Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Heiðurslaun

Úrskurður nr. 443/1993

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 4. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að í lið 7.3 á skattframtali kæranda 1992 var færð greiðsla frá X-kaupstað að fjárhæð 100.000 kr. Með kæru, dags. 24. ágúst 1992, kærði kærandi álagningu opinberra gjalda það ár að því er varðaði skattlagningu umræddrar greiðslu. Kærandi hafi hinn 25. apríl 1991 verið boðaður á fund hjá menningarmálanefnd X-kaupstaðar og afhent peningaupphæð, 100.000 kr., sem viðurkenning úr menningarsjóði X-kaupstaðar vegna starfa að tónlistarmálum auk viðurkenningarskjals. Vegna þessarar viðurkenningar hafi kæranda borist launamiði, þar sem þessi upphæð var nefnd styrkur og síðan álagningar- og innheimtuseðill þar sem greiðslan var skattlögð. Krafðist kærandi þess að fyrrgreind álagning yrði felld niður. Með kæruúrskurði, dags. 21. október 1992, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að hér væri um að ræða skattskyldar tekjur, sbr. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 2. nóvember 1992, og krafist niðurfellingar umræddrar álagningar.

Með bréfi, dags. 23. desember 1992, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Fallast ber á það með skattstjóra að um er að ræða skattskyldar tekjur. Í launauppgjöf greiðanda er greiðslan nefnd styrkur, en eftir því sem fram er komið af kæranda hálfu virðist helst vera um að ræða verðlaun eða heiðurslaun sem þá fellur undir 4. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Engin lagaheimild er til að undanþiggja greiðslu þessa skattskyldu, en ekki verður talið að um sé að ræða tækifærisgjöf í skilningi nefnds lagaákvæðis. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja