Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 248/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 2. tölul.  

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra að reikna kærendum leigutekjur af íbúð að L-götu samkvæmt 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra bæri að telja til leigutekna 2,7% af fasteignamatsverði eigna sem ekki væru til eigin nota. Væri íbúðarhúsnæði, sem ekki væri nýtt til eigin nota, látið endurgjaldslaust í té bæri á sama hátt að telja leigutekjur til tekna. Kærendum væru því færðar til tekna 118.449 kr. er væri 2,7% fasteignamatsverðs umræddrar íbúðar, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 11. nóvember 1991, en skattframtal kærenda, sem barst skattstjóra 20. júní 1991, var tekið sem kæra.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. desember 1991. Umboðsmaðurinn upplýsir að íbúðin að L-götu hafi verið notuð af dóttur kærenda allt árið 1990 og á árinu 1991 hafi eiginkonan nýtt íbúðina þar sem þau séu skilin. Umboðsmaðurinn vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skuli hvorki reikna tekjur né gjöld af íbúðarhúsnæði sem skattaðili eigi og noti til eigin þarfa. Íbúðin hafi verið notuð til eigin þarfa samkvæmt þessu lagaákvæði og beri kærendum því ekki að reikna sér leigutekjur á árinu 1990.

Með bréfi, dags. 21. febrúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Kærendur hafa ekki fært nein rök fyrir því á hvern hátt afnot dóttur þeirra að íbúðinni að L-götu geti fallið undir ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 2. tölul. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 um not skattaðila af eigin íbúðarhúsnæði til eigin þarfa. Þetta heimildarákvæði felur í sér undantekningu frá meginreglunni sem einnig kemur fram í 2. tölulið C-liðs 7. gr. um skattskyldu leigutekna af fasteignum. Slíka undantekningarreglu verður að túlka þröngt og því gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsenda hans.“

Yfirskattanefnd sendi kærendum ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 13. nóvember 1992, og gaf þeim jafnframt kost á að leggja fram nánari greinargerð um notkun íbúðarinnar að L-götu á árinu 1990.

Í bréfi, dags. 26. nóvember 1992, gerðu kærendur grein fyrir því að umrædd íbúð hafi verið séreign eiginkonu og hún búið í íbúðinni ásamt dóttur sinni til þess tíma að kærendur tóku upp sambúð seinni hluta árs 1989. Eftir það hafi dóttirin búið endurgjaldslaust í íbúðinni þar til í júlí 1991 að kærendur skildu að borði og sæng og eiginkona flutti aftur í íbúðina.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Í 1. mgr. 2. tl. C- liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, segir að til skattskyldra tekna skuli meðal annars teljast leigutekjur eftir hvers konar fasteignir. Í 2. mgr. sama töluliðs er það ákvæði að reikna skuli leigu til tekna með hlunnindamati húsnæðis, sbr. 116. gr. nefndra laga, þegar heildarleigutekjur af einstökum íbúðum ná ekki því mati. Sú undantekning er þar gerð frá þessu að af íbúðarhúsnæði sem skattaðili á og notar til eigin þarfa skuli hvorki reikna tekjur né gjöld. Eins og atvikum er háttað í máli þessu þykir mega fallast á kröfu kærenda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja