Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 61/2017

Gjaldár 2016

Lög nr. 90/2003, 68. gr. B-liður, 95. gr. 1. mgr.  

Með úrskurði um endurákvörðun 31. maí 2016 felldi ríkisskattstjóri niður áður ákvarðaðar vaxtabætur kæranda gjaldárið 2015 á þeim forsendum að lagaskilyrði um eigin not íbúðarhúsnæðis væri ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Talið var að ríkisskattstjóra hefði verið unnt að leiðrétta skattframtal kæranda árið 2016 til samræmis við afstöðu sína vegna fyrra árs án undangenginnar fyrirspurnar, enda höfðu engar breytingar orðið á högum kæranda milli ára samkvæmt skattframtalinu.

Ár 2017, miðvikudaginn 15. mars, er tekið fyrir mál nr. 226/2016; kæra A, dags. 20. nóvember 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að í lið 5.2 „vaxtagjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota“ í skattframtali kæranda árið 2016 voru tilgreind vaxtagjöld af samtals fjórum lánum að fjárhæð 705.675 kr. og eftirstöðvar skulda að fjárhæð 16.565.652 kr.

Með bréfi, dags. 23. júní 2016, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um þá breytingu á skattframtali árið 2016, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að vaxtagjöld að fjárhæð 705.675 kr. og eftirstöðvar skulda að fjárhæð 16.565.652 kr. yrðu færðar úr lið 5.2 í lið 5.5 í skattframtalinu „aðrar skuldir og vaxtagjöld“ með vísan til úrskurðar ríkisskattstjóra í máli kæranda, dags. 31. maí 2016.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 16. ágúst 2016, mótmælti kærandi breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2016 og var þess krafist að horfið yrði frá breytingum þessum.

Með kæruúrskurði, dags. 15. september 2016, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Í kæruúrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri í úrskurð sinn í máli kæranda, dags. 31. maí 2016, og tók m.a. fram að um væri að ræða samsvarandi breytingar á skattframtali kæranda árið 2016 og gerðar hefðu verið á skattframtali hans árið 2015 með eldri úrskurðinum. Byggt væri á sömu málsatvikum og hefði embættið því þessu verið í fullum rétti samkvæmt 95. gr. laga nr. 90/2003 að gera breytingarnar án fyrirspurnar.

II.

Með kæru, dags. 20. nóvember 2016, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. september 2016, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Einnig er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

Af hálfu kæranda er byggt á því að ríkisskattstjóri hafi breytt skattframtali kæranda árið 2016 án undanfarandi fyrirspurnar og án tilkynningar að breytingunum gerðum. Sé þessi málsmeðferð í skýrri andstöðu við 95. og 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda úrskurðinn. Einnig er byggt á því að um hafi verið að ræða eigin notkun á umræddri íbúð í skilningi B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, en reglugerð nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, geti ekki þrengt þann skilning kæranda í óhag, m.a. vegna 77. gr. stjórnarskrárinnar. Um hafi verið að ræða sérstakar og óviðráðanlegar aðstæður kæranda, en einnig tímabundnar vegna skyldu hans sem foreldris við umönnun barns síns. Vísar kærandi til fyrri lýsingar á aðstæðum sínum. Gangi gegn tekjuskattslögunum að líta svo á að tímaviðmið nefndrar reglugerðar eigi við í málinu eins og á hafi staðið.

Til stuðnings kröfu um greiðslu málskostnaðar kemur fram að kærandi hafi varið talsverðum tíma í málið og hann þurft að leita sér aðstoðar. Verði kostnaðurinn gerður upp að gengnum úrskurði yfirskattanefndar.

III.

Með bréfi, dags. 22. desember 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Auk þess að ítreka áður fram komin rök tekur ríkisskattstjóri m.a. fram í umsögn sinni að kærandi hafi ekki sýnt fram á nein gögn eða rök nema þau sem fram hafi komið í eldra máli fyrr á árinu, en ríkisskattstjóri hafi lokið því máli með úrskurði, dags. 31. maí 2016, og kærandi vísað því til yfirskattanefndar.

Með bréfi, dags. 20. janúar 2017, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Eru áður fram komnar kröfur og málsástæður kæranda ítrekaðar. Kemur fram að ríkisskattstjóri hafi þrátt fyrir andmælareglu skattalaga tilkynnt kæranda um umdeildar breytingar á skattframtali hans árið 2016 með vísun til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003. Vart fái staðist sú málsmeðferð ríkisskattstjóra að breyta framtali kæranda eftir ákvæðum 1. mgr. 95. gr. laganna á meðan eldri breytingin sé í kærumeðferð hjá yfirskattanefnd. Hafi ríkisskattstjóra borið að gæta að andmælareglunni í 96. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem ríkisskattstjóri hafi véfengt málavaxtalýsingu kæranda hafi hann heimild til að afla frekari upplýsinga hjá öðrum en kæranda, en margir geti staðfest frásögn kæranda.

IV.

Kæra í máli þessu varðar þá breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2016 að færa vaxtagjöld að fjárhæð 705.675 kr. og eftirstöðvar skulda að fjárhæð 16.565.652 kr. úr lið 5.2 „vaxtagjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota“ í lið 5.5 „aðrar skuldir og vaxtagjöld“, sbr. tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 23. júní 2016, en breytingu þessa staðfesti ríkisskattstjóri með hinum kærða úrskurði, dags. 15. september 2016.

Krafa um að kæruúrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi er annars vegar byggð á því að málsmeðferð standist ekki ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem ríkisskattstjóri hafi hvorki sent kæranda fyrirspurn í aðdraganda breytingarinnar né tilkynnt um breytinguna í kjölfar hennar. Eldri umdeildar breytingar geti ekki veitt ríkisskattstjóra heimild til að reka mál samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 95. gr. laganna. Hafi ríkisskattstjóri átt að virða andmælareglu 96. gr. laganna. Hins vegar er á því byggt að um hafi verið að ræða eigin notkun kæranda á íbúð hans að B-götu á Akranesi.

Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, getur ríkisskattstjóri leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild ríkisskattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga, um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Í tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 23. júní 2016, var um ástæður breytinga á skattframtali kæranda árið 2016 vísað til úrskurðar embættisins, dags. 31. maí 2016. Með nefndum úrskurði frá 31. maí 2016 var kæranda tilkynnt um endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2015 vegna breytinga á skattframtali hans árið 2015 sem eru samsvarandi þeim breytingum á skattframtali árið 2016 sem hér er deilt um. Byggðu breytingar ríkisskattstjóra gjaldárið 2015 á því að kærandi gæti ekki á árinu 2014 talist hafa haft íbúðarhúsnæði sitt að B-götu á Akranesi til eigin nota í skilningi B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. niðurlagsákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 990/2003, um greiðslu vaxtabóta, enda hefði kærandi ekki búið í þeirri íbúð frá 25. apríl 2008. Við meðferð málsins kom fram af hálfu kæranda að búseta í Reykjavík hentaði honum betur vegna vinnu, en einnig vísaði kærandi til þess að hann yrði að sinna framfærslu- og umgengnisskyldu gagnvart barni sínu, m.a. vegna veikinda móður þess. Óumdeilt var að búseta kæranda í Reykjavík hafði farið talsvert fram úr tímaviðmiðum 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta. Er tekið fram í úrskurðinum frá 31. maí 2016 að breytingar á skattframtali kæranda árið 2016 verði tilkynntar síðar.

Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2016 höfðu engar breytingar orðið á högum kæranda milli áranna 2014 og 2015 að því leyti að eina fasteignin í hans eigu var íbúðarhúsnæði að B-götu á Akranesi og í skattframtalinu voru taldar fram leigutekjur af því húsnæði, auk þess sem engar breytingar höfðu orðið á lögheimili kæranda. Að þessu gættu verður ekki annað séð en að fyrir ríkisskattstjóra hafi legið óyggjandi upplýsingar í skilningi 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, eins og skýra verður ákvæðið samkvæmt framansögðu, og að honum hafi verið unnt að leiðrétta skattframtal kæranda til samræmis við fyrrgreinda afstöðu sína vegna fyrra árs. Kæranda var tilkynnt um breytinguna með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 23. júní 2016, eins og áður er fram komið. Var bréfið stílað á kæranda að lögheimili hans. Ekki verður því fallist á með kæranda að skort hafi á tilkynningu um breytingu ríkisskattstjóra. Hvað varðar efnislegan grundvöll breytingar ríkisskattstjóra vísast til niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 60/2017, sem kveðinn var upp í dag í máli kæranda vegna gjaldársins 2015, þar sem hafnað er kröfu kæranda um að úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 31. maí 2016, verði felldur úr gildi. Í samræmi við niðurstöðu í því máli og umfjöllun hér að framan er kröfum kæranda í þessu máli einnig hafnað, þar á meðal málskostnaðarkröfu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja