Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 79/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 15. gr. — 23. gr. 1. mgr. — 100. gr. 1. mgr.  

Bifreiðaviðskipti — Bifreiðainnflutningur — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Söluhagnaður, skattfrjáls — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður, útreikningur — Sölutap — Tap á sölu eigna utan atvinnurekstrar — Frádráttur sölutaps frá söluhagnaði — Samskonar eignir — Síðbúin kæra — Kæra, síðbúin — Kærufrestur — Vítaleysisástæður — Sönnun — Sönnunarbyrði — Gróðaskyn

Málavextir eru þeir, að í greinargerð um eignabreytingar í skattframtali sínu árið 1988 gerði kærandi grein fyrir bifreiðaviðskiptum á árinu 1987. Kom þar fram, að hann hefði flutt inn bifreið af gerðinni Audi árg. 1984, er kostað hefði 490.000 kr. Þá bifreið hefði hann selt X fyrir 640.000 kr. og jafnframt keypt af manni þessum bifreið af gerðinni Mazda árg. 1982 fyrir 330.000 kr. Sú bifreið hefði verið seld Y fyrir 300.000 kr. og jafnframt keypt Mazda árg. 1979 af þessum manni fyrir 140.000 kr. Sú bifreið hefði verið seld fyrir 155.000 kr. Þá kom fram, að kærandi hefði flutt inn bifreið af gerðinni Audi árg. 1985 fyrir 495.000 kr. Þá bifreið átti kærandi í árslok 1987. Ekki færði kærandi sér til tekna söluhagnað vegna þessara viðskipta og gerði enga grein fyrir slíkum hagnaði.

Með bréfi, dags. 27. maí 1988, krafði skattstjóri kæranda skýringa á því, hvers vegna hann teldi ekki til tekna hagnað af sölu bifreiða, er hann hefði keypt og selt aftur með hagnaði, og á hverju hann byggði það, ef hann áliti söluhagnaðinn falla undir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 15. júní 1988, kom fram, að kærandi hefði ekki fengið rétta bifreið við fyrri innflutninginn þ.e. bifreiðin af gerðinni Audi árg. 1984 hefði bæði reynst meira ekin og ver á sig komin en um hefði verið samið. Kærandi hefði því ákveðið að flytja inn aðra bifreið, er félli betur að kröfum hans og selja þá fyrri. Við þá sölu hefði þurft að taka bifreiðar upp í kaupin og hefðu viðskiptin með notuðu Mazda-bifreiðarnar leitt af sölu Audi-bifreiðarinnar. Bifreið sú, sem kærandi hefði flutt inn í síðara skiptið, hefði hins vegar reynst eins og um var samið og væri hún enn í eigu kæranda. Þá segir svo í bréfinu: „Þegar aðdragandi þessara viðskipta er hafður í huga má vera ljóst að tilgangurinn með sölu bifreiðarinnar var ekki að hagnast á sölunni, heldur einungis að losna við bifreiðina. Eðli viðskipta með notaða bíla felur í sér að taka annan ódýrari uppí og greiða mismuninn í peningum. Það ræðst því oftast af heppni hversu oft þarf að skipta niður á við til að hafa lokið sölunni.“ Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð í skattframtali hans árið 1988, að söluhagnaður að fjárhæð 135.000 kr. af bifreiðasölu hefði verið færður honum til tekna í reit 76 í skattframtalinu, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, enda kæmi ekkert fram í svarbréfi kæranda, dags. 15. júní 1988, er sýndi fram á, að undanþáguákvæði 2. mgr. 15. gr. nefndra laga tæki til umrædds söluhagnaðar.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var nefnd tekjufærsla kærð með kæru, dags. 24. ágúst 1988, og sú skoðun ítrekuð, að söluhagnaður vegna bifreiðaviðskiptanna væri ekki skattskyldur með hliðsjón af aðdraganda þeirra. Var vísað til svarbréfs, dags. 15. júní 1988, og jafnframt bent á, að kærandi hefði ekki staðið í bifreiðaviðskiptum umfram eðlilega endurnýjun einkabifreiða. Með kæruúrskurði, dags. 2. desember 1988, synjaði skattstjóri kærunni, enda kæmi ekkert það fram í henni, sem ekki hefði legið fyrir við álagningu.

Með kæru, dags. 6. janúar 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og ítrekar kröfur sínar um það, að umræddur söluhagnaður verði ekki skattlagður með skírskotun til skýringa og röksemda í bréfum til skattstjóra, dags. 15. júní 1988 og 24. ágúst 1988. Þá er gerð grein fyrir, hvað valdið hafi því, að ekki tókst að kæra til ríkisskattanefndar fyrr en að kærufresti liðnum.

Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda: „Eftir atvikum er á það fallist að kæran hljóti efnismeðferð og þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með vísan til skýringa kæranda og kröfugerðar ríkisskattstjóra er kæran tekin til efnismeðferðar þrátt fyrir það að hún sé framkomin að liðnum kærufresti. Samkvæmt skattframtali árið 1987, sem liggur fyrir í málinu keypti kærandi hvorki bifreiðar né seldi á árinu 1986. Í málinu liggur ekkert fyrir um bifreiðaskipti kæranda önnur ár en tekjuárin 1986 og 1987. Kærandi hefur gefið skýringar á bifreiðaviðskiptum sínum síðarnefnda árið, þau sem um er deilt í máli þessu. Út af fyrir sig hafa þær eigi verið vefengdar og eigi sýnilegt tilefni til þess. Að þessu virtu þykir mega byggja á því, að kæranda hafi tekist að gera líklegt, að umrædd bifreiðaviðskipti hafi eigi farið fram í hagnaðarskyni, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja