Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 77/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr.  

Fyrning — Almenn fyrning — Fyrning, almenn — Fyrnanleg eign — Lausafé — Fyrnanlegt lausafé — Atvinnutæki — Bifreið — Bifreiðaverkstæði — Sönnun — Atvinnurekstrareign

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að telja nýja bifreið kæranda ekki vera „atvinnurekstrartæki í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981 og heimilast því ekki gjaldfærsla fyrningar af þessum bíl og lækka fyrningar um 192.596 kr., en bifreiðin færist í reit E-2 á framtali á kaupverði 962.900 kr.“, svo sem segir í tilkynningu skattstjóra til kæranda, dags. 22. júlí 1988. Í hinum kærða úrskurði áréttaði skattstjóri þessa ákvörðun sína með svofelldum rökum:

„Atvinnustarfsemi kæranda er rekstur bifreiða- og vélaverkstæðis. Kæra er studd þeim rökum að reksturinn hafi þarfnast bifreiðar með drifi á öllum hjólum til dráttar á biluðum bifreiðum og til þess að sækja vélar og tæki til viðskiptavina auk ýmissa útréttinga fyrir verkstæðið enda séu aðrar bifreiðar til einkanota fyrir hjónin.

Samkvæmt bifreiðaskrá er bifreiðin X hvorki dráttarbifreið eða sendiferðabifreið. Bifreið þessi er að tegund og gerð MMC L-300 4WD með gluggum og er skráður fyrir 7 farþega auk ökumanns. Í kæru eru ekki leidd rök því að bifreiðar sé þörf til flutnings á starfsmönnum á milli vinnustaða, eða annars flutnings á fólki.“

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. desember 1988. Er þess krafist, að ákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi. Er sú krafa studd svofelldum rökum:

„Til viðbótar við þær skýringar sem fram koma í kærunni skal tekið fram að til að bifreið geti þjónað í þeim tilgangi að draga aðrar bifreiðar, að vetri og sumri, þarf viðk. bifreið að vera með drifi á öllum hjólum. Við þær aðstæður sem framteljandi býr er enn frekari þörf á fjórhjóladrifnum bíl þar sem nokkur vegalengd er frá þjóðvegi að verkstæði hans og sá vegur því ekki ruddur að vetri.

Varðandi það að bifreiðin sé hvorki skráð sem „dráttarbifreið né sendibifreið“ skal eftirfarandi tekið fram:

Til að sameina þá eiginleika bifreiðar að þjóna þeim tilgangi sem um ræðir í þessu tilfelli, til dráttar og flutninga, þarf bifreiðin að vera sendibifreið með drifi á öllum hjólum. Þannig bifreið er erfitt að finna nema með sætum fyrir aftan bílstjóra. Í þessu tilfelli er einmitt um þannig bifreið að ræða og eru umrædd aukasæti búin þeim eiginleika að auðvelt er að fjarlægja þau úr bifreiðinni.“

Með bréfi, dags. 8. desember 1989, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Af hálfu kæranda er fullyrt, að bifreið sú, sem um ræðir í máli þessu sé eingöngu notuð til atvinnuþarfa og fær sú fullyrðing nokkra stoð í gögnum málsins, þar sem m.a. fram kemur, að kærandi hefur áður fært bifreið sem fyrnanlega eign í reikningsskilum sínum athugasemdalaust af hálfu skattstjóra. Aðrar bifreiðar eru í eign kæranda, sem hann fullyrðir, að séu notaðar í einkaþágu hans og fjölskyldu sinnar. Þegar til þessa er litið og málavextir virtir að öðru leyti, þykir umrædd bifreið kæranda vera fyrnanleg eign í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja