Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattframtal, tortryggilegt
  • Tekjuviðbót
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 173/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 96. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skattframtali árið 1991 voru einu tekjur kæranda tekjuárið 1990 launatekjur að fjárhæð 165.000 kr. frá íþróttafélaginu X í Y-bæ. Kærandi bar ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og var byggt á heimilisfesti hans hérlendis þrjá síðustu mánuði ársins 1990. Með bréfi, dags. 4. desember 1991, tjáði skattstjóri kæranda að hann teldi framtaldar tekjur mjög óraunhæfar og óskaði skýringa á þeim. Aðeins væru fram taldar tekjur sem næmu 55.000 kr. á mánuði þá þrjá mánuði sem kærandi hefði starfað sem leikmaður og þjálfari hjá X á árinu 1990. Þá benti skattstjóri á óskýrða eignaaukningu sem fram kæmi á skattframtali og næmi 257.810 kr. sem væru innstæður í bönkum í Y-bæ 31. desember 1990. Í svarbréfi kæranda, dags. 18. desember 1991, mótmælti hann því að laun þau sem hann hefði fengið frá X væru óraunhæf. Samkomulag við félagið hefði fyrst og fremst byggst á ábótagreiðslum sem til hefðu komið á árinu 1991 ef liðið hefði unnið annaðhvort bikarmeistaratitil eða Íslandsmeistaratitil. Varðandi eignaaukningu benti kærandi á að ekki væri um slíka aukningu að ræða nema að einhverju leyti. Meirihluti innstæðunnar hefði ekki verið í banka í Y-bæ heldur í Reykjavík þar sem hann hefði haft bæði sparisjóðsbók og gjaldeyrisreikning í mörg ár ... Þar sem kærandi hefði dvalið erlendis meirihluta síðastliðinna 16 ára þá hefði hann ekki talið fram til skatts hérlendis þær tekjur sem hann hefði haft erlendis, enda haft lögheimili erlendis og greitt fullan tekjuskatt þar. Þær tekjur væru grunnur þeirra eigna sem kæmu fram í skattframtali árið 1990.

Með bréfi, dags. 6. janúar 1992, tilkynnti skattstjóri kæranda að tekjur hans hefðu verið áætlaðar 200.000 kr. á mánuði þá þrjá mánuði sem hann hefði starfað og leikið með úrvalsdeild X. Samkvæmt þessu yrði tekjuskattsstofn 600.000 kr. og skattlagningartímabil þrír mánuðir. Taldi skattstjóri ekki fram komin haldbær rök fyrir óeðlilega lágum tekjum kæranda og eignaaukningu. Endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1991 í samræmi við þetta. Af hálfu kæranda var endurákvörðun skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 3. febrúar 1992, og þess krafist að fyrri framtalsskil yrðu látin standa óbreytt. Með kæruúrskurði, dags. 2. mars 1992, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, enda kæmu ekki fram neinar nýjar upplýsingar sem skýrðu óeðlilega lágar tekjur og óskýrða eignaaukningu. Vísaði skattstjóri til fyrri bréfa til rökstuðnings.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. apríl 1992, og þess krafist að skattframtal árið 1991 verði látið óhaggað standa. Benti umboðsmaðurinn á að kærandi hefði starfað erlendis um alllangt skeið og ekki verið skattskyldur hér á landi. Eignaaukningin yrði því skýrð með þeim tekjum sem kærandi hefði haft erlendis um nokkurt skeið. Þá benti umboðsmaðurinn á að skattstjóri hefði ekki lagt fram nein þau gögn sem renndu stoðum undir hærri laun kæranda og breyttu einhverjar óábyrgar blaðagreinar engu þar um.

Með bréfi, dags. 7. júlí 1992, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Fjárhæð sú sem kærandi færði sér til tekna í skattframtali sínu árið 1991 sem laun frá X er í samræmi við launauppgjöf launagreiðanda. Skattstjóri hefur vefengt þessa launafjárhæð og talið hana óraunhæfa. Ekki hefur skattstjóri skotið neinum stoðum undir þá vefengingu að því undanskildu að hann telur að um óskýrða eignaaukningu hafi verið að ræða hjá kæranda. Af hálfu kæranda hafa verið gefnar skýringar á því atriði svo sem fram kemur hér að framan. Þótt á það megi fallast að tilefni hafi verið til þess að staðreyna hvort fjárhæð hinna tilfærðu launa væri rétt, verður að telja að skattstjóra hafi borið að skjóta traustari stoðum undir vefengingu sína á launafjárhæðinni en raun varð á í máli þessu. Verður því að hnekkja hinni kærðu tekjuhækkun skattstjóra. Er krafa kæranda samkvæmt þessu tekin til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu..

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja