Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur við innflutning
  • Rafmagnsbifreið, undanþága

Úrskurður nr. 31/2017

Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXIV (brl. nr. 69/2012, 10. gr.).  

Rafmagnsbifreið, sem kærandi flutti inn notaða til landsins á árinu 2013, var ekki talin uppfylla skilyrði fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti þar sem bifreiðin var eldri en þriggja ára á innflutningsdegi.

Ár 2017, miðvikudaginn 8. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 202/2016; kæra A, dags. 14. október 2016, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Helstu málavextir eru þeir að með kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. ágúst 2016, mótmælti kærandi ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á bifreið frá Bandaríkjunum í júlí 2016. Í kærunni kom fram að kærandi hefði ráðist í innflutning á bifreiðinni, sem væri af gerðinni Nissan Leaf, á grundvelli upplýsinga á heimasíðu tollstjóra sem borið hefðu með sér að slík bifreið væri undanþegin aðflutningsgjöldum sem rafmagnsbifreið. Við tollafgreiðslu bifreiðarinnar hefði kærandi hins vegar verið krafin um virðisaukaskatt að fjárhæð 393.000 kr. Tollstjóri hefði gefið þær skýringar á þeirri álagningu að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, væri það skilyrði fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti við innflutning á notaðri rafmagnsbifreið að bifreiðin væri þriggja ára eða yngri á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu. Þar sem hin innflutta bifreið kæranda væri fimm ára gömul (árgerð 2011) væru skilyrði undanþágunnar því ekki fyrir hendi í tilviki hennar. Í kærunni benti kærandi á að á heimasíðu tollstjóra kæmi hvergi fram að bifreið þyrfti að vera yngri en þriggja ára. Í ljósi þess að upplýsingar á heimasíðu tollstjóra hefðu þannig verið ófullnægjandi og leitt til fjárhagslegs tjóns fyrir kæranda væri þess farið á leit að ákvörðun tollstjóra yrði afturkölluð og álagður virðisaukaskattur vegna bifreiðarinnar yrði endurgreiddur kæranda.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. ágúst 2016, var kæra kæranda framsend tollstjóra til meðferðar í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki hefði verið kveðinn upp neinn úrskurður tollstjóra í málinu sem kæranlegur væri til yfirskattanefndar, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Tollstjóri tók mál kæranda til meðferðar sem kæru samkvæmt 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 og með kæruúrskurði, dags. 3. október 2016, hafnaði tollstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum rakti tollstjóri gang málsins. Þá kom fram að þrátt fyrir að það væri stefna embættis tollstjóra að allar upplýsingar sem birtar væru á heimasíðu tollstjóra væru réttar gæti embættið ekki ábyrgst það í öllum tilvikum. Rangar upplýsingar á heimasíðunni gætu ekki skapað mönnum rétt eða skyldu umfram ákvæði laga. Þá kynni upplýsingum á síðu tollstjóra að vera breytt hvenær sem er án sérstaks fyrirvara eða tilkynningar þar um. Að svo búnu reifaði tollstjóri í úrskurðinum ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum nr. 50/1988 og benti á að þar sem hin innflutta bifreið kæranda hefði verið eldri en þriggja ára á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu væru skilyrði fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti vegna innflutningsins ekki fyrir hendi. Því yrði að hafna kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í niðurlagi úrskurðarins kom fram að upplýsingagjöf á heimasíðu tollstjóra yrði tekin til skoðunar og að kærandi ætti þess kost að láta reyna á bótakröfu vegna málsins fyrir dómstólum.

II.

Með kæru, dags. 14. október 2016, hefur kærandi skotið kæruúrskurði tollstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni eru ítrekuð þau sjónarmið sem fram komu í kæru kæranda, dags. 12. ágúst 2016. Þá er bent á að þrátt fyrir að fram komi í hinum kærða úrskurði að upplýsingar á heimasíðu tollstjóra yrðu teknar til skoðunar hafi heimasíðan enn ekki verið uppfærð og því mögulegt að aðrir innflutningsaðilar hafi orðið fyrir sams konar tjóni og kærandi. Sé þess því krafist að ákvörðun tollstjóra um álagningu virðisaukaskatts verði afturkölluð og virðisaukaskatturinn endurgreiddur kæranda. Þá sé ítrekuð krafa kæranda um „uppfærslu á heimasíðu embættisins til að forða frekari fjárhagslegum skaða annarra innflutningsaðila“, eins og segir í kærunni.

III.

Með bréfi, dags. 20. desember 2016, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að tollstjóri ítreki þau rök sem fram komi í hinum kærða úrskurði embættisins. Þá er tekið fram að tollstjóri hafi nú bætt upplýsingagjöf á heimasíðu embættisins varðandi innflutning bifreiða í samræmi við athugasemdir kæranda. Sé þess því krafist að úrskurður tollstjóra verði staðfestur.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. desember 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 27. desember 2016, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er m.a. tekið fram að þar sem tollstjóri hafi nú viðurkennt að upplýsingagjöf á heimasíðu embættisins hafi verið ófullnægjandi og leiðrétting verið gerð og fyrir liggi að kærandi sem innflytjandi bifreiðarinnar hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni sé þess krafist að tollstjóri endurgreiði kæranda innheimtan virðisaukaskatt að fjárhæð 393.000 kr.

IV.

Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kemur fram að innheimta skuli virðisaukaskatt af tollverði skattskyldrar vöru við innflutning hennar að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum nr. 50/1988, sbr. 10. gr. laga nr. 69/2012, um breyting á þeim lögum, er heimilt við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki eins og nánar er kveðið á um í ákvæðinu. Skal ákvæðið jafnframt gilda um niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning og fyrstu sölu notaðrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar, enda sé ökutækið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu. Er tollstjóra heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt af rafmagns- eða vetnisbifreið að hámarki 1.530.000 kr. og af tengiltvinnbifreið að hámarki 1.020.000 kr., sbr. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um nánari skilyrði fyrir undanþágunni.

Óumdeilt er í málinu að bifreið kæranda af tegundinni Nissan Leaf, sem kærandi flutti inn notaða frá Bandaríkjunum á árinu 2016, uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum nr. 50/1988 fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti þar sem bifreiðin var eldri en þriggja ára á innflutningsdegi. Bar því að innheimta virðisaukaskatt af tollverði bifreiðarinnar við innflutning hennar, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 50/1988. Lagaheimild skortir til þess að unnt sé að taka til greina kröfu kæranda um niðurfellingu virðisaukaskatts vegna innflutnings bifreiðarinnar og getur engu breytt í því sambandi þótt upplýsingum á heimasíðu tollstjóra varðandi skattfrjálsan innflutning ökutækja hafi verið ábótavant, eins og kærandi hefur bent á. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja