Úrskurður yfirskattanefndar
- Fyrning
- Lausafé
- Atvinnurekstrareign
- Bifreiðakostnaður
Úrskurður nr. 426/1993
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981, 32. gr. (brl. nr. 8/1984, 6. gr.), 38. gr. 1. tölul., 74. gr. 3. tölul. 2. mgr.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi, A, er pípulagningarmeistari með sjálfstæðan atvinnurekstur. Kærendur skiluðu ekki skattframtali árið 1991 í framtalsfresti. Við frumálagningu opinberra gjalda það ár sættu þau því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu álagi.
Skattframtal kærenda barst skattstjóra hinn 21. júní 1991 samkvæmt áritun skattstjóra á skattframtalið um móttöku þess. Með kæru, dags. 28. ágúst 1991, var af hálfu umboðsmanns kærenda óskað eftir að hið innsenda skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins án álags.
Með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 1991, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu ársins að gerðum breytingum. Felldi hann niður gjaldfærðar fyrningar tveggja fólksbifreiða, X og Y, alls 77.500 kr., sem hann tiltók í kæruúrskurði að næmu 12.028 kr., færði umræddar tvær bifreiðar til eignar á kostnaðarverði í lið 10.5 á persónuframtali, án þess að eignfærslu þeirra á efnahagsreikningi væri breytt og lækkaði gjaldaliðinn rekstur bifreiða úr 994.283 kr. í 320.000 kr. Voru forsendur hans þær að bifreiðarnar teldust ekki til lausafjár í atvinnurekstri skv. 32. gr. laga nr. 75/1981 og bæri því samkvæmt 2. mgr. 3. tl. 74. gr., sbr. 91. gr. sömu laga og leiðbeininga ríkisskattstjóra að telja til eignar á persónuframtali. Þá hefði kærendum borið að skila útfylltu rekstraryfirliti fólksbifreiða (RSK 4.03). Auk þess bætti skattstjóri álagi á gjaldstofna samkvæmt 1. mgr. 106. gr. fyrrgreindra laga og í samræmi við auglýsingu ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 1991, um álagsbeitingu umfram 95% af tekjum sem staðgreiðslu væri skilað af. Vísaði skattstjóri til síðbúinna skila kærenda gjaldárin 1989 og 1990.
Af hálfu umboðsmanns kærenda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. desember 1991. Er í kærunni gerð grein fyrir rekstrartekjum viðkomandi árs, 19.831.042 kr., en þar af hafi tekjur vegna selds aksturs verið 572.398 kr. Kærandi, A, hafi það ár greitt í vinnulaun sem svari til sex árslauna auk reiknaðs endurgjalds hans sem nam 2.245.000 kr. Vinna kæranda sé að stórum hluta viðgerðarvinna þar sem unnið sé fyrir marga smáa aðila. Af þeim sökum sé hverjum starfsmanni nauðsyn á að hafa bifreið til umráða. Séu umræddar bifreiðar, auk þess að komast á milli viðgerðarstaða sem séu margir á hverjum degi, notaðar til geymslu á verkfærum og efni. Þá kemur fram í kærunni að bifreiðarnar séu eingöngu notaðar við þessa starfsemi og séu staðsettar, milli þess sem þær séu ekki í notkun, við heimili rekstraraðila. Þær séu fullar af verkfærum og efni og þannig útlítandi að enginn setjist upp í þær nema í vinnufötum. Hafi þessar fólksbifreiðar verið keyptar í sparnaðarskyni og aftursæti fjarlægð úr þeim. Kærendur eigi aðra bifreið sem notuð sé til einkaþarfa þeirra. Séu bifreiðar algjör nauðsyn í rekstrinum og í öllum tilvikum sé reynt að reikna gjald fyrir þær, sem síðan sé tekjufært með tekjum. Er þess krafist að breytingar skattstjóra að því er varðar fyrningu bifreiðanna verði felldar niður.
Með bréfi, dags. 6. mars 1992, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Að því virtu sem fram kemur í kæru til ríkisskattanefndar er fallist á kröfu kæranda um fyrningu umræddra bifreiða. Samkvæmt 1. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981 er fyrningarhlutfall fólksbifreiða fyrir færri en níu menn, annarra en leigubifreiða, 8%. Rétt þykir að leiðrétta fyrningu bifreiðar Y hvað það varðar. Skattstjóri hefur ekki leiðrétt fyrningar annarra bifreiða kæranda í kærumeðferð málsins.
Í kæru kemur fram að tekjur kæranda vegna aksturs séu 572.398 kr. Að því virtu og með vísan til þess sem fyrr segir um fyrningu bifreiðanna er fallist á kröfu kæranda varðandi gjaldfærslu rekstrarkostnaðar bifreiðanna.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Gjaldfærðar fyrningar verða 192.430 kr. Eignfærsla bifreiða að upphæð 70.000 kr. og 50.000 kr. í reit 06 á framtali kærenda er felld niður. Hreinar tekjur í reit 62 verða 1.931.571 kr. og hrein eign í reit 01 verður 1.189.483 kr.