Úrskurður yfirskattanefndar
- Frádráttur á móti ökutækjastyrk
- Upplýsingaskylda
- Matsreglur ríkisskattstjóra
Úrskurður nr. 100/1993
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul. (brl. nr. 92/1987, 2. gr.) Reglugerð nr. 591/1987, 3. gr.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi fékk greiddan ökutækjastyrk frá vinnuveitanda sínum, X hf., á árinu 1990 að fjárhæð 769.083 kr. er hann færði sér til tekna í reit 22 í skattframtali sínu árið 1991. Til frádráttar sem kostnað á móti styrknum færði hann 654.949 kr. Framtalinu fylgdi ökutækjaskýrsla RSK 3.04. Samkvæmt henni nam heildarakstur kæranda á árinu 35.000 km, þar af tilgreindi kærandi 29.000 km akstur í þágu vinnuveitanda og 6.000 km annan akstur í eigin þágu. Útfyllti kærandi reit um endurgreiddan bifreiðakostnað og staðfesti að hann væri reiðubúinn til þess að leggja fram fullnægjandi akstursbækur eða akstursskýrslur og önnur gögn varðandi greiðslur að fjárhæð 588.708 kr. fyrir 20.634 km akstur í þágu launagreiðanda úti á landi. Þá fékk kærandi greiddar 180.375 kr. vegna 8.366 km aksturs innanbæjar í þágu launagreiðanda. Var frádráttur frá ökutækjastyrk reiknaður þannig að kærandi reiknaði akstur úti á landsbyggðinni með 24,65 kr. á ekinn kílómetra, samtals 508.628 kr., en fyrir akstur innanbæjar var kostnaður á ekinn kílómetra reiknaður samkvæmt rekstrarkostnaði bifreiðar 17,49 kr. á ekinn kílómetra eða 146.321 kr.
Með bréfi, dags. 6. maí 1991, krafði skattstjóri kæranda um akstursbækur ásamt ítarlegri greinargerð um innanbæjarakstur í þágu launagreiðanda þar sem fram kæmu helstu aksturserindi, tíðni akstursferða og vegalengdir á helstu akstursleiðum, skipting aksturs milli vinnuveitanda og í eigin þágu og akstur í kílómetrum milli heimilis og vinnustaðar. Umboðsmaður kæranda lagði fram umbeðna akstursbók með bréfi, dags. 14. maí 1991. Þá var einnig lögð fram staðfesting vinnuveitanda, dags. 10. maí 1991, þar sem fram kom að kærandi, sem starfaði við eftirlit, hefði fengið greiðslur vegna aksturs til umboða og svæðisskrifstofa félagsins í nálægð Reykjavíkur, í Garðabæ, Kópavogi, Hafnarfirði og í Mosfellsbæ. Þyrfti kærandi vegna vinnu sinnar að fara alloft á þá staði auk annarra staða í Reykjavík. Vísaði umboðsmaðurinn í bréfi sínu til staðfestingar vinnuveitanda og taldi ógerlegt að sundurgreina þann akstur frekar. Mætti ætla að kærandi verði hálfu vinnuári úti á landsbyggðinni og tími til aksturs í eigin þágu væri því mjög takmarkaður. Af 6.000 km öðrum akstri í eigin þágu reiknaðist akstur kæranda milli heimilis og vinnustaðar 960 km.
Með bréfi, dags. 26. júlí 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði lækkað frádrátt frá ökutækjastyrk í 442.210 kr. Voru forsendur skattstjóra þær að skýringar á akstri innanbæjar í þágu launagreiðanda þættu ekki renna stoðum undir að hann væri jafnmikill og tilgreint væri. Þá væri akstur milli heimilis og vinnustaðar vanfærður. Væri því frádráttur vegna aksturs innanbæjar lækkaður um 65.000 kr. Þá væri frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk samkvæmt akstursdagbók lækkaður í 360.889 kr. sem væri í samræmi við kostnað á ekinn kílómetra samkvæmt rekstraryfirliti fólksbifreiðar í ökutækjaskýrslu kæranda, sbr. ákvæði 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og matsreglur ríkisskattstjóra. Var álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1991 hagað í samræmi við það. Mótmælti umboðsmaður kæranda breytingum skattstjóra með vísan til fyrri rökstuðnings í kæru, dags. 27. ágúst 1991.
Með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum segir meðal annars:
„Af fyrirliggjandi gögnum og svari kæranda var ljóst að akstur milli heimilis og vinnustaðar var vanmetinn og ekki var gerð sú grein fyrir akstri í þágu vinnuveitanda (innanbæjar) að unnt væri að fallast á að hann væri jafn mikill og haldið var fram. Var því frádráttur á móti ofangreindum akstri áætlaður með því að lækka hann um kr. 65.000.
Þar sem um er að ræða sambland af tvennskonar greiðsluaðferðum fyrir notkun eigin bifreiðar í þágu launagreiðanda bar kæranda að gera grein fyrir heildarrekstrarkostnaði bifreiðarinnar. Ofangreint skilyrði uppfyllir kærandi sbr. eyðublað um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur (RSK 3.04) er fylgdi skattframtali hans. Var því frádráttur á móti ökutækjastyrk í reit 32 á skattframtali lækkaður í kr. 442.210.“
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. nóvember 1991. Eru fyrri skýringar vegna aksturs kæranda í þágu vinnuveitanda áréttaðar.
Með bréfi, dags. 14. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu á málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Kærandi hefur fært sér til frádráttar í reit 32 508.628 kr. vegna 20.634 km akstur utan Reykjavíkursvæðisins á vegum launagreiðanda tekjuárið 1990. Ekki er deilt um kílómetrafjölda þennan í málinu, en kærandi gerði grein fyrir honum með greinargerð RSK 3.04 og framlögðum akstursdagbókum að kröfu skattstjóra. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1990, birtum í 9. tbl. Lögbirtingablaðs 1991, sbr. og 3. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, er kæranda ekki skylt að gera frekari grein fyrir kostnaði á móti akstri þessum en hann hefur þegar gert. Verður ekki talið að neinu breyti í þeim efnum þótt kærandi hafi jafnframt móttekið ökutækjastyrk frá launagreiðanda. Er því fallist á framangreindan frádrátt, enda eru fjárhæðir innan þeirra marka sem ríkisskattstjóri hefur sett varðandi tekjuárið 1990.
Á það verður að fallast með skattstjóra að ekki hefur kærandi gert skilmerkilega grein fyrir akstri sínum innan Reykjavíkursvæðisins í þágu launagreiðanda, en engar tölulegar upplýsingar um einstakar akstursferðir og tíðni þeirra hafa verið lagðar fram af hálfu kæranda um þann akstur þrátt fyrir fyrirspurn skattstjóra, dags. 6. maí 1991. Eru því ekki efni til annars en að synja kröfu kæranda að því er varðar frádrátt á móti fengnum ökutækjastyrk.
Samkvæmt framangreindu verður frádráttur í reit 32 á skattframtali kæranda 1991 589.949 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Frádráttur í reit 32 verður 589.949 kr.