Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 78/1990
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. og C-liður 9. tl. — 28. gr. 4. tl. Lög nr. 45/1987 — 5. gr. Lög nr. 46/1987 — 2. gr.
Eigin vinna — Eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Skattskyld eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Íbúðarhúsnæði — Launatekjur — Eignaauki — Skattfrjáls eignaauki — Eignaauki, skattfrjáls — Eignaauki, skattskyldur — Skattskyldur eignaauki — Teknategund — Skattskyldar tekjur — Eignaauki vegna eigin vinnu við íbúðarhúsnæði — Húsbygging — Húsbyggjandi — Skattfrelsi — Skattfrjálsar tekjur — Lögskýring — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda
Málavextir eru þeir, að kærandi fékkst við byggingu eigin íbúðarhúsnæðis á árinu 1987 og var það aðalatvinna hans þetta ár. Hann færði sér 600.000 kr. til tekna sem laun í reit 21 í skattframtali sínu árið 1988 vegna vinnu þessarar. Með bréfi, dags. 15. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda m.a. um þá breytingu á skattframtali hans árið 1988, að vinna við eigið húsnæði hefði verið færð úr reit 21 í reit 77. Með kæru, dags. 11. ágúst 1988, mótmælti kærandi þessari breytingu, enda væri ekki um eignatekjur að ræða. Kvaðst hann hafa verið að skapa eign en ekki hirða arð af eign. Þá hefðu umræddar 600.000 kr. aldrei verið til sem fé og yrðu seint. Til þess að byggja íbúðarhúsnæði yfir fjölskyldu sína hefði hann tekið þann kost að spara launagreiðslur til annarra með því að gera þessa vinnu að aðalatvinnu sinni árið 1987. Hefði hann unnið fyrir sömu fjárhæð í launavinnu og greitt öðrum fyrir sömu vinnu og hann hefði lagt í húsbygginguna, væru yfirgnæfandi líkur á því, að sá, er verkið hefði unnið, hefði ekki þurft að greiða skatt af nefndum 600.000 kr. („skattleysisár“). Svo liti því út sem verið væri að refsa honum fyrir að fara þessa leið. Með kæruúrskurði, dags. 18. nóvember 1988, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi: „Þar sem vinna yðar við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin nota er unnin í venjulegum vinnutíma er hún skattskyld skv. 9. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Samanber einnig 2. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1987 og 5. gr. laga nr. 45/1987. Með vísan til leiðbeininga ríkisskattstjóra ber að færa þessar tekjur í reit 77 í skattframtali.“
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. desember 1988. Ítrekar hann kröfu sína um það, að tilgreining umræddra tekna í skattframtali verði látin óhreyfð standa, þ.e.a.s. sem launatekjur en ekki færðar sem eignatekjur í reit 77. Kærandi heldur fram sömu röksemdum og áður og gerir nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum og högum.
Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Eigin vinna við íbúðarhúsnæði sem unnin er í venjulegum vinnutíma er skattskyld eftir 9. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.“
Eigin vinna kæranda við byggingu íbúðarhúsnæðis hans telst honum til tekna skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda þykir helst mega jafna tekjum þessum til þeirra tekna, sem þar eru taldar upp. Af þessari niðurstöðu þykir og leiða, að nefndur tekjuliður falli undir niðurfellingarákvæði laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, skv. 2. gr. laga þessara, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt þessu er krafa kæranda tekin til greina.