Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Styrkur
  • Beinn kostnaður

Úrskurður nr. 422/1993

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 9. tölul., 116. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 1990 gat kærandi þess að hann hefði fengið 800.000 kr. sem fyrirframgreiðslu upp í arf frá foreldrum sínum. Með bréfi, dags. 2. desember 1991, fór skattstjóri fram á að kærandi legði fram ljósrit af greiðslukvittun vegna erfðafjárskatts vegna greiðslu þessarar. Í svarbréfi kæranda, dags. 16. desember 1991, kom fram að það væri misskilningur að um fyrirframgreiðslu arfs hefði verið að ræða. Um hefði verið að ræða styrk vegna námsloka við erlendan háskóla. Með bréfi, dags. 9. janúar 1992, boðaði skattstjóri kæranda tekjufærslu á styrk þessum eða gjöf er teldist til skattskyldra tekna, samkvæmt 4. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í bréfi, dags. 25. janúar 1992, mótmælti umboðsmaður kæranda skattlagningu á námsstyrk frá föður 800.000 kr. Var tekið fram að styrkur þessi hefði gert kæranda kleift að ljúka námi í ágúst 1989 við háskóla í ... og útskrifast þaðan sem grafískur hönnuður. Gerði umboðsmaðurinn grein fyrir námskostnaði samtals 990.000 kr., er væri fólginn í fæðiskostnaði 480.000 kr., húsnæðiskostnaði 300.000 kr., námsgögnum 120.000 kr. og öðrum kostnaði, áætluðum 90.000 kr. Á móti þessum námskostnaði hefði fengist lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna 175.000 kr. og nefndur styrkur frá föður 800.000 kr. Tekið var fram að frá og með september til áramóta árið 1989 hefði kærandi verið á teiknistofu svo til tekjulaus til þess að öðlast starfsreynslu. Munur væri á því hvort peningar eða önnur verðmæti væri afhent nákomnari ættingjum, sem eru í námi, eða aðilum í fullri atvinnu. Hefði kærandi stundað nám hérlendis og haft fæði og húsnæði hjá foreldrum þá hefðu þau hlunnindi ekki verið skattlögð.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 1992, tilkynnti skattstjóri kæranda að honum hefðu verið færðar til tekna 800.000 kr. sem væri skattskyld gjöf frá föður og áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1990 endurákvörðuð í samræmi við þá breytingu. Skattstjóri tók fram að ekki væri fallist á beiðni kæranda um að fallið yrði frá skattlagningu styrksins þar sem ekki yrði séð að heimild væri til þess í skattalögum. Í kæru til skattstjóra, dags. 16. mars 1992, var fyrrgreindri skattlagningu mótmælt. Með kæruúrskurði, dags. 25. mars 1992, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með því að greiðsla sú sem um væri deilt væri skattskyld samkvæmt fortakslausu ákvæði 4. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 22. apríl 1992, og þess krafist að námsstyrkur frá föður verði ekki skattlagður.

Með bréfi, dags. 28. júlí 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans enda er engin lagaheimild til að undanþiggja umrædda greiðslu tekjuskatti.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Skattstjóri hefur byggt skattlagningu greiðslu þeirrar, sem í málinu greinir, á því að um skattskylda gjöf væri að ræða samkvæmt 2. ml. 4. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kæranda hefur því verið haldið fram að greiðslan hefði verið styrkur til hans til að gera honum kleift að ljúka námi því sem í málinu greinir. Þykir mega fallast á þetta með kæranda. Verður að telja greiðsluna skattskylda samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er í því sambandi litið til aldurs kæranda og fjárhæðar hinnar umdeildu greiðslu. Kemur þá til skoðunar hvort kærandi hafi haft beinan kostnað er hann mætti draga frá greiðslunni, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í bréfi, dags. 25. janúar 1992, hefur kærandi gert nokkra grein fyrir námskostnaði sínum og er þar að stærstum hluta um að ræða fæðis- og húsnæðiskostnað er ekki getur komið til álita í þessu sambandi. Aðrir kostnaðarliðir eru námsgögn er voru vegna skyldusýningar á verkum og óskilgreindur kostnaður. Þykir mega taka tillit til námsgagnakostnaðar og lækka hina skattskyldu fjárhæð í 680.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fjárhæð hinnar skattskyldu greiðslu ákveðst 680.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja