Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning sambýlisfólks
  • Sönnun

Úrskurður nr. 438/1993

Gjaldár 1990-1991

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr., 69. gr. B- og C-liðir  

I.

Málavextir eru þeir að skattframtöl kæranda árin 1990 og 1991 voru lögð óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda þau gjaldár. Voru kæranda ákvarðaðar vaxtabætur, svo sem um einstakling væri að ræða, og barnabótaauki, svo sem um einstætt foreldri væri að ræða. Með bréfi, dags. 9. janúar 1992, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun barnabótaauka og vaxtabóta sem kæranda höfðu verið ákvarðaðar við álagningu opinberra gjalda gjaldáranna 1990 og 1991. Kvað skattstjóri sýnt að kærandi hefði í reynd verið í sambúð á árunum 1989 og 1990. Voru forsendur skattstjóra þessar:

„Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands, þjóðskrár, hafið þér eignast tvö börn með B, f. ... 1988 og ... 1991. Þér hafið verið skráð í sambúð frá 1. október 1988 til 10. júní 1989 og frá 14. desember 1991. Þér flytjið lögheimili yðar að Y-götu, Reykjavík, 22. janúar 1990 og barnsfaðir yðar flytur þangað 10. apríl 1990.

Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins hafið þér hvorki fengið meðlag, barnalífeyri né mæðralaun með börnum yðar.

Tekjuárið 1989 hafið þér engar tekjur en kaupið þó íbúð að Y-götu. Á því ári er það fé sem þér hafið yður og einu barni til framfærslu neikvætt um c.a. 1,5 millj. kr. sem fær ekki staðist.“

Kærandi svaraði ekki bréfi þessu. Hinn 26. febrúar 1992 tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði endurákvarðað vaxtabætur og barnabótaauka hennar gjaldárin 1990 og 1991 samkvæmt reglum sem giltu um sérskattað sambýlisfólk.

Með kæru, dags. 5. mars 1992, mótmælti kærandi endurákvörðun skattstjóra. Skráning Hagstofu Íslands væri rétt að öðru leyti en því að núverandi sambúð hefði ekki hafist fyrr en 3. janúar 1992. Kvaðst kærandi hafa leigt barnsföður sínum herbergi í kjallara og hafi leigan verið talin fram á skattframtali. Við slit á fyrri sambúð hefði kærandi snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins til að leita þess réttar sem henni bæri, en hafi þar mætt slíkri framkomu að hún hefði ekki haft kjark til að reyna aftur. Hefði það síðan orðið að samkomulagi að barnsfaðir gæfi barni sínu það sem það þarfnaðist. Kvaðst kærandi hafa fjármagnað íbúðarkaup sín með lántökum, svo sem fram kæmi við samanburð kaupsamnings, skattskýrslu og greinargerðar um vaxtagjöld.

Með kæruúrskurði, dags. 13. apríl 1992, hafnaði skattstjóri kærunni. Kærandi hefði ekki sýnt fram á að hún hefði ekki verið í sambúð með barnsföður sínum á árunum 1989 og 1990 eða að lýsing hennar á viðskiptum við Tryggingastofnun ríkisins ætti við rök að styðjast. Þótti skattstjóra lýsingar kæranda þvert á móti staðfesta að hún hefði haft sameiginlegt fjárfélag með barnsföður.

II.

Kærandi skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. apríl 1992. Krefst hún þess að endurákvörðun skattstjóra verði hnekkt. Er ítrekað að útborgun íbúðar að Y-götu hafi á kaupári 1989 verið fjármögnuð með lántökum, en vegna veikinda barns hafi kærandi ekki getað aflað tekna á því ári. Fimm lán hafi síðan verið tekin á árinu 1990 vegna útborgunar sem féll á það ár. Kveðst kærandi engin lög hafa brotið í samskiptum sínum við Tryggingastofnun ríkisins og verði þau samskipti því ekki lögð til grundvallar í málinu. Þá tekur kærandi fram að barnsfaðir hennar hafi leitað eftir því að fá kjallaraherbergi á leigu og muni honum hafa gengið það til að hafa öruggan stað fyrir persónulega muni og örugga móttöku á pósti. Kveðst kærandi ekki hafa staðið gegn þessu í von um að hann bætti ráð sitt, en ekki sé ástæða til að tíunda sambúðarerfiðleika sem leitt hafi til sambúðarslita í apríl 1989 (skráð frá 10. júní það ár). Með kærunni fylgir staðfesting B, dags. 29. apríl 1992, á þeim atriðum kærunnar sem varða hann. Þar er einnig tekið fram að þau hafi ekki haft sameiginlegt fjárfélag og sjálfur hafi hann fest kaup á íbúðarhúsnæði á Akranesi snemma árs 1991 og fengið það afhent í apríl það ár. Fylgir afsal þessu til staðfestingar.

Með bréfi til ríkisskattanefndar, dags. 29. júní 1992, gerir kærandi enn athugasemdir við endurákvörðun skattstjóra. Þá kveðst kærandi hafa fengið hjá skattstjóra afrit af skattframtali 1992 og hafi þá m.a. komið í ljós að vaxtagjöld í reit 87 hafi verið færð í reit 88. Mótmælir kærandi þessu og fer fram á að ríkisskattanefnd taki þessa breytingu skattstjóra til efnisúrlausnar. Þá hefur yfirskattanefnd hinn 15. september 1992 móttekið frá kæranda vottorð Hagstofu Íslands, þjóðskrár, þess efnis að kærandi og B hafi verið skráð í sambúð frá 3. janúar 1992.

Með bréfi, dags. 29. júlí 1992, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert svofelldar kröfur í máli þessu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, sbr. 6. mgr. B-liðar og 7. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 en þar koma fram þær reglur sem gilda fyrir sérskattað sambýlisfólk vegna barnabótaauka og vaxtabóta.

Vegna viðbótargagna í kæru með bréfi kæranda frá 29. apríl 1992 er gerð sú krafa að 4. tölulið verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem sá töluliður er rökstuddur með skattframtali sem ekki hefur sætt efnisúrlausn hjá skattstjóra sbr. 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Að virtum eindregnum staðhæfingum kæranda, sem styðjast við framtalsgögn hennar, verður ekki talið að nægilega sé í ljós leitt í málinu af hálfu skattstjóra eða ríkisskattstjóra að kærandi hafi eftir 10. júní 1989 og til ársloka 1990 uppfyllt skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því fallist á kröfu kæranda um að barnabótaauki og vaxtabætur standi óbreyttar frá því sem ákvarðað var við álagningu gjaldárin 1990 og 1991.

Vegna kæruefnis sem fram kemur í bréfi kæranda, dags. 29. júní 1992, skal tekið fram að ekki liggur fyrir um það atriði úrskurður skattstjóra sem kæranlegur er til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992. Þykir rétt að senda skattstjóra kæruna til meðferðar að því er þetta atriði varðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda að því er varðar gjaldárin 1990 og 1991. Kæruatriði vegna gjaldársins 1992 er vísað til skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja