Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 868/1990
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 9. tl. — 96. gr. 3. og 4. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml.
Starfslokafrádráttur — Starfslok — Tekjutímabil — Launatekjur — Frádráttarheimild — Sönnun — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Rannsóknarregla — Málsmeðferð áfátt
Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í reit 36 í skattframtali sínu árið 1987 frádrátt samkvæmt 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breyting á þeim lögum. Frádráttarfjárhæð nam 954.224 kr. Ekki verður séð, að skattframtalinu hafi fylgt sérstök yfirlýsing og greinargerð vegna þessa frádráttar, sbr. eyðublað R3.08. Frádráttarfjárhæðin nam hins vegar meginhluta tekna kæranda skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 árið 1986. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 var byggt á frádrætti þessum. Með bréfi, dags. 29. nóvember 1988, boðaði skattstjóri kæranda niðurfellingu á umræddum frádráttarlið og endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1988 af þeim sökum. Forsendur skattstjóra voru þær, að af framtalsgögnum árið 1988 yrði ekki séð, að kærandi hefði látið af störfum vegna aldurs á árinu 1987. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 3. desember 1988, var hinni fyrirhuguðu breytingu mótmælt. Kom þar fram, að kærandi, sem væri múrari að atvinnu, hefði unnið við flísalögn í nýja Seðlabankahúsinu tímabilið janúar til maí 1987 myrkranna á milli. Hefði hann ráðgert að hætta, þegar því starfi væri lokið, sem reiknað hefði verið með, að yrði um mánaðarmótin apríl/maí 1987. Því hefði hins vegar ekki lokið fyrr en um miðjan maí og hefði hann þá hætt allri vinnu. Sæist það á launamiða, er bréfinu fylgdi, að hann hefði aðeins unnið 22 vikur á árinu fyrir utan smávægilega aukavinnu. Þá gerði umboðsmaðurinn grein fyrir því að m.t.t. launabreytinga milli 1986 og 1987 hefðu laun kæranda árið 1987 átt að nema 1.468.811 kr. miðað við framreikning launa 1986 en hefðu aðeins verði 765.814 kr. eða einungis 50% þess, sem eðlilegt gæti talist. Með bréfi, dags. 21. mars 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinnar boðuðu breytingar og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1987 sem af því leiddi, enda yrði ekki séð, að hann hefði látið af störfum vegna aldurs á árinu 1987.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 6. apríl 1989. Þeirri túlkun var andæft, að 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 áskildi, að aldrei mætti koma til launaðrar vinnu eftir starfslok í skilningi ákvæðisins. Kærandi hefði hætt allri vinnu í maí 1987 og ekki unnið í heilt ár. Hefði hann verið í góðri trú varðandi rétt sinn til starfslokafrádráttar. Hann væri einn fárra manna hérlendis með reynslu í steinklæðningu utanhúss. Hefði hann séð um slíkt verk á nýja Seðlabankahúsinu. Hefði þess verið farið á leit við hann, að hann tæki að sér samskonar klæðningu á hús fyrir aldraða við A og heilsugæslustöð. Hann hefði verið tregur til en látið til leiðast. Þegar því verki lyki vorið 1989, væri ekki frekari vinna áformuð. Sú kvöð, að leggja á kæranda að mega ekki tímabundið taka að sér verk, eftir að hafa ekkert unnið í heilt ár, væri fráleit.
Með kæruúrskurði, dags. 13. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Eru forsendur svohljóðandi:
„Í 9. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, sbr. lög nr. 8/1984, er heimild til frádráttar á nánar tilgreindum tekjum „sem maður hefur aflað á síðustu tólf starfsmánuðum sínum áður en hann lætur af störfum vegna aldurs“. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 8/1984 segir:
„Með frumvarpi þessu er lagt til að menn sem láta af störfum fyrir aldurs sakir geti dregið að fullu frá skattskyldum tekjum sínum hreinar launatekjur sínar síðustu tólf starfsmánuðina. Það greiðslukerfi beinna skatta sem ríkir hér á landi skapar mönnum ætíð erfiðleika þegar tekjur minnka snögglega enda eru skattar greiddir ári eftir að þeirra tekna var aflað sem skattlagðar eru“.
Tilgangurinn með setningu umrædds lagaákvæðis var því að gera mönnum kleift að láta af störfum sínum þegar þeir kysu – eftir að 55 ára aldri var náð. Af framtali kæranda verður ekki ráðið að hann hafi látið af störfum á árinu 1987.
Kærandi dró frá tekjum sínum á skattframtali 1987 tekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er hann hafði aflað á tímabilinu 1. maí til 31. desember 1986 og byggði frádrátt þennan á 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. nefndra laga. Skv. gögnum málsins var hér eigi um að ræða tekjur er kærandi aflaði á síðustu tólf starfsmánuðum sínum, áður en hann lét af störfum vegna aldurs. Hann hefur því eigi uppfyllt lagaskilyrði fyrir frádrætti þessum.“
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. desember 1989. Krefst umboðsmaðurinn þess, að tilfærður starfslokafrádráttur í framtali árið 1987 verði að fullu tekinn til greina. Vísar umboðsmaðurinn til rökstuðnings og skýringa í bréfum til skattstjóra og mótmælir þeirri niðurstöðu skattstjóra, að kærandi hafi ekki látið af störfum á árinu 1987. Auk fyrri rökstuðnings vísar umboðsmaðurinn til yfirlýsingar vinnuveitanda kæranda, dags. 11. desember 1989, um starfslok kæranda hjá honum í lok maí 1987, en yfirlýsing þessi fylgdi kærunni. Í kærunni tekur umboðsmaðurinn fram, að með skattframtali 1987 hafi verið send greinargerð um starfslok R3.08 og hefði frádráttur tekna miðast við tímabilið 1. maí 1986 til 31. desember 1986. Vegna upptöku staðgreiðslu hefði láðst að senda greinargerð með framtali 1988 vegna launa 1. janúar 1987 til 30. apríl 1987. Þessar upplýsingar hafi þó komið fram í bréfi til skattstjóra, dags. 3. desember 1988. Kærunni fylgdi greinargerð vegna starfslokafrádráttar 1988 v/launa 1. janúar 1987 til 25. maí 1987.
Með bréfi, dags. 21. maí 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Af hálfu skattstjóra hefur verið byggt á því, að tilfærð frádráttarfjárhæð í framtali árið 1987 vegna starfsloka væru tekjur kæranda skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 tímabilið 1. maí 1986 til 31. desember 1986. Frádrátt þennan felldi skattstjóri niður á þeim forsendum, að kærandi hefði ekki látið af störfum á árinu 1987. Skýringar kæranda tók skattstjóri eigi til rökstuddrar úrlausnar og hin umdeilda breyting er tæpast byggð á nægjanlega traustum grunni. Í máli þessu er að engu leyti byggt á síðar tilkomnum atvikum. Að virtum málsgögnum þykir kærandi hafa leitt í ljóst á fullnægjandi hátt, að hann hafi hætt störfum í maílok 1987 og fær því forsenda skattstjóra fyrir breytingunni ekki staðist. Í ljósi þess tímamarks starfsloka, sem upplýst hefur verið, er sýnt, að fjárhæð starfslokafrádráttar hefur að nokkru verið offærð. Eins og málið er lagt fyrir verður rétt fjárhæð eigi fundin. Eins og mál þetta liggur fyrir og málsmeðferð hefur verið háttað þykir rétt að fella breytingu skattstjóra með öllu niður og láta frádráttarliðinn standa að svo stöddu óbreyttan.