Úrskurður yfirskattanefndar

  • Óvenjuleg skipti í fjármálum
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 233/1993

Gjaldár1991

Lög nr. 75/1981, 58. gr. 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 2. janúar 1992, boðaði skattstjóri kæranda svofellda breytingu á skattframtali 1991:

„Samkvæmt skattframtali yðar 1991 keyptuð þér á árinu 1990 húseignina X í Y-hreppi að hálfu á kr. 200.000. Fasteignamat þessara eigna var þann 01.12.1989 samtals kr. 1.915.000 eða kr. 957.500 yðar hlutur.

Þar sem kaupverð eignanna er aðeins rúmlega 20% af fasteignamati er talið að þessi kaup falli undir óvenjuleg skipti í fjármálum sbr. 58. gr. skattalaganna. Því er nú fyrirhugað að færa yður til tekna mismun á fasteignamatsverði eignarinnar og kaupverði eða kr. 757.500.“

Í svari, dags. 25. janúar 1991, mótmælti kærandi boðaðri breytingu og kvað fasteignamatið vera langt frá sannvirði eignarinnar. Tók hún fram í því sambandi að 1) eignin væri sumarbústaður, 2) lóð væri engin nema undir húsi og því girðingarlaust, 3) Y-hreppi hefði verið boðin eignin til kaups en hann hafnað, 4) eigandi hefði þá ekki haft frekari söluaðgerðir í huga og hefði húsið því grotnað niður eða verið rifið og 5) mætti segja að hér væri um óseljanlega og verðlausa eign að ræða. Húsið væri vatnslaust, pípu- og miðstöðvarlagnir ónýtar, einangrun léleg og borið hefði á leka og raka, enda byggt úr steini árið 1943 af vanefnum og vöntun á byggingarefni. Í framhaldi af svari reit skattstjóri kæranda svofellt bréf, dags. 9. mars 1992:

„Með vísan til bréfs yðar, dags. 25.01.1992, er yður gefinn kostur á því að fá þar til hæfa menn, t.d. fasteignamat ríkisins eða dómkvadda matsmenn, til að meta fasteignina að X í Y-hreppi og senda matsgerð þeirra til skattstjóra. Að öðrum kosti má búast við að yður verði áætluð tekjuviðbót sbr. bréf skattstjóra, dags. 02.01.1992.“

Af hálfu kæranda var lögð fram umbeðin matsgjörð, dags. 3. apríl 1992, en ekki liggur fyrir dagsetning móttöku hennar hjá skattstjóra, undirrituð af tveimur tilkvöddum matsmönnum. Í matsgjörðinni kom fram m.a. að þeir hefðu ásamt fulltrúum eigenda skoðað og metið umrædda eign þann 30. mars 1992 sem væri úr landi A og norðan B. Komið hefði fram að húsið hefði verið lagfært töluvert síðan það var keypt. Væri þeim kunnugt um að tvö hús byggð um líkt leyti á B hefðu verið seld nýlega bæði á tæplega helming fasteignamatsverðs. Mjög erfitt væri að gera sér grein fyrir hvað hugsanlega fengist fyrir hús á þessum stað en þeir teldu að það myndi þó vera töluvert minna en fengist fyrir hús á B. Var niðurstaða matsgjörðarinnar að miðað við febrúar 1990 gæti hugsanlegt söluverð umrædds húss verið 600.000 kr.

Með bréfi, dags. 11. maí 1992, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði fært henni til tekna á skattframtali 1991 tekjuviðbót 100.000 kr. vegna kaupa umrædds húss á grundvelli framlagðrar matsgjörðar saminni af byggingafulltrúa og fasteignasala þar sem heildarmat hússins væri 600.000 kr. eða 300.000 kr. að hluta kæranda og endurákvarðað henni og maka opinber gjöld gjaldársins 1991. Með kæru, dags. 9. júní 1992, krafðist kærandi þess að kaupverð eignarinnar yrði látið standa óbreytt í framtali hennar. Með kæruúrskurði, dags. 2. júlí 1992, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda þar sem í kæru væru engar nýjar upplýsingar og rökstuddi hina kærðu breytingu með því að þegar tillit væri tekið til umræddrar matsgjörðar þá væri kaupverðið samt 33,3% undir matsverði og því hefði mismunurinn 100.000 kr. verið færður kæranda til tekna.

Með kæru, dags. 21. júlí 1992, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og krefst þess að hann verði ómerktur með svofelldum rökstuðningi:

„Enginn rökstuðningur er fyrir því að samkomulag milli seljanda og kaupanda sé gert á svo lágum verðum að kaupanda hafi slíkt orðið tekjumyndandi. Húsið er keypt í mjög lélegu ástandi og alls engin markaðsvara. Niðurstöður matsgjörðar voru þær að hugsanlegt söluverð gæti orðið kr. 600.000.00 fyrir allt húsið. Hvorki seljanda né kaupanda skiptir slíkt máli, ef báðir eru sáttir við sín samskipti enda þótt kaupverð sé lægra, enda markaður fyrir eignina nánast enginn og þetta því besta boð sem seljandi fékk.

Seljandi fær ekki skattafslátt vegna lélegrar sölu. Verður niðurstaða skattstjóra ekki túlkuð á annan veg en að undirrituð hafi ekki staðið að kaupunum með eðlilegum hætti.“

Með bréfi, dags. 20. ágúst 1992, krefst ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

II.

Það er fyrst við málsmeðferð skattstjóra að athuga að hvorki í bréfi hans, dags. 2. janúar 1992, eða síðar hefur komið fram hvaða ákvæði umræddrar 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væru lögð til grundvallar hinni kærðu endurákvörðun. En að virtum málavöxtum og ákvæðum umræddrar lagagreinar má ætla að hann hafi lagt til grundvallar ákvæði 2. mgr. sem er svohljóðandi:

„Kaupi skattaðili eign á óeðlilegu háu verði eða selji eign á óeðlilega lágu verði geta skattyfirvöld metið hvað telja skuli eðlilegt kaup- eða söluverð. Mismun kaupverðs eða söluverðs annars vegar og matsverðs hins vegar skal telja til skattskyldra tekna hjá þeim aðila sem slíkra viðskipta nýtur.“

Af skýringum og svörum kæranda í bréfi hennar, dags. 25. janúar 1991, mátti ráða að fasteignamatsverð umræddrar eignar hafi verið ótækur grundvöllur tekjuviðbótar samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, enda féll skattstjóri frá því að miða við það í þessum efnum. Það er skattstjóra að leggja mat á það samkvæmt nefndu lagaákvæði með rökstuddum hætti hvað teljist eðlilegt kaup- eða söluverð. Var það í andstöðu við umrætt lagaákvæði að krefja kæranda um matsgerð svo sem skattstjóri gerði með bréfi sínu, dags. 9. mars 1992. Þá kemur fram í matsgerðinni að matsmenn telji verulegum vandkvæðum bundið að finna raunhæft söluverð eignarinnar. Með vísan til þess sem að framan segir þykir eigi það traustur grunnur lagður undir hinn umdeilda tekjuauka að hann verði skattlagður hjá kæranda á grundvelli 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinn kærði tekjuauki falli niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja