Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 65/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. og B-liður — 15. gr. — 59. gr. 1. mgr. — 100. gr. 3. mgr.   Lög nr. 46/1987 — 2. gr.  

Bifreiðaviðskipti — Atvinnurekstur — Atvinnurekstrartekjur — Sjálfstæð starfsemi — Bifreiðainnflutningur — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Söluhagnaður, skattfrjáls — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Sönnun — Sönnunarbyrði — Gróðaskyn — Reiknað endurgjald — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra til ákvörðunar á reiknuðu endurgjaldi — Viðmiðunarflokkur reiknaðs endurgjalds — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Niðurfellingarhlutfall — Kröfugerð kæranda — Kæru áfátt — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar

Málavextir eru þeir, að skv. greinargerð um eignabreytingar í skattframtali sínu árið 1988 seldi kærandi tvær bifreiðar á árinu 1987 en keypti þrjár bifreiðar, er hann átti allar í árslok 1987, sbr. E2 í skattframtali. Auk þessara bifreiðaviðskipta flutti kærandi inn sex bifreiðar frá Bandaríkjunum á árinu 1987 og seldi hér á landi. Samkvæmt rekstrarreikningi, er fylgdi skattframtalinu vegna bifreiðainnflutnings þessa, nam söluverð bifreiðanna greitt í peningum og bifreiðum 4.150.000 kr., gjaldfært kaupverð og annar kostnaður 3.091.398 kr. og mismunur því 1.058.602 kr. Ekki færði kærandi sér þessar hreinu tekjur til tekna í framtalinu.

Með bréfi, dags. 27. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1988, að nefnd fjárhæð 1.058.602 kr. væri færð honum til tekna á þann hátt, að 464.000 kr. væru færðar til tekna í reit 24 í skattframtalinu sem reiknað endurgjald og 594.602 kr. í reit 62 sem hreinar tekjur af atvinnurekstri.

Í kæru, dags. 27. ágúst 1988, til skattstjóra krafðist umboðsmaður kæranda þess, að öll fjárhæðin 1.058.602 kr. yrði færð sem reiknað endurgjald í reit 24, en láðst hefði að færa þá færslu af rekstrarreikningi á framtal við gerð þess. Þá segir svo í kærunni:

„Bílainnflutningur A fór allur fram á seinni helmingi ársins 1987 og 1.1.’88 sat hann uppi með bílaeign að upphæð kr. 1.340.000.- allt bílar sem hann hafi tekið upp í andvirði innfluttu bílanna. Þessir bílar hafa nú verið seldir með miklum afföllum. Kaup A á bílunum 6 í U.S.A. voru ekki með milligöngu bílasala þar eða hér, heldur beint við eigendur skv. auglýsingu í dagblöðum. A vinnur nú hjá Y og var kaup hans fyrir júlí s.l. kr. 57.000.-.

Ég fæ ekki með nokkru móti séð, að hægt sé að færa bílabrask A undir hugtakið atvinnurekstur og þess vegna eigi að færa ætlaðan hagnað hans eða hluta hans í reit 62.

Með tilvísun til framanritaðs er þess farið á leit við yður, hr. skattstjóri, að leiðrétting mín verði tekin til greina og álögum á A verði breytt til samræmis við hana.“

Í kæruúrskurði, dags. 21. nóvember 1988, féllst skattstjóri á að hækka reiknað endurgjald kæranda í 619.500 kr. Í úrskurðinum segir svo:

„Verulegs ósamræmis gætir í rökstuðningi með kæru, en kærandi fer annars vegar fram á hækkun reiknaðra launa, vegna eigin atvinnureksturs eða sjálfstæðrar starfsemi – reitur 24 –, en heldur því hins vegar fram að bifreiðainnflutningur sinn falli ekki undir atvinnurekstur.

Að virtu umfangi viðskipta kæranda þykir ljóst að mati skattstjóra að um sé að ræða eigin atvinnurekstur kæranda. Er þá einnig til þess að líta að meginhluti tekna kæranda á árinu 1987 eru af bifreiðainnflutningi. Í bréfi sínu dags. 21. júlí 1988 ákvarðaði skattstjóri reiknuð laun kæranda með hliðsjón af E flokki viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra, en mat framtalsgögn svo að um heilsársstarf væri að ræða.

Skv. kærubréfi starfaði kærandi við innflutning og sölu bifreiða seinni hluta ársins 1987.

Ljóst þykir að starf kæranda má fella undir C flokk viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra, þ.e. viðmiðunarlaun kr. 826.000.- fyrir fullt starf allt árið. Reiknuð laun kæranda verða því kr. 413.000.-. Eftir atvikum þykir þó mega hækka reiknuð laun um 50%, eða í kr. 619.500.-, sbr. margnefndar viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra. Hreinar tekjur af rekstri verða kr. 439.102.- og færast í reit 62 á skattframtali.

Samkvæmt ofanrituðu verður stofn til launatengdra gjalda kr. 619.500.-. Niðurfellingarhlutfall vegna tekjuskatts og útsvars er því 60,39%.“

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. desember 1988, og krefst hann frekari lækkunar álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1988 en skattstjóri hefur ákveðið. Rök kæranda eru svofelld: „Ég get ekki fallist á, að innflutningur 6 notaðra bifreiða verði talinn atvinnurekstur. Margir Íslendingar kaupa og selja innanlands notaða bíla með hagnaði og tapi. Hér á ég ekki við svokallaðar bílasölur. Hvað þarf að kaupa og selja marga notaða bíla á ári svo skattayfirvöld telji að um atvinnurekstur sé að ræða? Sex, fimm, fjóra, þrjá eða tvo.“

Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Skilja verður kröfugerð kæranda svo, að hann krefjist þess, að með söluhagnað af umræddum bifreiðum skuli farið eftir ákvæðum 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en bifreiðaviðskipti þessi eigi talin sjálfstæð starfsemi. Eigi kemur fram af hálfu kæranda, hvort hann telur að skattleggja beri þann söluhagnað, sem reiknast myndi samkvæmt þessari niðurstöðu eftir 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 eða hvort hann lítur svo á, að hagnaðurinn teljist eigi til skattskyldra tekna skv. ákvæðum 2. mgr. þessarar lagagreinar. Að svo vöxnu og eins og mál þetta liggur fyrir þykir bera að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja