Úrskurður yfirskattanefndar
- Skatterindi
- Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra
- Tímamörk endurákvörðunar
- Kæruheimild
Úrskurður nr. 109/1993
Gjaldár 1983-1984
Lög nr. 75/1981, 97. gr. 1. mgr., 99. gr., 100. gr., 101. gr. 3. mgr., 106. gr.
I.
Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram innan tilskilins framtalsfrests árin 1983 og 1984. Sætti hann því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum þau ár. Skattframtöl kæranda bárust ríkisskattstjóra 19. ágúst 1991 með beiðni um að þau yrðu lögð til grundvallar álagningu. Með bréfi, dags. 22. ágúst 1991, sendi ríkisskattstjóri skattstjóra framtölin til meðferðar með vísan til 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981.
Með bréfum, dags. 18. september 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði bæði árin fellt niður gjaldaliðinn „mat v/starfsfólks“ á þeim forsendum að engin laun væru greidd samkvæmt rekstrarreikningum. Þá hækkaði hann eignarskattsstofn um 23.000 kr. fyrra árið og 33.000 kr. hið síðara vegna lóðar að X. Þá lagði skattstjóri 25% álag á gjaldstofna samkvæmt heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981 og ákvarðaði tap til næsta árs 77.222 kr. fyrra árið og 121.775 kr. hið síðara. Hins vegar breytti skattstjóri ekki álögðum gjöldum og vísaði í því sambandi til þess að skv. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 næði heimild til endurákvörðunar aðeins til sex ára næst á undan árinu sem væri að líða.
Umboðsmaður kæranda kærði ákvörðun skattstjóra til hans með kæru, dags. 14. október 1991. Taldi hann að með framsendingu erindis kæranda til skattstjóra hinn 22. ágúst 1991 hefði ríkisskattstjóri ákveðið að breyta álögðum gjöldum kæranda og falið skattstjóra framkvæmdina. Ættu ákvæði 96. og 97. gr. ekki við þar sem um lækkun gjalda væri að ræða. Krafðist hann þess að álögðum gjöldum kæranda 1983 og 1984 yrði breytt í samræmi við innsend framtöl og gerðar breytingar, sbr. tilkynningu skattstjóra 18. september 1991.
Með kæruúrskurði, dags. 2. desember 1991, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Taldi hann endurákvörðun verða að byggjast á 96. gr. laga nr. 75/1981 og virtust tímamörk samkvæmt 1. mgr. 97. gr. sömu laga vera fortakslaus.
Kæruúrskurði þessum hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. desember 1991. Rekur hann gang málsins og ítrekar að hann telji ekki vera um að ræða endurákvörðun skv. 96. gr. laga nr. 75/1981 heldur skv. 101. gr. sömu laga, enda vitni ríkisskattstjóri til þeirrar greinar þegar hann framsendi skattstjóra framtölin. Eigi því skilyrði 96. og 97. greinar ekki við nema um hækkun sé að ræða en nokkuð ljóst sé að í þessu tilviki verði um lækkun gjalda að ræða. Krefst hann þess að áður ákvörðuðum opinberum gjöldum verði breytt til samræmis við innsend framtöl.
Með bréfi, dags. 1. apríl 1992, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Afgreiðsla skattstjóra á erindi kæranda byggðist á heimild þeirri sem ríkisskattstjóra er veitt með 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til að breyta ákvörðun skattstjóra um skattstofn og ákvarða skattaðila skatt að nýju, eða fela það skattstjóra. Ekki verður á það fallist með kæranda að með framsendingu erindisins til skattstjóra hafi ríkisskattstjóri tekið efnislega ákvörðun um að heimildar nefnds lagaákvæðis skyldi neytt. Hins vegar tók skattstjóri umrædd framtöl kæranda til meðferðar og breytti gjaldstofnum. Telja verður að sú ákvörðun hafi verið kæranleg eftir ákvæðum 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þó svo skattstjóri hafi hafnað gjaldabreytingum.
Um skilyrði endurákvörðunar er í 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 vísað til 96. og 97. gr. sömu laga „ef um hækkun er að ræða“. Eftir orðalagi fyrstnefnda ákvæðisins eiga skilyrði síðarnefndu lagagreinanna, þ.m.t. tímamörk þau sem getið er í 1. mgr. 97 gr., ekki við þegar um lækkun skattstofns eða gjalda er að ræða. Er því fallist á þá kröfu kæranda að endurákvarða áður álögð opinber gjöld hans gjaldárin 1983 og 1984. Telja verði að kærandi hafi í kæru sinni til skattstjóra fallist á þær breytingar sem skattstjóri gerði á innsendum framtölum, en ekki er vikið sérstaklega að breytingum þessum í kæru til ríkisskattanefndar. Með úrskurði þessum eru opinber gjöld því ákvörðuð samkvæmt innsendum framtölum að gerðum breytingum samkvæmt tilkynningum skattstjóra, dags. 18. september 1991, og að viðbættu 25% álagi sem skattstjóri ákvað að beita. Það athugist að á framtali 1984 verður tap til næsta árs 103.288 kr., en skattstjóra hefur láðst að taka tillit til tekjuhliðar framtals við ákvörðun tapsins.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfur kæranda. Á framtali 1984 verður tap til næsta árs 103.288 kr.