Úrskurður yfirskattanefndar
- Styrkur
- Beinn kostnaður
Úrskurður nr. 156/1993
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.
I.
Málavextir eru þeir að meðal tekna á framtali 1991 færði kærandi styrk frá stéttarfélagi að fjárhæð 120.000 kr. Framtalið var lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991.
Með kæru, dags. 29. ágúst 1991, var framangreind álagning kærð og boðað að frekari rökstuðningur yrði lagður fram. Í bréfi kæranda, dags. 30. september 1991, kom fram að veturinn 1989-1990 stundaði hún nám til BA prófs í sérkennslufræðum við Kennaraháskóla Íslands og varð auk þess að sækja 8 daga samfellt undirbúningsnámskeið í ágúst rétt fyrir upphaf skólaársins. Til þess að mæta þeim aukakostnaði sem af náminu hlytist fékk hún styrk frá stéttarfélagi 120.000 kr. Gerði kærandi grein fyrir útlögðum kostnaði vegna námsins að upphæð 397.494 kr. Var þar um að ræða kostnað vegna bókakaupa, ljósritunar á kennsluefni, ritföng, skólagjöld, ferðakostnað og fleira. Fór kærandi fram á að framangreindur námsstyrkur yrði ekki skattlagður.
Með úrskurði, dags. 19. desember 1991, tók skattstjóri kæruna til úrlausnar. Taldi skattstjóri að vafi léki á um það hvort 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ætti við um námsstyrk kæranda. „Með tilliti til þess vafa að 2. mgr. 30. gr. gæti átt við er ákveðið að meta vafann yður í hag og samþykkja kr. 46.000 sem frádrátt frá ofannefndum námsstyrk.“
Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. janúar 1992. Gerir kærandi þá kröfu að öll upphæð styrksins verði undanþegin skattlagningu. Styrkurinn hafi verið veittur til að mæta hluta af beinum útlögðum kostnaði af fyrrgreindu námi og því sé fráleitt að skattleggja hann. Vísar kærandi til greinargerðar sem send var skattstjóra.
Með bréfi, dags. 29. maí 1992, hefur ríkisskattstjóri gert þær kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Námsstyrkur sá sem í málinu greinir er skattskyldur skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fallist er á að á móti fengnum námsstyrk beri kæranda frádráttur skv. 2. mgr. 30. gr. sömu laga vegna útgjalda við kaup námsgagna, skólagjalda og slíkra útgjalda. Þá má miða við að kæranda beri nokkur frádráttur vegna ferðakostnaðar milli Selfoss og Reykjavíkur, en þó ekki slíkan sem kærandi heldur fram, enda virðist hann að miklum hluta til kominn vegna atvinnu kæranda á Selfossi. Ekki er unnt að fallast á frádrátt vegna fæðisútgjalda á skólatíma utan heimilis. Þykir með vísan til framangreinds mega áætla kæranda frádrátt á móti styrknum að fjárhæð 75.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Frádráttur á móti námsstyrk verður 75.000 kr.