Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kaupauki
  • Tekjutímabil

Úrskurður nr. 381/1993

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 60. gr. 2. mgr.  

I.

Kæruefni máls þessa varðar skattlagningu bónusgreiðslna til kæranda vegna tekjuáranna 1986-1988 að fjárhæð 1.939.356 kr. Gerir kærandi þá kröfu að skattar fyrir framangreind tekjuár verði endurreiknaðir.

Kærandi var framkvæmdastjóri A hf. frá miðju ári 1986 til 31. mars 1989. Samkvæmt kaupuppgjöf launagreiðanda, A hf., námu launatekjur kæranda árið 1989 3.690.478 kr. Kærandi færði sér einungis 1.178.460 kr. í skattframtali sínu árið 1990. Mismunur þessi fólst að hluta til í nefndum bónusgreiðslum 1.939.356 kr. og að hluta til í hækkunum fastra launa tekjuárin 1986-1988 vegna launaviðmiðunar.

Skattframtali kæranda 1990 fylgdi beiðni þar sem farið var fram á að álögð gjöld vegna tekjuáranna 1986 til 1988 yrðu endurreiknuð. Fram kom að kærandi hafði fengið bónusgreiðslur vegna tekjuáranna 1986 og 1987 greiddar á árinu 1989 og að tekin hefði verið staðgreiðsla af þeim. Beiðni kæranda fylgdu afrit af útreikningi bónusgreiðslna, dags. 28. mars 1989, afrit launaseðla og afrit ráðningarsamnings kæranda, dags. 24. mars 1986. Í ráðningarsamningi kæranda voru ákvæði um bónusgreiðslur, auk fastra launa, og skyldu bónusgreiðslur þessar miðast við ákveðið hlutfall af veltuaukningu og hagnaði fyrirtækisins. Með bréfi, dags. 20. júlí 1990, synjaði skattstjóri kæranda um endurupptöku álagningar fyrri ára og hækkaði launatekjur kæranda frá framangreindum launagreiðanda í 3.690.478 kr. Voru forsendur skattstjóra þær að þótt ráðningarsamningur kæranda tilgreindi ekki hvenær útreikningur bónusgreiðslunnar skyldi fara fram, þá bæri samþykkt stjórnar fyrirtækisins á útreikningi kaupaukans það með sér að ætlunin hafi verið að greiða eftir lok ráðningartímans.

Í kæru til skattstjóra, dags. 8. ágúst 1990, mótmælti kærandi skilningi skattstjóra þess efnis að ætlunin hafi verið að greiða kaupauka eftir lok ráðningarsamnings. Í kærunni sagði:

„Sá skilningur sem þér leggið á málið hefur aldrei komið fram áður, enda hefði ég áreiðanlega sett verðtryggingarákvæði inn í samninginn ef sá skilningur hefði verið ríkjandi. Samningurinn var til a.m.k. þriggja ára og framlengdist sjálfkrafa ef honum var ekki sagt upp. Möguleg starfslok hefðu því getað verið mörgum árum eftir að ráðningartíminn byrjaði og hætt er við að bónusarnir hefðu rýrnað verulega í verðbólguþjóðfélagi okkar ef skilningur yðar hefði gilt. Ástæðan fyrir því að kaupaukarnir voru ekki greiddir fyrr var erfið greiðslustaða fyrirtækisins.“

Með úrskurði, dags. 26. nóvember 1990, tók skattstjóri kröfu kæranda til úrlausnar. Fram kom hjá skattstjóra að af framlögðum fylgiskjölum verði ekki annað ráðið en að kaupauki hafi fyrst verið reiknaður út við starfslok kæranda. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi gengið eftir árlegum útreikningi á kaupauka sínum, en ljóst sé að hann hafi mátt ákvarða þegar afkoma fyrirtækisins lá fyrir ár hvert. Skattstjóri synjaði kröfu kæranda með vísan til 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru, dags. 21. desember 1990, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Gerir kærandi þá kröfu að skattar fyrir tekjuárin 1986-1988 verði ákvarðaðir að nýju. Byggir kærandi kröfu sína á 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981. Í kærunni segir:

„Í úrskurði skattstjóra segir m.a. að umrædd laun geti ekki talist óviss í skilningi 2. mgr. 60. gr. Samkvæmt ráðningarsamningi kæranda við A h.f. hefur krafa á hendur félaginu myndast á því ári sem kaupaukarnir eru reiknaðir út frá, þó svo að þeir hafi ekki verið greiddir fyrr en á árinu 1989. Ekki skiptir máli skv. 2. mgr. 60. gr. hvenær kaupaukarnir eru greiddir, heldur hvenær krafa hefur myndast.“

Með bréfi, dags. 7. maí 1991, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Kröfugerð kæranda í máli þessu er óskýr. Telja verður þó að krafa hans lúti eingöngu að því að bónusgreiðslur samtals 1.939.356 kr. verði felldar undan skattlagningu gjaldárið 1990 og komi til skattlagningar tekjuárin 1986 og 1987, 886.361 kr. tekjuárið 1986 og 1.052.995 kr. tekjuárið 1987, sbr. gögn er fylgdu bréfi kæranda, dags. 28. maí 1990. Ákvæði um kaupauka (bónus) þann sem um er deilt í málinu er að finna í ráðningarsamningi kæranda, dags. 24. mars 1986. Var svo um samið að kærandi fengi veltuaukningarbónus sem næmi 2% af veltuaukningu og hagnaðarbónus sem næmi 3% af nettóhagnaði félagsins. Ekki eru í samningnum ákvæði um hvenær greiða beri út kaupaukann. Ljóst er þó að kaupauki hvers árs verður ekki reiknaður út fyrr en rekstrarniðurstöður hvers árs liggja fyrir og verður raunar ekki talinn óumdeildur fyrr en aðalfundur hefur staðfest ársreikning hvers árs. Í yfirliti því sem fylgdi beiðni kæranda til skattstjóra eru útreikningar löggilts endurskoðanda félagsins, dags. 28. mars 1989, á launum kæranda frá miðju ári 1986 til ársloka 1988, þar á meðal kaupauka, sem staðfestur var af stjórn félagsins 28. mars 1989. Í framlögðum gögnum kemur ekki fram að kaupaukinn hafi verið reiknaður út við gerð ársreikninga hvers árs og færður í bókhald félagsins. Kærandi hefur heldur ekki getið um inneign hjá félaginu á skattframtölum sínum viðkomandi ár og virðist því sjálfur hafa talið að um óvissar tekjur væri að ræða. Eins og öllum atvikum er háttað þykir því verða að synja kröfu kæranda um skattlagningu umræddra tekna á þeim tíma er hann telur þær hafa orðið til í stað greiðsluárs.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja