Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 261/2016

Lög nr. 138/2013, 5. gr. 3. og 4. mgr.   Lög nr. 37/1993, 20. gr. 2. mgr.  

Kærendur í máli þessu keyptu íbúðarhúsnæði og var A kaupandi að 73% hlut í húsnæðinu og B kaupandi að 27% hlut. Þar sem B uppfyllti ekki það skilyrði fyrir helmingsafslætti af stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis, að verða þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi þeirrar eignar sem keypt væri, var sýslumaður talinn hafa ákvarðað stimpilgjald af kaupsamningi um fasteignina í samræmi við lög.

Ár 2016, miðvikudaginn 14. desember, er tekið fyrir mál nr. 160/2016; kæra A og B, dags. 12. ágúst 2016, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefni í máli þessu, sbr. bréf kæranda, A, dags. 12. ágúst 2016, til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um stimpilgjald af kaupsamningi um fasteignina K í Reykjavík. Bréf kæranda hefur ráðuneytið framsent yfirskattanefnd á þeim grundvelli að um sé að ræða kæru samkvæmt 11. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, með áorðnum breytingum.

Í kærunni er greint frá því að kærendur hafi nýlega fest kaup á sinni fyrstu fasteign. Þegar komið hafi að þinglýsingu kaupsamnings og greiðslu stimpilgjalds hafi sýslumaður tjáð kærendum að ekki fengist helmingsafsláttur af stimpilgjaldi að hlut B þar sem hún væri ekki að kaupa helmingshlut í eigninni. Einföld ástæða sé fyrir því að hlutur B sé lægri, þ.e. að hún hafi ekki haft það mikla fjármuni á hendi til að leggja til kaupanna. Hér sé um að ræða verulega annmarka á lögum um stimpilgjald sem geri það að verkum að pör sem ekki leggi til 50/50 af útborgun fyrstu eignar þurfi að greiða talsvert meira í stimpilgjald en ella. Að sama skapi leiði ákvæði laganna til þess að nú hafi B gengið frá kaupum á sinni fyrstu eign og kasti þar með frá sér rétti til helmingsafsláttar á stimpilgjaldi. Auk þess að vekja athygli á þessum annmörkum á stimpilgjaldslögum sé óskað eftir endurgreiðslu á ofreiknuðu stimpilgjaldi.

II.

Með bréfi, dags. 8. september 2016, hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögn sýslumanns er vakin athygli á því að kröfugerð í kærunni sé óljós, enda komi hvorki fram hvaða fasteign málið varði né fjárhæð hins kærða stimpilgjalds. Þá séu í kærunni gerðar athugasemdir við réttmæti viðkomandi löggjafar og tjái sýslumaður sig ekki um slík atriði. Líklega beinist kæran að ákvörðun sýslumanns frá 26. apríl 2016 um stimpilgjald vegna kaupsamnings um fasteignina K í Reykjavík, sbr. skjal nr. ... Skjal þetta hafi verið afturkallað úr þinglýsingu 10. maí 2016 og lagt inn að nýju til þinglýsingar 18. maí 2016 sem skjal nr. ... Fram komi í b-lið 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 að meðal skilyrða fyrir undanþágu samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar fyrir helmingsafslætti stimpilgjalds vegna fyrstu fasteignakaupa sé að kaupandi íbúðarhúsnæðis verði þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi hinnar keyptu eignar. Ljóst sé að sýslumaður hafi ekki lagaheimild til að ákvarða stimpilgjald með öðrum hætti en lög geri ráð fyrir.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. september 2016, var kæranda, A, sent ljósrit af umsögn sýslumanns í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal m.a. greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Um gjaldstofn stimpilgjalds í þessum tilvikum fer samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna skal greiða 0,8% stimpilgjald af gjaldskyldum skjölum ef rétthafi er einstaklingur. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar greiðist hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali þegar um er að ræða fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Þá kemur fram í a-lið 4. mgr. lagagreinarinnar að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi samkvæmt 3. mgr. sé að kaupandi hafi ekki verið áður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði. Samkvæmt b-lið sömu málsgreinar er jafnframt skilyrði að kaupandi íbúðarhúsnæðis verði þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi þeirrar eignar sem keypt er.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun stimpilgjalds af kaupsamningi um kaup kærenda á íbúðarhúsi að K í Reykjavík. Kaupsamningurinn, sem er dagsettur 20. mars 2016, var lagður inn til þinglýsingar 26. apríl 2016, en afturkallaður úr þinglýsingu 10. maí 2016 og lagður inn að nýju til þinglýsingar 18. maí 2016. Hafði þá einnig verið færð á skjalið dagsetningin 11. maí 2016. Samkvæmt kaupsamningnum er kærandi, A, kaupandi að 73% hlut í íbúðarhúsnæðinu og kærandi, B, kaupandi að 27% hlut. Ljóst er af gögnum málsins að við ákvörðun stimpilgjalds af kaupsamningnum byggði sýslumaður á því að þar sem B yrði ekki eigandi að a.m.k. helmingi hinnar keyptu eignar væri í tilviki hennar ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 fyrir helmingsafslætti af stimpilgjaldi. Ekki hefur annað komið fram en að A hafi notið afsláttar að sínu leyti.

Af hálfu kærenda er út af fyrir sig ekki dregið í efa að sýslumaður hafi ákvarðað stimpilgjald af umræddum kaupsamningi í samræmi við lög. Verður og ekki annað séð af fyrirliggjandi gögnum en að svo hafi verið. Að svo vöxnu verður ekki haggað við ákvörðun sýslumanns.

Ástæða þykir til að taka fram að meðal gagna málsins er hvorki tilkynning sýslumanns til kæranda um greiðslu stimpilgjalds né kvittun fyrir móttöku þess. Samkvæmt lögum nr. 138/2013 er ekki gerður áskilnaður um samhliða rökstuðning sýslumanns fyrir ákvörðun sinni um stimpilgjald. Á hinn bóginn verður að telja að sýslumanni sé skylt að leiðbeina aðila um að fá ákvörðun rökstudda, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ganga verður út frá því að slík leiðbeining hafi komið fram í tilkynningu/kvittun sýslumanns auk leiðbeininga um kæruheimild.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja