Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattframtal, vefenging
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 396/1993

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981, 96. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem er hlutafélag, skilaði skattframtali 1988 í framtalsfresti og var framtalið lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda það ár að gerðum breytingum sem ekki hefur komið fram ágreiningur um. Með bréfi, dags. 10. ágúst 1988, óskaði skattstjóri upplýsinga frá kæranda um bankainnstæður í árslok 1986 2.504.246 kr. og í árslok 1987 8.105.483 kr., vaxtatekjur 1987 442 kr., vaxtagjöld árið 1987 486.552 kr. og leiðrétta gjaldfærslu 1987 vegna verðbreytinga 85.040 kr. Fór skattstjóri meðal annars fram á upplýsingar um vaxtakjör bankainnistæðna og viðskiptamanna og ljósrit eða afrit bankaútskrifta þar sem fram kæmu allar breytingar á bankareikningum viðkomandi atvinnurekstri á árinu 1987 og stöðu þeirra í upphafi og lok árs. Framlagðar upplýsingar skyldu studdar þeim gögnum til staðfestingar sem við gætu átt.

Svohljóðandi svar barst frá kæranda, dags. 6. september 1988:

„1. Peningar í sjóði og banka hef ég fundið sem síðast liðin tvenn umrædd áramót sem mismun skulda og eigna. Er sá liður í litlum mæli bankainnistæður, einungis tékkareikningar sem sjaldnast eru háar upphæðir inná og gefur því nánast engar vaxtatekjur. Þessi liður er því að langmestum hluta fólginn í rekstrarfé sem hluthafar er starfa hjá X hf. [kæranda] hafa til að standa straum af rekstrarkostnaði á hverjum tíma.

2. Vaxtakjör bankainnistæðna eru þau kjör sem Landsbankinn býður á hverjum tíma vegna tékkareikninga með yfirdráttarheimild. Vextir eru ekki teknir af viðskiptamönnum.

3. Bankaútskriftir með breytingum á tékkareikningi nr. … við Landsbanka Íslands 1987 fylgja með.

4. Færslugjöld vegna bankakostnaðar vaxtagjalda kr. 176.448,00 og verðbótaruppfærsla kr. 310.104,00. Samtals kr. 486.552,00 einnig með.“

Næst gerðist það í málinu að hinn 21. ágúst 1989 barst ríkisskattstjóra bréf frá umboðsmanni kæranda, dags. 15. júní 1989, þar sem farið var fram á að skattframtal kæranda rekstrarárið 1987 yrði tekið til endurákvörðunar. Skattstjóri hefði alfarið hafnað skattframtali fyrirtækisins þar sem bókhald hafi verið talið ófullnægjandi. Því hafi núverandi umboðsmaður verið fenginn til að endurvinna bókhaldið. Mismunur á núverandi ársreikningi og áður innsendum ársreikningi lægi í því „að öll gögn voru ekki færð í fyrri ársreikningi og bankareikningar óstemmdir, svo og viðskiptamenn“. Tekjulækkun stafi af tvífærslu aksturstekna og aukinn fjármagnskostnaðar væri vegna framreiknings skulda. Þess var getið að bókhald rekstraráranna 1985 og 1986 væru í endurvinnslu og skattuppgjöf vegna þeirra yrði send ríkisskattstjóra von bráðar. Bréfinu fylgdi endurgerður ársreikningur óundirritaður og endurgert skattframtal undirritað af umboðsmanni kæranda.

Með bréfi, dags. 9. apríl 1990, tilkynnti ríkisskattstjóri umboðsmanni að hann hafnaði endurgerðum skattframtölum kæranda 1986 og 1987, en féllist þó á að að lækka nokkuð viðbótartekjur vegna þessara ára. Vegna gjaldársins 1988 tók ríkisskattstjóri fram að álagning opinberra gjalda það ár hafi verið byggð á skattstofnum samkvæmt framtali er móttekið hafi verið í framtalsfresti. Kæranda hafi verið sent fyrirspurnarbréf, dags. 10. ágúst 1988, en ekki yrði séð af fyrirliggjandi gögnum að afstaða hefði verið tekin til þess. Væri bréf umboðsmanns kæranda, dags. 15. júní 1989, ásamt endurgerðu skattframtali 1988, er því hefði fylgt, því sent skattstjóra sem framlagðar upplýsingar í framhaldi af fyrirspurnarbréfi skattstjóra.

Áður en skattstjóra bárust þessi gögn eða 8. nóvember 1989 hafði hann með vísan til að engar rökstuddar skýringar væri að finna í svarbréfi kæranda frá 6. september 1988, ásamt því að vaxtatekjur þættu óeðlilega lágar miðað við bankainnstæður, boðað kæranda endurákvörðun skattgjaldstekna með álagi samkvæmt heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981. Ekki svaraði kærandi bréfi þessu og hinn 30. nóvember 1989 hratt skattstjóri boðaðri breytingu í framkvæmd og áætlaði kæranda viðbótartekjur að fjárhæð 600.000 kr. að viðbættu 25% álagi. Ekki verður séð að þessi ákvörðun skattstjóra hafi verið kærð til hans.

Hinn 11. febrúar 1991 tók skattstjóri til afgreiðslu erindi það, dags. 15. júní 1989, sem ríkisskattstjóri hafði framsent honum í apríl 1990. Rakti hann gang málsins og leiðrétti ummæli umboðsmanns kæranda um að umræddu skattframtali hefði verið hafnað af skattstjóra. Tók hann undir það með umboðsmanni kæranda að skattframtali því sem lagt var til grundvallar álagningu hafi í veigamiklum atriðum verið áfátt og vísaði í því sambandi til niðurstaðna úr bókhaldsathugun skattstjóra vegna rekstraráranna 1985 og 1986, en sú athugun hefði leitt í ljós að ekkert bókhald hefði verið fært, röðun og vörslu sölureikninga verið verulega áfátt og kæranda verið áætlaðar viðbótartekjur fyrir umrædd ár. Vegna hins endurgerða skattframtals gerði skattstjóri þessar athugasemdir:

„1. Hvorki sjóðbók né dagbók virðast hafa verið færðar.

2. Röðun og varsla fylgiskjala hefur verið í ólestri eins og fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra frá 9. apríl 1990 með vísan til skýrslu rannsóknardeildar.

3. Skýringar í bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 15. júní 1989, á lækkun tekna vegna tvífærslu aksturstekna þykja ófullnægjandi.

4. Hækkun á fjármagnskostnaði í leiðréttum framtalsskilum þykir með ólíkindum. Hefur hann næstum fjórfaldast frá upphaflegri framtalsgerð og er u.þ.b. 28% í hlutfalli við heildarskuldir félagsins sem þykir vart geta staðist.

5. Nokkrir gjaldaliðir í reikningum félagsins fyrir árið 1986 sem nú hafa verið lagðir fram þykja tortryggilegir. Má í því sambandi m.a. benda á eftirfarandi:

a) Tapaðar útistandandi kröfur kr. 436.832 óskýrðar og óstaðfestar.

b) Kaffikostnaður kr. 167.632,70 þykir úr hófi fram og án skýringa við tekjuöflun félagsins.

c) Ýmiss kostnaður kr. 134.247 óskýrður og ósundurliðaður og ekki sýnt fram tengsl við öflun tekna.“

Með vísan til framanritaðs féllst skattstjóri ekki á að taka hið endurgerða skattframtal til greina og leggja það til grundvallar endurákvörðunar gjalda. Með hliðsjón af framkomnum upplýsingum lækkaði skattstjóri þó áætlaðar viðbótartekjur um 600.000 kr. að meðtöldu álagi.

Umboðsmaður kæranda mótmælti þessari afgreiðslu með kæru til skattstjóra, dags. 7. mars 1991. Tók hann fram að lækkun skattstofna væri töluvert minni en gera hefði mátt ráð fyrir ef byggt hefði verið á innsendu framtali kæranda endurunnu á árinu 1989. Kvað hann dagbók hafa verið færða og röðun og flokkun fylgiskjala hefði verið komið í mjög gott lag fyrir þetta ár sem önnur. Öll fylgiskjöl hefðu fundist og þau verið merkt og númeruð þannig að aðgengilegt væri að leita í bókhaldi kæranda. Eðlilegt væri að rekstrarkostnaður hefði hækkað frá áður innsendu framtali þar sem afstemming bankareiknings hefði farið fram og öll gjöld þar af leiðandi komið fram. Varðandi hækkun fjármagnskostnaðar benti umboðsmaður á að í fyrri ársreikningi hefði ekki komið fram fit-kostnaður og kostnaður vegna yfirdráttar, áfallnir vextir og verðbætur og kostnaður vegna víxils og framlengingar. Hefði kærandi staðið í byggingarframkvæmdum og nýlokið við flutning og verið með töluvert af lánum sem mynduðu þennan háa fjármagnskostnað. Þá skýrði hann nokkuð hvað ylli töpuðum kröfum án þess þó að tilgreina einstaka skuldara. Ýmsan kostnað 134.247 kr. taldi hann kostnað sem ekki væri talinn annars staðar en notaðir hefðu verið fáir bókunarlyklar til að flýta uppgjöri. Væri kærandi reiðubúinn að leggja fram öll bókhaldsgögn ársins.

Með kæruúrskurði, dags. 2. desember 1991, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Þrátt fyrir fram komnar skýringar og upplýsingar í kærubréfi þætti leiðrétt skattframtal ekki vera nægilega trúverðugt til að það yrði lagt til grundvallar réttri álagningu opinberra gjalda þótt fallist væri á að upphaflegu framtali hafi í mörgu verið áfátt. Þá þótti honum athugavert að leiðréttur ársreikningur væri ekki undirritaður. Einnig þættu fram komnar skýringar ekki fullnægjandi varðandi þau atriði sem m.a. hefðu leitt til höfnunar hins endurgerða framtals, auk þess sem ekki hefði verið leitast við að skýra frekar alla þá liði sem athugaverðir hefðu þótt, þ.e. lækkun tekna vegna tvífærslu aksturstekna og mikla gjaldfærslu vegna kaffikostnaðar.

Umboðsmenn kæranda hafa skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. desember 1991. Fram kemur í kærunni að fúslega megi viðurkenna að bókhald kæranda fyrir árin 1985 til 1987 hafi verið í ólestri og hafi það einfaldlega ekki verið fært. Bókhaldið hafi verið endurunnið og öll gögn fundist eftir víðtæka leit. Hafi verið tekið tillit til endurunnins bókhalds fyrir rekstrarárin 1985 og 1986. Sé afgreiðsla skattstjóra vegna rekstrarársins 1987 ekki réttlátt í ljósi þessa.

Með bréfi, dags. 12. júní 1992, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Með bréfi, dags. 11. nóvember 1992, gaf yfirskattanefnd kæranda kost á því að bæta úr þeim ágalla á endurgerðum ársreikningi kæranda að hann væri óundirritaður. Með yfirlýsingu stjórnar kæranda, dags. 7. desember 1992, er því lýst yfir að hún staðfesti breyttan ársreikning kæranda fyrir rekstrarárið 1987 með undirritun sinni.

Það er að athuga við afgreiðslu skattstjóra, dags. 11. febrúar 1991, á skatterindi kæranda, að ekki verður séð hverju það hafi skipt um afgreiðslu þess máls að komið hafi í ljós við bókhaldsrannsókn vegna tveggja fyrri rekstrarára að það hafi þá verið í ólestri. Ítrekað hefur komið fram af kæranda hálfu að hinn endurgerði ársreikningur fyrir rekstrarárið 1987 sé byggður á færðu og fullnægjandi bókhaldi. Hefur ekkert komið fram af hálfu skattstjóra eða ríkisskattstjóra sem gefur tilefni til að vefengja þetta atriði. Undir rekstri málsins hafa umboðsmenn kæranda gefið nokkrar skýringar á lækkun rekstrartekna frá fyrri ársreikningi og hækkun gjaldaliða og fjármagnskostnaðar. Þótt ekki verði talið að þær skýri að öllu leyti hin umdeildu atriði, þykir rétt að fallast á að hið endurgerða skattframtal ársins 1988 verði lagt til grundvallar nýrri álagningu opinberra gjalda á kæranda það gjaldár.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja