Úrskurður yfirskattanefndar
- Útleiga laxveiðiár
- Útflutningsráðsgjald
- Launaskattur
Úrskurður nr. 399/1993
Gjaldár 1991
Lög nr. 14/1965, 2. gr. 3. mgr. 1. tölul. Lög nr. 114/1990, 3. gr. 2. mgr. b-liður
I.
Málavextir eru þeir að með kæru, dags. 15. ágúst 1991, kærði umboðsmaður kæranda álagningu útflutningsráðsgjalds til skattstjóra. Kom fram í kærunni að ekki yrði séð að kærandi hafi stundað atvinnustarfsemi sem gæti myndað stofn til útreiknings á slíku gjaldi. Með kæruúrskurði, dags. 17. september 1991, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að sú starfsemi sem kærandi hefði með höndum, útleiga á laxveiðiá, félli undir fiskveiðar samkvæmt atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands og væri því gjaldskyld starfsemi samkvæmt 3. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með síðari breytingum.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var úrskurður skattstjóra kærður til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. október 1991 og 9. október 1991. Í kærunni er þess krafist að felld verði niður álagning launaskatts kæranda á árinu 1990 en þá hafi starfsemi kæranda verið undanþegin launaskatti, sbr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt. Jafnframt er gerð sú krafa að felld verði niður álagning launaskatts samrekstraraðila kæranda vegna sömu starfsemi svo og að á hann verði lagt útflutningsráðsgjald vegna sama árs en það hafi láðst að gera.
Með bréfi, dags. 6. nóvember 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Eins og sakarefnið er vaxið í máli þessu þykir verða að fjalla um gjaldskyldu kæranda bæði til útflutningsráðsgjalds og launaskatts. Kærandi hefur í félagi við annan aðila útleigu laxveiðiár með höndum og starfsemi í tengslum við þá útleigu. Skattstjóri lagði útflutningsráðsgjald á kæranda vegna þessarar starfsemi á þeim grundvelli að hún teldist til fiskveiða samkvæmt b-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með síðari breytingum. Engin rök standa til álagningar gjalds þessa á kæranda á þessum grundvelli, enda þykir óyggjandi að starfsemi hans telst ekki til fiskveiða í skilningi nefnds lagaákvæðis. Er þá meðal annars litið til forsögu laganna eins og hún kemur fram í lögskýringargögnum, sbr. athugasemdir í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 114/1990. Að því er varðar kröfu kæranda um niðurfellingu launaskatts þá verður ekki talið að starfsemi hans teljist frekar til fiskveiða í skilningi 1. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt þessu er álagt útflutningsráðsgjald gjaldárið 1991 fellt niður og jafnframt er kröfu kæranda um niðurfellingu launaskatts hafnað. Samrekstraraðili kæranda á hvorki aðild að kærumáli þessu né liggur fyrir kæranlegur úrskurður að því er hann varðar og er kærunni því vísað frá að því leyti sem hún varðar hann.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Álagt útflutningsráðsgjald gjaldárið 1991 er fellt niður. Kröfu kæranda um niðurfellingu launaskatts er hafnað. Kærunni er vísað frá að því leyti sem hún tekur til samrekstraraðila kæranda.