Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kærufrestur

Úrskurður nr. 37/1993

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 95. gr. 2. mgr., 99. gr. 1. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1992. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1992 sætti kærandi því áætlun skattstofna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæru, dags. 29. ágúst 1992, kærði kærandi álagninguna. Skattframtal kæranda árið 1992 barst skattstjóra 10. september 1992 samkvæmt áritun hans á það. Með kæruúrskurði, dags. 30. október 1992, vísaði skattstjóri kærunni frá á þeim forsendum að kæran hefði verið send að liðnum kærufresti samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hafi síðasti kærudagur vegna álagningar gjaldárið 1992 verið laugardagurinn 29. ágúst 1992, en kæran hefði verið móttekin 2. september sama ár.

Af hálfu kæranda var frávísunarúrskurði skattstjóra skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 26. nóvember 1992. Er þess farið á leit að innsent skattframtal verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar. Tekið er fram að kæran hafi verið póstlögð 29. ágúst 1992.

Með bréfi, dags. 31. desember 1992, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekkert komið fram af hálfu kæranda um að óviðráðanleg atvik hafi valdið því að eigi var kært til skattstjóra í tæka tíð.

II.

Kærufrestur til skattstjóra er 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu sé lokið, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Auglýsing um að álagningu opinberra gjalda á árinu 1992 væri lokið, dags. 31. júlí 1992, birtist í 89. tbl. Lögbirtingablaðsins 1992 er út kom þann dag. Rétt þykir að líta svo á að síðasti dagur kærufrests vegna álagningarinnar hafi verið mánudagurinn 31. ágúst 1992, enda bar 29. ágúst það ár upp á laugardag. Kæran er dagsett innan kærufrests, en móttökustimpluð af skattstjóra 2. september 1992. Kærandi heldur því fram að kæran til skattstjóra hafi verið póstlögð laugardaginn 29. ágúst 1992. Ekki er í frávísunarúrskurði skattstjóra vikið að póstlagningardegi kæru eða yfirleitt hvernig kæran hafi borist honum, en rétt er að telja kæru nægilega snemma fram komna ef bréf sem hefur að geyma kæru er afhent pósti áður en kærufrestur er liðinn. Þykir mega telja kæruna komna fram innan kærufrests og er frávísunarúrskurði skattstjóra því hnekkt.

Kæra í máli þessu er rökstudd með skattframtali sem ekki hefur sætt efnisúrlausn hjá skattstjóra. Með vísan til 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kæran send skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Frávísunarúrskurði skattstjóra er hnekkt. Málinu er vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja