Úrskurður yfirskattanefndar

  • Dagpeningar
  • Fæðispeningar
  • Teknategund

Úrskurður nr. 160/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul. (brl. nr. 49/1987, 3. gr.)  

I.

Málavextir eru þeir að í reit 23 í skattframtali sínu árið 1991 færði kærandi dagpeninga frá Kaupfélagi X 148.972 kr. Sömu fjárhæð færði kærandi til frádráttar í reit 33. Framtalinu fylgdi greinargerð um dagpeninga RSK 3.11.

Með bréfi, dags. 7. október 1991, boðaði skattstjóri kæranda niðurfellingu á frádrætti 148.972 kr. í reit 33 í skattframtali árið 1991 með vísan til þess að athugun á greinargerð RSK 3.11 sýndi að um væri að ræða fæðispeninga fyrir 234 hálfa daga eða um það bil 637 kr. á dag að meðaltali. Félli þetta ekki undir frádráttarheimild 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í bréfi, dags. 15. október 1991, mótmælti kærandi hinni fyrirhuguðu breytingu. Umrædd greiðsla væri hluti kostnaðar sem hann yrði fyrir vegna fjarveru frá heimili sínu á vegum atvinnurekanda og gæti hann því ekki samþykkt að greiðslan gæti ekki talist dagpeningar. Kæmi og hvergi fram í 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að um væri að ræða fæðispeninga en ekki dagpeninga. Með bréfi, dags. 21. október 1991, gaf skattstjóri kæranda kost á að skýra hvað það væri sem ylli fjarveru frá heimili og hvernig greiðslur launagreiðanda af þeim orsökum væru ákvarðaðar. Í svarbréfi sínu, dags. 23. október 1991, gerði kærandi grein fyrir því að hann væri mjólkurbifreiðarstjóri hjá Kaupfélagi X. Hann færi snemma að morgni ... og kæmi ekki heim fyrr en að kvöldi. Á þessum tíma þyrfti hann að nærast og borða á matsölustöðum á þessum stöðum. Á hverjum degi væri um að ræða einn matmálstíma og tvo kaffitíma. Lágmarks fjárútlát vegna þess væri um það bil 1.400 kr. á dag. Kvaðst kærandi hafa fengið greidda fæðispeninga 118.176 kr. á árinu 1990 eða um það bil 505 kr. á dag. Að auki hefði hann fengið dagpeninga 148.972 kr. sem væri 637 kr. á dag og hugsaðir til að mæta þeim aukakostnaði sem í því fælist að þurfa að kaupa sér mat á matsölustað. Kvaðst kærandi ekki geta fallist á að um fæðishlunnindi væri að ræða heldur væri dagpeningar þessir hugsaðir til þess að koma til móts við þann kostnað sem hann yrði fyrir.

Með bréfi, dags. 21. janúar 1992, tilkynnti skattstjóri kæranda að frádráttur í reit 33 í skattframtali árið 1991 148.972 kr. hefði verið felldur niður og áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1991 endurákvörðuð meðal annars vegna þeirrar breytingar. Tók skattstjóri fram að af bréfi kæranda, dags. 23. október 1991, væri ljóst að umræddar greiðslur væru eingöngu vegna ferða í venjulegum vinnutíma. Hér teldist því vera um að ræða greiðslu launagreiðanda í formi dagpeninga á hluta af fæðiskostnaði launþega vegna aðstæðna í vinnu en ekki dagpeninga í skilningi laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem hefði verið óbreytt frá upphaflegri setningu þeirra sem laga nr. 40/1978. Í því efni mætti vísa til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 113/1989 vegna gjaldársins 1987 um tilsvarandi efni, sbr. 4. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laganna. Með 3. gr. laga nr. 49/1987 hefði A-lið verið gerbreytt og þá felldar niður flestar áður gildandi frádráttarheimildir. Ákvæði 1. tl. tækju nú til frádráttar á móti dagpeningum sem greiddir væru vegna ferða sem launþegi færi á vegum launagreiðanda utan venjulegs vinnustaðar. Reglur í því efni væru óbreyttar.

Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 20. febrúar 1992, og vísaði kærandi til fyrri skýringa sinna. Með kæruúrskurði, dags. 9. mars 1992, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, enda kæmu ekki fram neinar röksemdir í kæru sem gæfu tilefni til breytinga á skattlagningu dagpeninga kæranda.

Af hálfu kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. apríl 1992. Krefst hann að frádráttur vegna dagpeninga 148.972 kr. í skattframtali árið 1991 verði tekinn til greina. Fellst kærandi ekki á það sjónarmið að um of reglubundnar greiðslur sé að ræða, enda sé hvergi í skattalögum getið um hámarksdagafjölda. Telur kærandi að starfshópar hjá ríkisfyrirtækjum svo sem Pósti og síma og Rarik fái dagpeninga skattfrjálst fyrir álíka marga daga og heldur því fram að skattstjóri hafi látið uppi við sig að um mismunun væri að ræða.

Með bréfi, dags. 7. júlí 1992, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Deilt er um það í máli þessu hvort telja beri hina umdeildu greiðslu 148.972 kr. dagpeninga eða fæðispeninga. Óumdeilt er að greiðsla þessi kom til viðbótar fæðispeningum greiddum kæranda vegna fæðiskostnaðar í starfi hans sem mjólkurbifreiðarstjóra. Að þessu virtu þykir frádráttur frá umræddri greiðslu á grundvelli reglna um dagpeninga ekki koma til greina. Er kröfu kæranda því synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja