Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Byggingarkostnaður
  • Framkvæmdalán

Úrskurður nr. 225/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður 3. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að á skattframtal 1991 færði kærandi vexti af skuld við Byggingarsjóð ríkisins 33.090 kr. og af framkvæmdaláni 609.419 kr. í reit 88 (önnur vaxtagjöld). Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991 voru kæranda ekki ákvarðaðar vaxtabætur.

Með kæru til skattstjóra, dags. 27. ágúst 1991, óskaði kærandi eftir að sér yrðu úrskurðaðar vaxtabætur. Í kærunni sagði: „Samkvæmt meðfylgjandi gögnum hef ég greitt í vexti og verðbætur á árinu 1990 kr. 609.950 af láni byggingasjóðs ríkisins vegna aldraðra, svo og lántökukostnað af láni húsnæðisstjórnar að upphæð kr. 33.090 og var það lán tekið til að greiða upp fyrrgreint lán.“ Kærunni fylgdu ljósrit af bréfi Húsnæðisstofnunar ríkisins til framkvæmdanefndar íbúðabygginga aldraðra á Akureyri, dags. 1. nóvember 1988, þar sem samþykkt er að veita framkvæmdanefndinni framkvæmdalán til byggingar 13 íbúða við L-götu. Ennfremur fylgdu ljósrit af samningi um fyrrgreint lán og ljósrit af greiðslukvittunum vegna greiðslu lánsins. Þá fylgdi staðfesting lántökugjalds 33.090 kr.

Með úrskurði, dags. 8. október 1991, tók skattstjóri kæruna til úrlausnar. Synjaði hann kröfu kæranda varðandi vexti og verðbætur að upphæð 609.905 kr. á þeim forsendum að framkvæmdalán Húsnæðisstofnunar hafi verið veitt Akureyrarbæ (eða framkvæmdanefnd hans um íbúðabyggingar aldraðra) og virðist kæranda óviðkomandi. Fjárhæð lántökukostnaðar myndi hins vegar stofn til vaxtabóta, en fjárhæð hans sé það lág að kæranda beri ekki vaxtabætur vegna hans.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. nóvember 1991. Gerir hann sömu kröfur og fram komu í kæru til skattstjóra. Telur hann að hjá skattstjóra gæti misskilnings varðandi vexti og verðbætur vegna framkvæmdaláns til Framkvæmdanefndar íbúðarbygginga fyrir aldraða á Akureyri. Lánið hafi verið veitt til íbúðabygginga að L-götu, en þar eigi kærandi íbúð. Lánsfjárhæð hafi verið 30.641.000 kr. en til útborgunar hafi komið 27.576.900 kr. eða 2.121.300 kr. á íbúð. Framkvæmdalánið hafi síðan verið gert upp 6. febrúar 1991 með 2.730.719 kr. á íbúð. Mismunur verðbætur og vextir 609.419 kr. á íbúð. Framkvæmdanefnd íbúðabygginga fyrir hönd aldraðra á Akureyri hafi að vísu verið lántakandi margnefnds framkvæmdaláns, sem átti að greiðast að fullu á tímabilinu desember 1988 til febrúar 1990, en það hafi í raun verið fyrir hönd hinna 13 íbúðaeigenda, sem hafi greitt áfallinn kostnað vegna lánsins, þar með vexti og verðbætur.

Með bréfi, dags. 19. desember 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þær kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Um lán Byggingarsjóðs ríkisins:

Skattstjóri hefur í úrskurði sínum fallist á að færa lántökukostnað að upphæð 33.090 kr. sem vaxtagjöld vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Kæran er því tilefnislaus varðandi þetta kæruatriði.

Um framkvæmdalán:

Synjun skattstjóra varðaði vexti og verðbætur af framkvæmdaláni sem veitt var Framkvæmdanefnd íbúðabygginga aldraðra á Akureyri vegna byggingar 13 söluíbúða fyrir aldraða við L-götu þar í bæ. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda 1989 keypti kærandi íbúð í raðhúsi af framkvæmdanefnd íbúðabygginga fyrir aldraða á árinu 1988. Telja verður að hluti kæranda í vöxtum og verðbótum af framangreindu framkvæmdaláni teljist til byggingarkostnaðar íbúðar hans. Að svo vöxnu er kröfu kæranda synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja