Úrskurður yfirskattanefndar

  • Málsmeðferð
  • Leiðbeiningarskylda

Úrskurður nr. 52/1993

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 95. gr. 2. mgr., 99. gr. 1. mgr. (brl. nr. 92/1987, 2. gr.)   Lög nr. 30/1992, 12. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 27. júlí 1992, tilkynnti skattstjóri um að vaxtagjöld að fjárhæð 301.799 kr. í reit 87 á framtali hefðu verið færð í reit 88 á framtali þar sem þau væru ekki af skuldum til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt; að frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri að fjárhæð 188.000 kr. væri felldur niður, að gjaldfærður fæðiskostnaður á rekstrarreikningi að fjárhæð 9.650 kr. væri felldur niður og tekjur á framtali væru hækkaðar um 133.488 kr. eða sem næmi 2,7% af fasteignamatsverði fasteignar kærenda að X-götu. Með kæru, dags. 28. ágúst 1992, en móttekinni 4. september 1992 mótmæltu kærendur breytingum skattstjóra að því er varðaði niðurfellingu vaxtabóta og niðurfellingu frádráttar vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Með kæruúrskurði, dags. 5. október 1992, vísaði skattstjóri kærunni frá á þeim forsendum að kæran hefði verið send að liðnum kærufresti samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærufrestur hafi runnið út 29. ágúst 1992. Kæran, dags. 28. ágúst 1992, hefði verið móttekin 4. september 1992. Kæran væri því of seint fram komin og bæri að vísa henni frá af þeim sökum.

Með kæru, dags. 12. október 1992, hafa kærendur skotið frávísunarúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Fara kærendur fram á að úrskurði skattstjóra verði hnekkt. Í kærunni segir:

„Í fyrstu taldi starfsmaður Skattstjórans í Reykjavík (Ég var 6 sinnum í sambandi við skattinn í ágústmánuði!) að þetta væru augljós mistök skattsins og ætlaði að laga þessi mál í hvelli. Stuttu síðar taldi hann að þetta væru augljós mistök skattsins, og lítið mál að laga, en sagði mér að kæra „til öryggis“, sem ég og gerði. En hvað, ég varð of seinn, enda búinn að bíða mest allan ágústmánuð eftir því að fá að vita hvað ég átti að gera. Sjá nú ljósrit 2. Raunasögu lokið, vonandi. (En gang er jo altid förste gang).“

Með bréfi, dags. 23. desember 1992, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekkert komið fram af hálfu kærenda um að óviðráðanleg atvik hafi valdið því að ekki var kært til skattstjóra í tæka tíð.

II.

Samkvæmt frásögn kærenda höfðu þau í ágústmánuði 1992 alloft samband við starfsmann skattstjóra vegna máls síns. Hafi starfsmaðurinn fyrst talið að um væri að ræða mál sem leiðrétta mætti án kæru, en síðar var kærendum ráðlagt að kæra breytingar skattstjóra. Að virtum fengnum skýringum, sem hafa nokkurn stuðning af áritunum kærenda á gögn málsins og því að meðal gagna málsins er símbréf með kvittun fyrir keyptum hlutabréfum sem virðist hafa verið sent skattstjóra 14. ágúst 1992, þykir rétt að hnekkja frávísunarúrskurði skattstjóra, enda verður að telja það þátt í leiðbeiningarskyldu skattstjóra að brýna fyrir gjaldendum sem til þeirra leita í kærufresti að koma á framfæri formlegri kæru í tæka tíð.

Vegna frávísunar skattstjóra hefur mál þetta ekki fengið þá meðferð á skattstjórastigi sem lög nr. 75/1981 gera ráð fyrir. Með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir bera að vísa kæru, með þeim rökstuðningi sem fram er kominn af kærenda hálfu, til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Frávísunarúrskurði skattstjóra er hnekkt. Málinu er vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja