samkvæmt skráningu í þjóðskrá og upplýsingum um leigutekjur kæranda umrædd ár hefði kærandi ekki búið í húsnæðinu við S frá kaupum húsnæðisins í apríl 1998. Kæmi fram á innsendum greiðslumiðum að íbúðarhúsnæðið hefði verið leigt út árin 2013 og 2014. Vegna athugasemda kæranda um veikindi vísaði ríkisskattstjóri til þess að um sextán ára tímabil væri að ræða, þ.e. tímabilið frá apríl 1998 til áramóta 2013/2014. Ljóst þætti að ekki væri heimild fyrir lengra tímabili vegna sérstakra tímabundinna aðstæðna en fimm ára tímabili. Þá kom fram í boðunarbréfi ríkisskattstjóra að fyrirhuguð breyting leiddi til niðurfellingar vaxtabóta gjaldárin 2014 og 2015. Vakti ríkisskattstjóri jafnframt athygli á því að hefði maður fengið greiddar vaxtabætur án þess að eiga rétt á þeim skyldi honum gert að endurgreiða þær að viðbættu 15% álagi, sbr. 13. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 1. apríl 2016, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárin 2014 og 2015 til samræmis.

Með bréfi kæranda, dags. 20. mars 2016, sem barst ríkisskattstjóra þann 6. apríl 2016, var fyrirhugaðri endurákvörðun ríkisskattstjóra mótmælt. Í bréfinu var fundið að því að ríkisskattstjóri gæti snúið við niðurstöðu yfirskattanefndar nr. 131/2015. Var áréttað að kæranda hefðu verið greiddar vaxtabætur eftir úrskurð yfirskattanefndar. Hefði kærandi því staðið í þeirri trú að hún ætti rétt á bótunum. Henni hefðu einnig verið ákvarðaðar vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2015 og hefðu engar athugasemdir verið gerðar við skattframtal hennar árið 2015. Hefðu skuldir kæranda vegna íbúðarkaupa verið forskráðar af ríkisskattstjóra í kafla 5.2 í skattframtalinu og henni boðið að staðfesta það. Hefði kærandi því verið í góðri. Ríkisskattstjóri tók bréf kæranda til meðferðar sem beiðni um endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 1. apríl 2016, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafnaði endurupptöku málsins með bréfi, dags. 7. apríl 2016. Vegna athugasemda kæranda í bréfi hennar tók ríkisskattstjóri fram að með úrskurði yfirskattanefndar nr. 131/2015 í málinu hefði breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2014 verið felld úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð og kæranda verið ákvarðaðar vaxtabætur í samræmi við tilfærð vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda í skattframtali hennar umrætt ár. Með úrskurðinum hefði hins vegar ekki verið tekin nein efnisafstaða til ágreiningsefnisins. Skattaðili væri ábyrgur fyrir því að í skattframtali væri rétt fram talið, sbr. 90. gr. laga nr. 90/2003. Yrði ekki fallist á að skýringar kæranda væru þess eðlis að lagaskilyrði væru fyrir hendi til endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, dag. 1. apríl 2016, sbr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Í niðurlagi bréfsins benti ríkisskattstjóri á að þar sem endurupptökubeiðnin hefði komið fram í kærufresti til yfirskattanefndar hefði kærufrestur rofnað og færi kærufrestur að líða að nýju frá póstlagningardegi bréfsins. Stæðu því 88 dagar eftir af kærufresti til yfirskattanefndar.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 2. júlí 2016, kemur fram um meðferð málsins að kærandi hafi verið veittur frestur til 23. mars 2016 til að svara boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 29. febrúar 2016. Hafi umboðsmaður kæranda svarað bréfinu innan frests með tölvupósti þann 21. mars 2016. Ríkisskattstjóri hafi svo úrskurðað í málinu með bréfi, dags. 1. apríl 2016, en tekið fram í úrskurðinum að engin svör hefðu borist við boðunarbréfi embættisins frá 29. febrúar 2016. Umboðsmaður kæranda hefði í kjölfarið haft samband við ríkisskattstjóra og sýnt fram á að boðunarbréfinu hefði verið svarað. Til öryggis hefði hann endursent það með tölvupósti þann 6. apríl 2016.

Í kærunni kemur fram að helstu rök kæranda séu þau að úrskurður ríkisskattstjóra um niðurfellingu vaxtabóta gjaldárið 2014 hafi verið ógiltur af yfirskattanefnd sem sé æðra stjórnvald. Þrátt fyrir það taki ríkisskattstjóri nú ákvörðun um niðurfellingu bótanna. Kæranda hafi í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar nr. 131/2015 verið greiddar vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2015. Skattframtal kæranda árið 2015 hafi verið forskráð með þeim hætti að efni stæðu til vaxtabóta. Kærandi hafi tekið við vaxtabótum í góðri trú. Um venjulegan þjóðfélagsþegn sé að ræða sem sinni skattamálum einu sinni á hverju ári. Almennir skattgreiðendur hljóti að mega álykta að skattframtöl sem forskráð séu af ríkisskattstjóra séu rétt og að ekkert sé eðlilegra en að undirrita þau. Ríkisskattstjóri bjóði fólki að ganga þannig frá skattframtölum sínum.

IV.

Með bréfi, dags. 8. ágúst 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er bent á að samkvæmt undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, falli réttur til vaxtabóta ekki niður þótt aðili nýti ekki íbúðarhúsnæði sitt sjálfur til íbúðar um ákveðinn tíma þegar sérstakar aðstæður komi upp, t.d. vegna náms, veikinda eða tímabundinna atvinnuþarfa. Samkvæmt ákvæðinu skuli almennt miða við að þessar tímabundnu aðstæður vari ekki lengur en þrjú ár, sem þó sé heimilt að framlengja í fimm ár þegar sérstaklega standi á. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands hafi kærandi aldrei haft lögheimili í íbúðarhúsnæði því sem sé andlag útreiknings vaxtabóta og kærandi hafi keypt árið 1998. Verði því ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði ákvæðisins umrædd gjaldár. Krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. ágúst 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 25. ágúst 2016, hefur kærandi ítrekað kröfur sínar og upplýst að hún sé flutt í íbúð sína að S og sé byrjuð að vinna hérlendis.

V.

Ágreiningsefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði hans um endurákvörðun, dags. 1. apríl 2016, að fella niður áður ákvarðaðar vaxtabætur kæranda gjaldárin 2014 og 2015 á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki sýnt fram á að henni bæri réttur til vaxtabóta umrædd gjaldár.

Af hálfu kæranda er endurákvörðun ríkisskattstjóra gjaldárið 2014 sérstaklega mótmælt á þeirri forsendu að yfirskattanefnd hafi úrskurðað um ágreiningsefni málsins í úrskurði sínum nr. 131/2015. Af þessu tilefni skal tekið fram að með greindum úrskurði yfirskattanefndar var niðurfelling ríkisskattstjóra á vaxtabótum kæranda gjaldárið 2014 felld úr gildi á þeim grundvelli að málsmeðferð ríkisskattstjóra hefði ekki fengið staðist þar sem kæranda hefði ekki verið tilkynnt um breytingar á skattframtali hennar árið 2014 eða verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna. Er tekið fram í forsendum úrskurðarins að með honum sé ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins. Samkvæmt þessu byggði niðurstaða í úrskurði yfirskattanefndar nr. 131/2015 um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra eingöngu á formlegum ástæðum, þ.e. annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra, og fól ekki að neinu leyti í sér að tekin væri efnisleg afstaða til deiluefnisins sem laut að rétti kæranda til vaxtabóta. Í úrskurðaframkvæmd hefur verið litið svo á að hafi yfirskattanefnd fellt ákvörðun ríkisskattstjóra úr gildi af formlegum ástæðum, þ.e. vegna annmarka á meðferð málsins af hendi ríkisskattstjóra, sé embættinu almennt heimilt að taka mál til meðferðar að nýju á grundvelli 96. gr. laga nr. 90/2003, enda sé gætt fyrirmæla 97. gr. sömu laga um tímamörk til endurákvörðunar gjalda. Eru þess allmörg dæmi að mál komi af þessum sökum tvisvar til kasta yfirskattanefndar vegna sömu ágreiningsefna, sbr. t.d. úrskurði yfirskattanefndar nr. 439/2000, 142/2001 og 239/2006. Samkvæmt framanrituðu stóð niðurstaða í úrskurði yfirskattanefndar nr. 131/2015 því ekki í vegi að skattframtal kæranda árið 2014 yrði tekið til meðferðar að nýju vegna sömu atriða og verið höfðu til meðferðar í því kærumáli er lauk með nefndum úrskurði og ekki hlutu efnisúrlausn samkvæmt framansögðu. Verður og ekki talið að kærandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að með úrskurðinum hafi að einhverju marki verið tekin efnisleg afstaða til vaxtabótaréttar kæranda, enda bera forsendur úrskurðarins glöggt með sér að svo var ekki.

Þá er því borið við af hálfu kæranda að vaxtagjöld hafi verið forskráð í lið 5.2 sem vaxtagjöld vegna öflunar íbúðarhúsnæðis í skattframtali hennar árið 2015 og kærandi veitt vaxtabótum viðtöku í góðri trú. Af þessu tilefni skal tekið fram að forskráning upplýsinga á framtalseyðublað getur ekki leyst framteljanda undan ábyrgð á réttum framtalsskilum, sbr. ákvæði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 og leiðbeiningar ríkisskattstjóra til útfyllingar skattframtals einstaklinga árið 2015 (RSK 8.01) þar sem fram kemur að áríðandi sé að framteljandi athugi hvort forskráðar fjárhæðir séu í samræmi við gögn og upplýsingar sem hann hefur sjálfur undir höndum. Víkur þá að efnishlið málsins.

Í upphafsákvæði B-liðar 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að maður, sem skattskyldur sé samkvæmt 1. gr. laganna og beri vaxtagjöld af lánum sem tekin hafi verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, skuli eiga rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laganna í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Í 5. mgr. stafliðarins segir að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota og stofnist þegar íbúðarhúsnæði til eigin nota sé keypt eða bygging þess hefjist. Réttur til vaxtabóta fellur niður þegar íbúðarhúsnæði telst ekki lengur til eigin nota, sbr. 6. mgr. stafliðarins.

Nánari ákvæði um ákvörðun vaxtabóta er að finna í reglugerð nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, með áorðnum breytingum. Í 4. gr. reglugerðarinnar segir að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota, en með eigin notum sé átt við að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum. Sérstakar tímabundnar aðstæður, svo sem nám, veikindi eða atvinnuþarfir, sem valdi því að eigandi íbúðarhúsnæðis geti ekki nýtt það til íbúðar, leiði þó ekki til þess að hann missi rétt til vaxtabóta. Með tímabundnum aðstæðum sé átt við að eigandi íbúðarhúsnæðis geri líklegt að hann muni innan ákveðins tíma taka húsnæðið aftur til eigin nota. Með 1. gr. reglugerðar nr. 639/2011, um breyting á reglugerð nr. 990/2001, var nýjum málslið bætt við 4. gr. hinnar síðarnefndu reglugerðar þess efnis að almennt skuli miða við að tímabundnar aðstæður vari ekki lengur en þrjú ár sem þó sé heimilt að framlengja í fimm ár þegar sérstaklega standi á. Reglugerð nr. 639, 15. júní 2011 tók gildi á árinu 2011.

Af framangreindri skilgreiningu á eigin notum íbúðarhúsnæðis sem forsendu vaxtabótaréttar þykir leiða að það sé skilyrði fyrir rétti til vaxtabóta vegna vaxtagjalda af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis að eigandi þess nýti það sjálfur til íbúðar og að réttur til vaxtabóta falli því niður ef skilyrðið er ekki lengur uppfyllt. Þrátt fyrir þetta geta sérstakar aðstæður valdið því að eigandi íbúðarhúsnæðis geti ekki sjálfur nýtt það til íbúðar um ákveðinn tíma, sbr. 4. gr. framangreindrar reglugerðar nr. 990/2001. Breytt notkun íbúðarhúsnæðis vegna náms, veikinda eða tímabundinna atvinnuþarfa verður talin geta fallið hér undir svo og geta aðrar hliðstæðar aðstæður leitt til þess að réttur til vaxtabóta falli ekki niður þótt aðili nýti ekki íbúðarhúsnæði sitt sjálfur til íbúðar um ákveðinn tíma. Það ber undir eiganda íbúðarhúsnæðis að sýna fram á aðstæður af þessu tagi. Ljóst er á hinn bóginn að kjósi eigandi að leigja íbúðarhúsnæði sitt út til lengri eða skemmri tíma í stað þess að nýta húsnæðið sjálfur, t.d. þar sem slík ráðstöfun er hagkvæm í fjárhagslegu tilliti, eru skilyrði vaxtabóta almennt ekki fyrir hendi, enda er þá ekki um það að ræða að eigandi geti ekki sjálfur nýtt húsnæðið til íbúðar. Bæði orðalag 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001 og almenn jafnræðissjónarmið eru þeirri niðurstöðu til styrktar.

Fram er komið að kærandi keypti fasteignina við S í Hafnarfirði á árinu 1998. Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá hefur kærandi ekki búið í húsnæðinu frá kaupum þess. Af hálfu kæranda er komið fram að hún hafi veikst alvarlega á árinu 2008 og verið til læknismeðferðar erlendis þar sem hún hafi verið við nám, sbr. m.a. kæru til ríkisskattstjóra, dags. 25. ágúst 2014, og meðfylgjandi gögn. Á árinu 2013 hafi kærandi dvalið hér á landi og þá búið í íbúðinni við S, en í kjölfar þess hafi kærandi haldið til útlanda til að ljúka námi sínu og hafi íbúðin þá verið leigð út. Samkvæmt skráningu í Þjóðskrá flutti kærandi í íbúðina á árinu 2016.

Af hálfu kæranda er ekki komið fram í málinu hvenær hún hélt utan til náms, en af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi verið verið nám erlendis er hún veiktist á árinu 2008. Samkvæmt fylgiskjali með skattframtölum kæranda árin 2014 og 2015 var íbúðin við S í útleigu í níu mánuði á árinu 2013 og alla mánuði ársins 2014, sbr. greinargerð um leigutekjur (RSK 3.25) með skattframtölunum. Þá verður í málinu ekki litið framhjá þeim langa tíma sem leið frá kaupum kæranda á fasteigninni og þar til hún flutti í húsnæðið á árinu 2016. Verður því ekki fallist á með kæranda að um tímabundna búsetu hennar hafi verið að ræða annars staðar en að S í þeim skilningi sem að framan greinir. Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að kærandi hafi leitt í ljós að skilyrði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, fyrir vaxtabótum vegna öflunar íbúðarhúsnæðisins að S séu uppfyllt í tilviki kæranda gjaldárin 2014 og 2015. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja