Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 56/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. og 7. tl. — 96. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1., 2. og 4. ml.  

Eignarleiga — Kaupleiga — Kaupleigugreiðslur — Eignarleigugreiðslur — Fjármögnunarleiga — Rökstuðningi áfátt — Kærumeðferð skattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Skattframtal, tortryggilegt — Skattframtal, vefenging — Síðbúin framtalsskil — Rekstrartap — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Yfirfæranlegt rekstrartap — Málsmeðferð áfátt — Breytingarheimild skattstjóra — Kæranleiki — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki rekstrartaps — Bindandi áhrif skattframtals — Forsendur skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988.

Í framhaldi af kæru, dags. 24. ágúst 1988, barst skattframtal kæranda þann 14. október 1988. Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð þann 10. nóvember 1988, þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1988 með nokkrum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum. Ágreiningur er um eftirfarandi breytingar:

1. Kaupleigugreiðslur. Á rekstrarreikningi ársins 1987 vegna útgerðar gjaldfærði kærandi greiðslur samkvæmt kaupleigusamningum, annars vegar til X hf. 43.890 kr. og hins vegar til Y hf. 70.687 kr. Þessar greiðslur samtals 114.577 kr. felldi skattstjóri niður í hinum kærða úrskurði á svofelldum forsendum: „Með tilliti til skuldlausrar útgerðareignar í árslok 1986, fjárfestinga á árinu 1987, skulda í árslok 1987 og sundurliðunar á þeim eru óskýrðar, gjaldfærðar greiðslur til kaupleigufyrirtækja samtals kr. 114.577 svo tortryggilegar að þær verða ekki teknar til greina og strikast út af rekstrarreikningi.“

Með bréfi, dags. 21. desember 1988, í framhaldi af kæru til ríkisskattanefndar, dags. 6. desember 1988, sendi umboðsmaður kæranda ljósrit af umræddum samningum og kvittunum fyrir greiðslum. Fram kemur að um samninga um fjármögnunarleigu sé að ræða. Hann kveður forsendur skattstjóra málinu óviðkomandi, enda séu kaupleigusamningar hvorki eignfærðir né skuldfærðir.

2. Yfirfært rekstrartap. Á samræmingarblaði R4.05, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1988, tilgreindi kærandi ónotað rekstrartap frá fyrra ári 160.490 kr., sem nam framreiknað 189.298 kr. Ekki nýttist tap þetta til frádráttar tekjum gjaldárið 1988. Þetta rekstrartap felldi skattstjóri niður með hinum kærða úrskurði, dags. 10. nóvember 1988, á svofelldum forsendum: „Á rekstrarreikningi fyrir árið 1986 eru framtaldar tekjur kr. 0, en rekstrargjöld kr. 160.490. Í athugasemd er tekið fram að báturinn hafi verið leigður en leigutekjur hafi ekki borist og að óvíst sé um innheimtu þeirra. Framtaldar rekstrartekjur á árinu 1987 eru fyrir innlagðan þorskafla og grásleppuhrogn hjá vinnsluaðila. Innheimtu á tekjum fyrra árs er að engu getið. Yfirfært rekstrartap með verðstuðulshækkun kr. 189.298 verður því ekki tekið til greina.“

Umboðsmaður kæranda segir svo í kröfugerð sinni fyrir ríkisskattanefnd, sbr. bréf, dags. 21. desember 1988: „Framtal 1987. Leigutekjur frá A, eru afskrifaðar og gildir einu hvort árið þær eru gjaldfærðar.“

Í kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 8. desember 1989, segir svo:

„Fallist er á kröfu um gjaldfærslu vegna kaupleigugreiðslna.“

Um 1. tl. Með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda um þetta kæruatriði, enda þykja forsendur skattstjóra eigi viðhlítandi.

Um 2. tl. Líta verður svo á, að kærandi sé að kæra útstrikun yfirfærðs rekstrartaps, sem tilgreint var í framtalsgögnum hans gjaldárið 1988, enda liggur enginn kæranlegur úrskurður fyrir viðvíkjandi gjaldárinu 1987. Skattstjóri byggði álagningu gjaldárið 1987 á óbreyttu skattframtali kæranda árið 1987. Að því athuguðu þykir hin kærða breyting á yfirfæranlegu rekstrartapi tilfærðu gjaldárið 1988 eigi fá staðist og er hún því felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja