Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðaviðskipti
  • Söluhagnaður lausafjár

Úrskurður nr. 187/1993

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 15. gr. 1. og 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1992 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kærenda árið 1992 barst skattstjóra 30. júlí 1992. Tók skattstjóri það sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæruúrskurði, dags. 5. október 1992, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1992 meðal annars með þeirri breytingu að söluhagnaður að fjárhæð 2.065.000 kr. vegna sölu þriggja bifreiða á árinu 1991, sbr. yfirlit yfir bifreiðaviðskipti sem fylgdi skattframtalinu, var færður til tekna í reit 77 þar sem um skattskyldan söluhagnað væri að ræða skv. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Nýtti skattstjóri sér heimild í 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lagði 10% álag á gjaldstofna vegna síðbúinna skila.

Af hálfu umboðsmanns kærenda var úrskurði skattstjóra skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 29. október 1992, og þess krafist að úrskurði skattstjóra verði hnekkt að því er varðaði söluhagnað bifreiða, enda telji hann að 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi við í þessu tilviki þar sem bílasalan sé ekki hluti af atvinnurekstri kærenda og hafi bifreiðarnar ekki verið keyptar til að selja með hagnaði. Jafnframt bendir hann á að ríkisskattanefnd hafi myndað þá venju með úrskurðum sínum að aðili þurfi að selja 10 bíla eða fleiri svo skylt sé að telja það atvinnurekstur.

Með bréfi, dags. 23. desember 1992, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur og athugasemdir í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa kærendur ekki gert líklegt að umræddra bifreiða hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“

II.

Samkvæmt yfirlitsblaði um bifreiðaviðskipti kærenda á árinu 1991, sem fylgdi skattframtali, keypti kærandi bifreiðina X á 1.100.000 kr. 13. júní það ár og seldi hana 27. sama mánaðar á 1.700.000 kr., bifreiðin Y var keypt 30. júlí á 1.075.000 kr. og seld sama dag á 2.440.000 kr. og bifreiðin Z var keypt á 300.000 kr. 6. september og seld á 400.000 kr. 16. sama mánaðar.

Með hliðsjón af eignarhaldstíma kærenda á framangreindum bifreiðum og mismuni söluverðs og kaupverðs þykja kærendur ekki hafa gert líklegt að umrædd bifreiðaviðskipti hafi ekki farið fram í hagnaðarskyni, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Verður því að synja kröfu kærenda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja