Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Tengivagn

Úrskurður nr. 246/2016

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Lög nr. 29/1993, 4. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um tollflokkun tengivagns, þ.e. gripaflutningakerru, sem kærandi hafði flutt til landsins. Yfirskattanefnd féllst á með tollstjóra að kerran félli undir þau tollskrárnúmer í tollskrá er tækju til annarra tengivagna og festivagna til vöruflutninga, enda varð ekki séð að kerran væri að neinu leyti sjálfhlaðandi eða sjálflosandi í skilningi tollskrárnúmera 8716.2011 til 8716.2099. Var kröfum kæranda því hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 23. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 89/2016; kæra A, dags. 15. apríl 2016, vegna bindandi álits tollstjóra. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 15. apríl 2015, varðar bindandi álit tollstjóra nr. 5/2016 á tollflokkun kerru af gerðinni Nugent Livestock Trailer sem embættið lét uppi hinn 19. janúar 2016 samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í álitinu komst tollstjóri að þeirri niðurstöðu að kerran félli undir tollskrárnúmer 8716.3921 í tollskrá. Í kærunni er þess krafist að niðurstöðu tollstjóra verði breytt og kerran verði talin falla undir tollflokk sem landbúnaðartæki.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með umsókn, dags. 14. janúar 2016, óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra á tollflokkun kerru af gerðinni Nugent Livestock Trailer, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2008. Fram kom að um væri að ræða gripaflutningakerru sem framleidd væri í Írlandi. Kerran væri landbúnaðartæki til nota við landbúnaðarstörf bænda, einkum við flutning búfjár. Var vísað til meðfylgjandi tölvupóstsamskipta kæranda við starfsmenn tollstjóra þar sem fram kæmi sú afstaða þeirra að umrædd kerra félli undir tollskrárnúmer 8716.3921 eða 8716.3929 í tollskrá eftir því hvort kerran væri ný eða notuð, en ekki tollskrárnúmer 8716.2091 eða 8716.2099 sem tækju til sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagna til landbúnaðarnota sem væru undanþegnir vörugjaldi á grundvelli g-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Þá benti kærandi á að samkvæmt upplýsingum starfsmanns tollstjóra væri sams konar kerra með sturtubúnaði talin falla undir sjálflosandi tengivagn til landbúnaðarnota og bæri sem slík engin vörugjöld. Kom fram að kæranda þætti misjöfn tollflokkun þessara tveggja tegunda kerra áhugaverð. Umsókninni fylgdi EC vottun frá framleiðanda vörunnar.

Tollstjóri lét uppi bindandi álit hinn 19. janúar í tilefni af umsókn kæranda þar sem tollstjóri taldi að umrædd kerra félli undir tollskrárnúmer 8716.3921. Var í því sambandi vísað til túlkunarreglna 1 og 6 við tollskrá.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 15. apríl 2016, kemur fram að kærandi telji tollflokkun tollstjóra á gripaflutningakerru ranga og réttara sé að flokka kerruna sem landbúnaðartæki, enda sé um að ræða kerru fyrir bændur sem stundi landbúnað. Vísar kærandi til þess að einungis bændur kaupi vöruna og nýti hana í landbúnaðarstörfum. Líkt og heiti vörunnar „Livestock Trailer“ eða „farmur með lifandi dýr“ gefi til kynna sé um að ræða sterkbyggða kerru sem flytji nautgripi, kindur og svín. Sumar kerrur séu með milligólfi sem geri það mögulegt að flytja sauðfé og svín á tveimur hæðum. Kerrurnar séu einnig notaðar til að færa nautgripi milli beitarhólfa. Ekki sé unnt að reka milli hólfa á öllum stöðum heldur geti verið nauðsynlegt að reka gripi upp í kerru og færa þannig á milli. Flytja þurfi gripi í slátarhús á kerru. Kemur fram að máli skipti að flokkun kerrunnar sem og sambærilegra kerra sé fyrirsjáanleg og skýr. Þá verði ávallt að gæta jafnræðis við tollflokkun og sjá til þess að jafnt gangi yfir alla, enda sé um dýrar kerrur að ræða. Vísar kærandi í þessu sambandi til vitneskju hans um að tilgreindur innlendur söluaðili hafi flutt sömu kerrutegund til landsins frá Írlandi án þess að greiða af henni toll. Kærunni fylgdu ljósmyndir af umræddri kerru.

IV.

Með bréfi, dags. 9. júní 2016, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er þess krafist að hin kærða ákvörðun tollstjóra í bindandi áliti nr. 5/2016 verði staðfest. Í umsögninni segir svo:

„Til rökstuðnings niðurstöðu sinni, umfram vísun til túlkunarreglna 1 og 6 við Tollskrá byggir Tollstjóri mál sitt á því að tengivagnar og festivagnar flokkast í vörulið 8716. Í tollskrárnúmer 8716.2011 til og með 8716.2099 flokkast sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagnar og festivagnar til landbúnaðarnota. Kerra sú sem bindandi álitið varðar er ekki með sjálfhlaðandi eða sjálflosandi búnað (í texta skýringabóka Alþjóðatollastofnunarinnar „automatic loading devices“) og getur af þeim sökum ekki flokkast í ofangreind tollskrárnúmer. Skýringabækur Alþjóðatollastofnunarinnar taka af allan vafa um að tengivagnar til landbúnaðarnota, s.s. til gripaflutninga, skuli flokkast í tollskrárnúmer 8716.3911 til og með 8716.3999 svo lengi sem þær séu eru ekki með sjálfhlaðandi eða sjálflosandi búnað. Máli sínu til stuðnings leggur Tollstjóri fram ljósrit úr skýringarbókum Alþjóðatollstofnunarinnar, sjá lið (A) (4) (e) í meðfylgjandi ljósriti. Aðrir nýir tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga að heildarþyngd meira en 750 kg til og með 5 tonnum flokkast því í tollskrárnúmer 8716.3921.

Kærandi vísar til þess í kæru sinni og jafnframt í beiðni um bindandi álit að tiltekið fyrirtæki hafi flutt inn samskonar kerru frá sama framleiðanda í Írlandi án greiðslu tolla og að jafnræðis sé því ekki gætt gagnvart sér. Tollstjóri vill vekja athygli á því að mál þetta varðar álagningu vörugjalds og að hvorugt tollskrárnúmer beri tolla. Hafi kærandi átt við að annar aðili hafi flutt samskonar kerru til landsins undir öðru tollskrárnúmeri og þar með án greiðslu vörugjalda vill Tollstjóri byrja á taka það fram, að embættið getur ekki tjáð sig við innflytjendur um tollmeðferð annarra innflytjenda.

Tollstjóri er bundinn af tollskrá er varðar tollflokkun, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Sambærilegar kerrur myndu því fá sambærilega tollflokkun hjá Tollstjóra við innflutning til landsins. Aftur á móti skal þess getið að í kringum 80-85% tollafgreiðslna fara rafrænt fram í gegnum tollakerfi og eru ekki allar sendingar skoðaðar sérstaklega. Rafræn afgreiðsla sendingar felur ekki í sér samþykki Tollstjóra á réttmæti upplýsinga í aðflutningsskýrslu og er embætti Tollstjóra heimilt að leiðrétta ranga afgreiðslu allt að sex ár aftur í tímann, sbr. XIV. kafla tollalaga. Tollstjóri áréttar að þrátt fyrir að sambærileg mál skuli afgreiða með sambærilegum hætti, þá réttlætir röng framkvæmd í einu tilviki ekki áframhaldandi ranga framkvæmd í öðru.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. júní 2016, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæra í máli þessu varðar bindandi álit tollstjóra samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem embættið lét uppi 19. janúar 2016 í tilefni af beiðni kæranda 14. sama mánaðar. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra um tollflokkun kerru af gerðinni Nugent Livestock Trailer sem kærandi ráðgerði að flytja til landsins. Hvorki í umsókn kæranda um bindandi álit tollstjóra né í kæru til yfirskattanefndar kemur fram í hvaða tollskrárnúmer kærandi telji að hin umrædda kerra beri að falla. Kærandi vísar einkum til þess að rétt sé að flokka vöruna sem landbúnaðartæki. Verður ráðið af umsókn kæranda um bindandi álit að hann telji misræmi í meðhöndlun tollstjóra á tollflokkun annars vegar þeirri kerru sem mál þetta varðar, Nugent Livestock Trailer, og hins vegar annars konar kerru frá sama framleiðanda, Nugent T-Line. Eins og fram er komið taldi tollstjóri rétt að tollflokka seinni kerruna undir tollskrárnúmer 8716.2091 til 8716.2099. Ólíkt vörum sem falla undir tollskrárnúmer 8716.3921 eru slíkar vörur undanþegnar vörugjaldi, sbr. g-lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Verður að skilja kröfu kæranda með þeim hætti að hann telji rétt að fella þá kerru sem málið varðar undir tollskrárnúmer 8716.2091 til 8716.2099 þannig að innflutningar hennar verði undanþeginn vörugjöldum.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla.

Í 2. mgr. 74. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, er vikið að skýringarriti Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um tollflokkun. Þar segir: „Fyrstu sex stafirnir í átta stafa tollskrárnúmerum tollskrárinnar eru í samræmi við vöruflokkunarkerfi Alþjóða tollastofnunarinnar sem Ísland er skuldbundið til að fylgja, sbr. auglýsingu nr. 25/1987. Skýringarritum og álitum Alþjóða tollastofnunarinnar um tollflokkun er ætlað að stuðla að samræmdri túlkun á flokkunarkerfi stofnunarinnar og geta verið til leiðbeiningar um tollflokkun samkvæmt íslensku tollskránni, enda þótt þau séu ekki bindandi að landsrétti.“

Í 87. kafla tollskrár er fjallað um ökutæki og fylgihluta til þeirra. Í vörulið 8716 tollflokkast: „Tengivagnar og festivagnar; önnur ökutæki ekki vélrænt knúin; hlutar til þeirra“. Tollskrárnúmer 8716.2011 til 8716.2099 taka til „sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagna og festivagna til landbúnaðarnota“, nánar flokkað eftir þyngd og hvort að um nýjan eða notaðan vagn sé að ræða. Tollskrárnúmer 8716.3101 til 8716.3999 nái til „aðra tengivagna og festivagna til vöruflutninga“, meðal annars nánar flokkað eftir þyngd og hvort um nýjan eða notaðan vagn sé að ræða.

Í umsögn tollstjóra í máli þessu, dags. 9. júní 2016, er m.a. vísað til skýringarrits Alþjóðatollastofnunarinnar varðandi vörulið 8716. Eru „sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagnar og festivagnar til landbúnaðarnota“, skýrðir með svofelldum hætti í lið (A):

„(2) Self-loading agricultural trailers fitted with automatic loading devices and possibly also with attachments for chopping forage, maize (corn) stalks, etc.

This heading does not cover self-loading trailers permanently mounted with harvesting equipment, for cutting, chopping and transporting grass, maize (corn), etc. (heading 84.33).

(3) Self-unloading trailers for carrying different products (forage, manure, etc.), with a moving floor for unloading purposes; these vehicles can be fitted with various attachments (manure chopper, forage shredder, etc.) to adapt them for use as a muck spreader, forage box or root trailer.“

Þá eru tekin dæmi um „aðra tengivagna og festivagna til vöruflutninga“ með svofelldum hætti:

„(4) Other trailers for the transport of goods such as :

(a) Tanker trailers (whether or not fitted with pumps).

(b) Agricultural, public works, etc., trailers (whether or not tipping).

(c) Refrigerator or insulated trailers for the transport of perishable goods.

(d) Removal trailers.

(e) Single or double-decker trailers for the transport of livestock, motor cars, cycles, etc.

(f) Trailers adapted for the transport of certain goods (e.g., plate glass).

(g) "Road-rail" (intermodal) trailers (intended mainly for use as road trailers, but so designed that they may be transported on special railway wagons fitted with guide rails).

(h) Trailers fitted with rails for road transport of railway wagons.

(ij) Drop-frame trailers with loading ramps for the transport of heavy equipment (tanks, cranes, bulldozers, electrical transformers, etc.).

(k) Two- or four-wheel independent timber-carrying bogies.

(l) Logging trailers for the transport of timber.

(m) Small trailers towed by cycles or motor cycles.“

Samkvæmt skýringum Alþjóðatollastofnunarinnar í lið (A) (2) þarf tengivagn eða festivagn að vera útbúinn búnaði sem hleður vörur með sjálfvirkum hætti í vagninn til þess að teljast „sjálfhlaðandi“ í skilningi tollskrárnúmera 8716.2011 til 8716.2099. Þá þarf tengivagn eða festivagn að hafa hreyfanlegt gólf til að losa vörur úr honum með sjálfvirkum hætti til að geta talist „sjálflosandi“ samkvæmt sömu tollskrárnúmerum. Er tekið dæmi um fóður og áburð í því sambandi. Í málinu liggur fyrir EC vörulýsing kerunnar ásamt myndum. Þá hefur kærandi lýst notagildi hennar með þeim hætti að kerran sé notuð til að flytja búfé á milli staða. Eins og bent er á í umsögn tollstjóra og fram kemur hér að ofan er í lið (A) (4) (e) í skýringarriti Alþjóðatollastofnunarinnar gert ráð fyrir því að vagnar sem hannaðir eru til að flytja búfé geti fallið undir „aðra tengivagna og festivagna til vöruflutninga“, sbr. tollskrárnúmer 8716.3101 til 8716.3999. Með hliðsjón af því verður að telja að viðkomandi vara falli undir síðastgreind tollskrárnúmer, enda verður ekki séð að kerran sé að neinu leyti sjálfhlaðandi eða sjálflosandi í þeim skilningi sem hér að framan greinir. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja