Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Fjárhagsaðstoð sveitarfélags

Úrskurður nr. 151/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 1991 færði kærandi sér til tekna styrk frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur (félagsmálaaðstoð) 200.870 kr. Kærandi tilgreindi greiðslu þessa sem „húsaleiguhjálp“ í framtalinu. Í kæru, ódagsettri en móttekinni 26. ágúst 1991, krafðist kærandi þess að tekjuskatts- og útsvarsstofnar yrðu lækkaðir um fjárhæð þessa styrks. Hér væri um endurkræfan styrk að ræða frá Borgarsjóði Reykjavíkur en ekki tekjur. Með kæruúrskurði, dags. 8. október 1991, vísaði skattstjóri kærunni frá sem tilefnislausri. Samkvæmt launamiða frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur hefði kærandi fengið félagsmálaaðstoð 200.868 kr. sem væri skattskyldur styrkur samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 6. nóvember 1991, kærði umboðsmaður kæranda fyrrgreindan úrskurð skattstjóra, dags. 8. október 1991, og krafðist niðurfellingar á skattlagningu umrædds styrks frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur. Með bréfi, dags. 18. mars 1992, framsendi ríkisskattstjóri ríkisskattanefnd bréf umboðsmanns kæranda er borist hefði í kærufresti til nefndarinnar. Jafnframt hafði bréf þetta að geyma beiðni um ívilnun í tekjuskatti samkvæmt 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna aðstæðna kæranda vegna örorku og fjárhagslegra erfiðleika, sbr. afgreiðslu ríkisskattstjóra á þeim þætti málsins með bréfi, dags. 28. apríl 1992.

Með bréfi, dags. 23. desember 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans enda hefur kærandi ekki sýnt fram á að um endurkræfa greiðslu frá Félagsmálastofnun sé að ræða.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Umrædda greiðslu frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur ber að telja til skattskyldra tekna kæranda samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda hefur ekki verið sýnt fram á neitt það af hálfu kæranda er leysi greiðsluna undan skattlagningu. Er kröfu kæranda því synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja