Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Eignayfirfærsla vegna hjónaskilnaðar

Úrskurður nr. 234/2016

Lög nr. 138/2013, 6. gr. b-liður.  

Í máli þessu var deilt um það hvort eignaskiptayfirlýsing vegna fasteignar, sem gefin var út í tengslum við skilnað, væri undanþegin stimpilgjaldi. Yfirskattanefnd taldi að skýra yrði lög um stimpilgjald svo að skjöl varðandi yfirfærslu fasteigna vegna hjúskaparslita væru undanþegin stimpilgjaldi í þeim tilvikum er yfirfærsla fæli að öllu leyti í sér úthlutun upp í eignarhlut (búshelming) annars hjóna, þ.e. hlutdeild þess í samanlögðum eignum er kæmu til skipta. Fæli yfirfærsla fasteignar hins vegar í sér úthlutun til annars hjóna umfram eignarhluta þess þannig að greiðsla kæmi fyrir að réttri tiltölu yrði að telja að skjal væri gjaldskylt í réttu hlutfalli við þá fjárhæð sem fram yfir væri, enda væri þá auk útlagningar upp í eignarhluta um að ræða samhliða sölu eða söluafsal til annars hjóna. Þar sem talið var að greiðsla kæranda til fyrrum maka hennar samkvæmt fjárskiptasamningi væri til komin vegna útlagningar eigna til makans umfram eignarhlut hans var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 16. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 119/2016; kæra A, dags. 10. júní 2016, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 10. júní 2016, varðar ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 15. mars 2016, um stimpilgjald. Kemur fram í kærunni að ágreiningur sé um ákvörðun stimpilgjalds í tengslum við yfirfærslu eignarréttar vegna íbúðar að H-götu í Reykjavík í kjölfar skilnaðar kæranda og fyrrum maka hennar. Af hálfu kæranda er þess krafist að henni verði endurgreitt stimpilgjald að fjárhæð 83.620 kr. með vöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 15. mars 2016 til móttöku kærunnar hjá yfirskattanefnd, en með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi og maki hennar, B, sem gengið höfðu í hjónaband 23. nóvember 2007 fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng hinn 22. desember 2015. Í tengslum við skilnaðinn gerðu þau samning um fjárskipti, dags. 21. desember 2015. Kom fram í fjárskiptasamningnum að eignir búsins væru íbúð að H-götu, hús að M og bifreiðin X. Myndu eignirnar skiptast þannig að B tæki yfir íbúðina, húsið og bifreiðina og myndi hann greiða kæranda 11.800.000 kr. vegna yfirtöku eignanna eigi síðar en 15. janúar 2016. Jafnframt var tiltekið að B tæki yfir tvö lán, annars vegar lán frá Arion banka hf. að fjárhæð 6.378.388 kr. og hins vegar lán frá LSR að fjárhæð 9.998.046 kr. Hjónin myndu auk þess halda hvort sínu láni frá LÍN. Með eignaskiptayfirlýsingu, dags. 31. desember 2015, lýstu kærandi og B því yfir að með fjárskiptasamningi, dags. 21. desember 2015, hefði B orðið eigandi að allri fasteigninni að H-götu. Bæri hann jafnframt einn ábyrgð á áhvílandi veðskuldum. Fylgdi yfirlýsingunni afrit af samningi um skilnaðarkjör. Umrætt skjal var móttekið til þinglýsingar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 31. desember 2015. Af tölvupóstsamskiptum sem liggja fyrir í málinu má ráða að sýslumaður hafi krafist greiðslu stimpilgjalds við þinglýsingu umrædds skjals og að greiðslu gjaldsins hafi verið mótmælt á þeim grundvelli að ekki væri um að ræða sölu á eign heldur uppgjör vegna fjárslita hjóna. Ætti álagning stimpilgjalds sér ekki lagastoð, en mælt væri fyrir um undanþágu frá greiðslu stimpilgjalds í b-lið 6. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Gæti greiðsla milli hjóna til jöfnunar hjúskapareigna aldrei talist sala. Af hálfu sýslumanns kom hins vegar fram að þar sem fyrir lægi samkvæmt fjárskiptasamningi kæranda og fyrrum maka að greiðsla hefði gengið á milli hjónanna fyrir eign ætti umrædd undanþága ekki við, sbr. lokamálslið b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013. Kærandi mun hafa greitt ákvarðað stimpilgjald samkvæmt ákvörðun sýslumanns þann 15. mars 2016. Á greiðslukvittun var kæranda leiðbeint um kæruheimild til yfirskattanefndar vegna ákvörðunarinnar, sbr. 11. gr. laga nr. 138/2013, sbr. 40. gr. laga nr. 125/2015, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 10. júní 2016, er gerð grein fyrir málsatvikum og tölvupóstsamskipti við sýslumann vegna málsins rakin. Kemur fram að krafa kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds sé byggð á því að öll skilyrði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 fyrir undanþágu skjals frá stimpilgjaldi séu uppfyllt í tilviki kæranda. Er vísað til þess að við gildistöku laga nr. 138/2013 hafi fallið úr gildi lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, en í 2. málsl. 5. mgr. 16. gr. þeirra laga hafi verið ákvæði sem hafi verið efnislega sambærilegt ákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013. Í janúar 2012 hafi fjármálaráðuneytið gefið út verklagsreglur við innheimtu stimpilgjalda samkvæmt lögum nr. 36/1978. Í umfjöllun um umrætt ákvæði séu í handbókinni tekin dæmi um það hvenær undanþága ákvæðisins eigi við og sé sem dæmi tekið tilvik er hjón eigi jafnan hlut í fasteign og með fjárskiptasamningi/dómi vegna fjárslita fái annað hjóna alla eignina í sinn hlut. Í slíku tilviki skuli ekki greitt stimpilgjald.

Að mati kæranda séu öll skilyrði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 uppfyllt. Kærandi og B hafi átt fasteign að jöfnu og við skilnað þeirra hafi þurft að ráðstafa henni ásamt öðrum hjúskapareignum þeirra. Með fjárskiptasamningi þeirra hafi verið ákveðið að B leysti fasteignina til sín. Auk þess hafi hann tekið yfir áhvílandi lán, bifreið og hús. Í staðinn skyldi hann greiða kæranda 11.800.000 kr. Með eignaskiptayfirlýsingu, dags. 31. desember 2015, hafi verið staðfest að B hafi yfirtekið húseignina að H. Kærandi hefði lagt fram leyfi til skilnaðar að borði og sæng auk fjárskiptasamnings þeirra hjóna og hafi með því uppfyllt skyldu sína til framlagningar þeirra gagna sem mælt sé fyrir um í verklagsreglum fjármálaráðuneytisins til staðfestingar að yfirfærsla eignarréttar sé undanþegin stimpilgjaldi. Ekki hafi verið um að ræða viðskipti milli hjónanna, svo sem sýslumaður líti á, heldur hafi verið um að ræða uppgjör hjúskapareigna við skilnað. Í tölvupóstum frá sýslumanni 12. janúar 2016 hafi verið óskað eftir útlistun á því hve hátt verð greitt hefði verið fyrir hvern hlut sem komið hefði í hlut B. Þá hafi sýslumaður útskýrt í tölvupósti 1. febrúar 2016 hvaða reiknireglu væri beitt við útreikning stimpilgjalds vegna eignayfirfærslu fasteignarinnar og í því sambandi vísað til b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013. Loks hafi sýslumaður greint frá því í tölvupósti 5. febrúar 2016 að máli skipti hver væri uppruni þeirra fjármuna sem greitt væri með. Ef þeir hefðu ekki verið hluti af heildareignum hjóna heldur komið annars staðar frá þyrfti að greiða stimpilgjald. Hafi sýslumaður tekið fram í tölvupósti 14. mars 2016 að skila þyrfti inn eignayfirlýsingu. Þyrfti að koma fram í fjárskiptasamningi hvernig eignir skiptust og væru aðrar eignir í uppgjöri en fasteign þyrftu að liggja fyrir í eignaskiptayfirlýsingu tölulegar upplýsingar. Þessari túlkun sýslumanns sé mótmælt, en samkvæmt verklagsreglum um innheimtu stimpilgjalda þurfi einungis að sýna leyfi til skilnaðar og fjárskiptasamning við afgreiðslu á undanþágu samkvæmt b-lið 6. gr. laga nr. 138/2013. Skilningur sýslumanns eigi sér því enga stoð í lögum. Ekki fái staðist að líta á það sem viðskipti þegar annað hjóna leysi til sín íbúð, yfirtaki lán og greiði fé til hins aðilans eins og í tilviki kæranda. Það leiði af ákvæðum stjórnarskrár að skattamálum skuli skipað með lögum og verði að gera þá kröfu til skattalaga að þau séu skýr og ótvíræð. Verði við túlkun á b-lið 6. gr. laga nr. 138/2013 að túlka allan vafa kæranda í hag. Er í þessu sambandi vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 928/1993, dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. mars 1994 í máli nr. E-6590/1993 og dóma Hæstaréttar Íslands frá 9. desember 1996 í máli nr. 437/1996 og 5. febrúar 1998 í máli nr. 224/1997. Jafnframt er bent á að sú ákvörðun sýslumanns, að innheimta stimpilgjald í andstöðu við b-lið 6. gr. laga nr. 138/2013, brjóti í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá standist krafa sýslumanns um tölulegar útskýringar á fjárskiptasamningi auk sérstakrar eignayfirlýsingar ekki lög og byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Í kærunni er bent á að sýslumaður hafi við meðferð málsins vísað til þess að fjármálaráðuneytið hafi úrskurðað um sambærilegt álitaefni með úrskurði, dags. 9. desember 2015. Sé það mat kæranda að atvik í því máli hafi verið ólík atvikum í máli kæranda. Í niðurstöðu fjármálaráðuneytisins í umræddu máli komi fram að gengið sé út frá því að fasteign hjóna hafi sætt helmingaskiptum á grundvelli samkomulags frá 23. júlí 2010. Í því ljósi hafi þinglýsing sýslumanns 7. júlí 2015 á skjali, dags. 26. júní 2012, falið í sér skráningu á eignayfirfærslu milli tveggja einstaklinga sem slitið hefðu fjárfélagi sínu. Kæmi 5. mgr. 16. gr. laga nr. 36/1978, sbr. nú b-lið 6. gr. laga nr. 138/2013, því ekki til álita og hafi ákvörðun sýslumanns um innheimtu stimpilgjalds og stimpilsektar vegna eignayfirfærslu fasteignarinnar verið staðfest. Tilvik kæranda sé ólíkt máli þessu, enda hafi kærandi og fyrrum maki gert samning um fjárskipti áður en þau fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng og fasteign þeirra verið ráðstafað með þeim samningi.

Kæru kæranda til yfirskattanefndar fylgja ýmis gögn, þ.e. ákvörðun sýslumanns, dags. 15. mars 2016, eignaskiptayfirlýsing, dags. 31. desember 2015, leyfi til skilnaðar að borði og sæng, dags. 22. desember 2015, endurrit úr hjónaskilnaðarbók, dags. 21. desember 2015, samningur um fjárskipti vegna skilnaðar, dags. 21. desember 2015, afrit af tölvupóstsamskiptum við sýslumann á tímabilinu 12. janúar til 14. mars 2016, afsal um H, dags. 15. ágúst 2007, verklagsreglur fjármálaráðuneytisins um innheimtu stimpilgjalda og loks úrskurður fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 9. desember 2015.

IV.

Með bréfi, dags. 5. september 2016, hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagt fram umsögn vegna kærunnar. Í umsögninni er upplýst að ákvörðun sýslumanns um greiðslu stimpilgjalds 15. mars 2016 hafi verið tekin við þinglýsingu skiptayfirlýsingar vegna eignarhalds fasteignanna H-götu í Reykjavík og M í X-hreppi. Í fjárskiptasamningi kæranda og B, dags. 21. desember 2015, hafi komið fram að í hlut B kæmu báðar framangreindar fasteignir auk bifreiðar. Þá hafi B greitt kæranda 11.800.000 kr. vegna yfirtöku eignanna. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013 skuli greiða stimpilgjald af skjölum er varði eignayfirfærslu fasteigna hér á landi. Gjaldskylda skjals fari eftir þeim réttindum sem það veiti en ekki nafni þess eða formi, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Í 6. gr. laganna sé kveðið á um undanþágu tiltekinna skjala frá stimpilgjaldi. Samkvæmt b-lið 6. gr. séu m.a. skjöl er sýna yfirfærslu fasteigna sem lagðar séu út til maka upp í búshelming undanþegnar stimpilgjaldi, enda sé ekki samhliða um sölu fasteignar eða söluafsal að ræða. Fjárskiptasamningur kæranda og fyrrum maka hafi verið gerður 21. desember 2015 og sé þar mælt fyrir um skiptingu á eignum bús þeirra. Umrædd fjárhæð 11.800.000 kr. hafi ekki verið talin meðal eigna hjónanna við skiptin heldur komi skýrt fram að fyrrum maki kæranda greiði kæranda þessa fjárhæð vegna þess að í hans hlut komi verðmeiri eignir en sem nemi hans hluta við skiptin á grundvelli helmingaskiptareglu hjúskaparlaganna. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 138/2013 sé meginreglan sú að greiða skuli stimpilgjald af öllum skjölum er varða eignayfirfærslu fasteigna hér á landi. Í 6. gr. sömu laga sé mælt fyrir um tilteknar undanþágur frá þessu. Í máli kæranda sé um að ræða sölu fasteigna samhliða fjárskiptum hjóna, enda hafi sú peningaeign sem kærandi hafi fengið greidda samkvæmt samningnum ekki fallið undir sameiginlegar eignir við fjárslitin, sbr. niðurlagsákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013. Gjaldskylda haldist í hendur við þau réttindi sem skjal veiti og sé ljóst að með skiptayfirlýsingu hjónanna hafi B fengið sömu réttindi yfir fasteignunum og ef um afsal væri að ræða. Undanþáguákvæði 6. gr. laganna eigi því ekki við nema að hluta þar sem samhliða fjárskiptum hjónanna sé í raun um sölu hluta fasteignanna að ræða.

Þá er í umsögn sýslumanns gerð nánari grein fyrir útreikningi stimpilgjalds vegna umræddra fasteigna. Kemur fram að tekið hafi verið mið af þeirri fjárhæð sem fram hafi komið í fjárskiptasamningi hjónanna 11.800.000 kr. Komið hafi fram að í hlut B kæmi einnig bifreið og hafi sýslumaður metið bifreiðina á 500.000 kr. Við ákvörðun gjaldstofns stimpilgjalds við þinglýsingu eignaskiptayfirlýsingar hjónanna hafi verið miðað við að B hafi greitt kæranda 11.300.000 kr. fyrir fasteignirnar, enda hafi matsverð eignanna ekki verið tilgreint. Í umsögninni er nánar tiltekið að ef matsverð aðila hefði verið lægra en fasteignamatið hefði verið miðað við 11.300.000 kr. á grundvelli 2. mgr. 4. gr. laga um stimpilgjald, þ.e. matsverðið geti aldrei verið lægra en fasteignamatið. Ef matsverðið hefði verið hærra en fasteignamatið þá hefði verið reiknað út hvert hlutfall fjárhæðarinnar hafi verið af fasteignamati og stofngjaldið fundið út frá því hlutfalli, þ.e. ef matsverð hefði verið ákveðið af aðilum 50.000.000 kr. en fasteignamatið væri 40.000.000 kr. og fjárhæðin sem greidd væri 11.300.000 kr. sem væri 22,6% af fasteignamati miðað við matsverðið 50.000.000 kr. þá hefði gjaldstofninn numið 9.040.000 kr. Loks er bent á, vegna athugasemda í kæru varðandi kröfu sýslumanns um gögn, að samkvæmt 10. mgr. 4. gr. laga nr. 138/2013 geti sýslumaður krafist nauðsynlegra skýringa og gagna vegna ákvörðunar um gjaldskylda fjárhæð.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. september 2016, var kæranda send umsögn sýslumanns í málinu og henni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með bréfi kæranda, dags. 27. september 2016, eru gerðar athugasemdir í tilefni af umsögn sýslumanns og afstaða kæranda áréttuð. Er m.a. tekið fram að í máli kæranda sé um að ræða yfirfærslu fasteigna upp í búshelming en ekki samhliða sölu eða söluafsal. Skipti engu máli við túlkun á þessu atriði í hvaða formi eða hver uppruni fjármuna sé. Um lögbundinn samning hafi verið að ræða samkvæmt hjúskaparlögum, en hjón geti ekki skilið nema þau hafi gert ráðstafafanir varðandi fjárhag sinn. Engin viðskipti hafi átt sér stað þrátt fyrir að reiðufé hafi skipt um hendur.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun stimpilgjalds af eignaskiptayfirlýsingu, dags. 31. desember 2015, vegna fasteignar að H-götu í Reykjavík. Í skjali þessu er því lýst yfir að með fjárskiptasamningi, dags. 21. desember 2015, vegna skilnaðar kæranda og B hafi B orðið eigandi að allri fasteigninni og beri einn ábyrgð á áhvílandi veðskuldum. Er nánar tiltekið deilt um það í málinu hvort umrætt skjal sé undanþegið stimpilgjaldi á grundvelli b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013, svo sem kærandi heldur fram. Því hafnaði sýslumaður með þeim rökum að þrátt fyrir að eignayfirfærsla fasteignarinnar byggðist á fjárskiptasamningi í tengslum við skilnað hefði samningurinn jafnframt falið í sér kaup B á hluta fasteignarinnar, þ.e. eignarhlut kæranda. Hefði B greitt kæranda samtals 11.800.000 kr. vegna yfirtöku tiltekinna eigna, þar með talið eignarhluta í fasteigninni, og sú fjárhæð ekki verið meðal tilgreindra eigna hjónanna samkvæmt fjárskiptasamningnum. Mat sýslumaður það svo að með umræddri greiðslu hefði B keypt 28,25% eignarhlut kæranda í fasteigninni að H. Að teknu tilliti til fasteignamats húseignarinnar 37.000.000 kr. bæri því að ákvarða gjaldstofn stimpilgjalds 10.452.500 kr. Af hálfu kæranda er því mótmælt að í samningi hennar og B um fjárskipti hafi falist sala á eign heldur hafi aðeins verið um skiptingu eigna í tengslum við skilnað að ræða. Sé skjalið því undanþegið stimpilgjaldi, sbr. b-lið 6. gr. laga nr. 138/2013.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Fer gjaldskylda skjals eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 138/2013, sbr. 1. gr. laga nr. 75/2014, ákvarðast stimpilgjald af gjaldskyldu skjali sem kveður á um eignaryfirfærslu fasteignar eftir matsverði eins og það er skráð í fasteignaskrá þegar gjaldskylda stofnast, enda endurspegli matsverðið byggingarstig eignar við afhendingu. Í 6. gr. laganna eru talin skjöl sem undanþegin eru stimpilgjaldi. Samkvæmt b-lið lagagreinarinnar falla þar undir skjöl er sýna yfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, enda sé ekki samhliða um sölu eða söluafsal að ræða.

Athugun á forsögu umrædds undanþáguákvæðis b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 leiðir í ljós að hliðstætt ákvæði var upphaflega tekið upp í lög um stimpilgjald með 1. gr. laga nr. 35/1933, um breyting á lögum nr. 75/1921, um stimpilgjald. Samkvæmt ákvæði þessu, sbr. lokamálslið 17. gr. laga nr. 75/1921, voru undanskildir stimpilgjaldi „útdrættir úr skiptabók og önnur skjöl, er sýna eignayfirfærslu fasteigna, er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur, eða maka upp í búshelming hans (lóðseðlar), enda sé eigi samhliða um sölu eða söluafsal að ræða“, eins og ákvæðið hljóðaði. Í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 35/1933, kom eftirfarandi fram um ástæður að baki lögtöku ákvæðisins:

„Ein aðalorsök þess, að afsals- og veðmálabækur eru eigi nú svo örugg heimild fyrir eignarrétti að fasteignum sem vera þyrfti, er sú, að þeir menn, er fá fasteignir að erfð, láta dragast, kostnaðarins vegna, að láta þinglesa eignarheimild sína (lóðseðil). Er það greiðsla stimpilgjaldsins, sem menn sérstaklega fráfælast, enda virðist það eigi sanngjarnt að taka bæði erfðafjárgjald og stimpilgjald af fasteignum, útlögðum við skipti, en aðeins erfðafjárgjald af lausafé. Kemur þetta sérstaklega hart niður og er erfitt í framkvæmd, þegar fasteign er útlögð maka, sumpart sem arfur, sumpart upp í búshelming hans. Mun þetta hafa leitt til mismunandi skilnings og framkvæmda á lögunum, og er sú ástæða ein næg til þess, að leitað sé heppilegri og sanngjarnari ákvæða. Er því hér lagt til, að stimpilgjaldið sé fellt alveg niður að því er lóðseðla snertir. Tekjutap ríkissjóðs vegna þessa getur eigi orðið svo tilfinnanlegt, að í það sé horfandi.“ (Þskj. nr. 161).

Í nefndaráliti fjárhagsnefndar Alþingis um frumvarpið, sbr. þskj. nr. 269, kom fram að nefndin féllist á efni frumvarpsins og rökstuðning. Var tekið fram að einkum væri ósamræmi í því, að gift kona, sem ætti óskilinn fjárhag með manni sínum, skyldi þurfa að greiða stimpilgjald til þess að fá þinglesna eignarheimild á sínum búshluta, vegna þess að maður hennar hefði einn verið talinn eigandi eignarinnar í veðmálabók.

Samkvæmt framansögðu verður að skýra ákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 í samræmi við orðalag þess og framangreind lögskýringargögn svo að skjöl varðandi yfirfærslu fasteigna vegna hjúskaparslita séu undanþegin stimpilgjaldi í þeim tilvikum er yfirfærslan felur að öllu leyti í sér úthlutun upp í eignarhlut (búshelming) annars hjóna, þ.e. hlutdeild þess í samanlögðum eignum sem koma til skipta, sbr. til hliðsjónar ákvæði XIV. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993. Feli yfirfærsla fasteignar hins vegar í sér úthlutun til annars hjóna umfram eignarhluta þess þannig að greiðsla komi fyrir að réttri tiltölu, sbr. 109. gr. laga nr. 31/1993, verður að telja að skjalið sé gjaldskylt í réttu hlutfalli við þá fjárhæð sem fram yfir er, enda er þá auk útlagningar upp í eignarhluta (búshelming) um að ræða samhliða sölu eða söluafsal til annars hjóna, sbr. niðurlagsákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013. Verður og að leggja til grundvallar í málinu að stjórnsýsluframkvæmd við ákvörðun stimpilgjalds hafi verið hagað til samræmis við þessa túlkun, sbr. verklagsreglur fjármálaráðuneytisins við innheimtu stimpilgjalda frá janúar 2012 þar sem byggt er á sama skilningi, sbr. tilgreind dæmi á bls. 17-18 í reglunum.

Hér að framan er lýst efni eignaskiptayfirlýsingar vegna yfirfærslu eignarréttar að fasteigninni við H-götu. Í yfirlýsingunni er vísað til fjárskiptasamnings, dags. 21. desember 2015, vegna skilnaðar kæranda og B, en samningurinn fylgdi kæru kæranda til yfirskattanefndar. Samkvæmt samningnum voru eignir hjónanna umrædd íbúð að H-götu, fasteign að M í X-hreppi og bifreið. Þá voru tilgreindar skuldir sem voru lán Arion banka hf. að fjárhæð 6.378.388 kr. og lán LSR að fjárhæð 9.998.046 kr. auk skulda hjónanna við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Samkvæmt samningnum skyldu eignir skiptast þannig að B tæki yfir fasteignir og bifreið og bæri honum að greiða kæranda 11.800.000 kr. vegna yfirtöku eignanna eigi síðar en 15. janúar 2016. Skuldir skyldu skiptast þannig að B tæki yfir allar skuldir að undanskildu láni kæranda frá LÍN.

Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að ákvörðun um greiðslu til kæranda að fjárhæð 11.800.000 kr. samkvæmt fjárskiptasamningi hennar og B sé til komin vegna útlagningar eigna til B sem hafi farið fram úr eignarhluta hans, sbr. 109. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Verður því að telja að í því hafi falist samhliða sala kæranda á eignarhlut hennar í þeim eignum sem B tók yfir samkvæmt samningi hjónanna um fjárskipti, sbr. niðurlagsákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013. Með vísan til þess og þar sem ekki verður séð að neinn tölulegur ágreiningur sé í málinu um fjárhæð stimpilgjalds vegna hinnar umdeildu eignayfirfærslu verður að hafna kröfu kæranda. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, enda eru lagaskilyrði fyrir greiðslu slíks kostnaðar ekki uppfyllt, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Gera verður athugasemd við að í fyrirliggjandi greiðslukvittun sýslumanns vegna greiðslu stimpilgjalds, dags. 15. mars 2016, koma engar leiðbeiningar fram um heimild kæranda til þess að fá ákvörðun sýslumanns rökstudda, svo sem áskilið er í 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er þetta aðfinnsluvert.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja