Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrarkostnaður
- Fyrningarhlutfall
- Málsmeðferð
- Kæranleg skattákvörðun
Úrskurður nr. 460/1993
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 38. gr., 100. gr. 1. mgr. Lög nr. 30/1992, 3. gr. 1. mgr.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan framtalsfrests 1990 og sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Skattframtal kæranda barst ríkisskattstjóra 4. október 1990 með beiðni um að það yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990. Framtalinu fylgdi landbúnaðarskýrsla vegna garðræktar. Með bréfi, dags. 10. október 1990, framsendi ríkisskattstjóri skattstjóra erindið til afgreiðslu.
Með bréfi, dags. 30. nóvember 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda að fallist yrði á að leggja skattframtalið til grundvallar nýrri álagningu, en að gerðum breytingum. Meðal annars lækkaði hann gjaldfærðan bifreiðakostnað 134.983 kr. á landbúnaðarskýrslu vegna 6.100 km akstur um 100.000 kr. og gjaldfærða rafmagnsnotkun 81.005 kr. um 60.000 kr. Þá hækkaði hann fengnar og framreiknaðar fyrningar gróðurhúss (byggingarár 1978) í dálki 6 á fyrningarskýrslu ársins 1989 úr 1.317.618 kr. í 2.147.234 kr. og fyrningar gróðurhúss (byggingarár 1980) úr 714.356 kr. í 952.470 kr. Við þessar breytingar lækkaði fyrning gróðurhúss frá 1978 í 48.797 kr. og bókfært verð þess varð 244.003 kr. Bókfært verð gróðurhúss frá 1980 varð 264.581 kr.
Umboðsmaður kæranda mótmælti gerðum breytingum með kæru til skattstjóra, dags. 17. desember 1990. Varðandi akstursþörf vegna bús kæranda tók hann fram að framtalinn akstur vegna búsins hefði verið 4.050 km árið 1988 og 4.700 km árið 1987. Ekki yrði séð að sú akstursþörf hefði verið vefengd. Sölufélag ísl. garðyrkjumanna hafi verið umboðs- og söluaðili búsins, en rekstur þess hefði gengið mjög illa á árinu 1989 og hefði það haft í för með sér verulega aukinn akstur fyrir búið og þætti hann eftir atvikum hóflega áætlaður 1.500 til 2.000 km umfram akstur næstu ára á undan. Þá tók umboðsmaðurinn fram að samkvæmt afritum raforkureikninga, er fylgdu kærunni, hefði heildarnotkun kæranda á raforku árið 1989 verið 25.518 kwh og raforkukostnaður 103.759 kr. Skráð heildarnotkun á framtali væri því of lág þar eð reikninga hefði vantað til staðfestingar. Ársnotkun meðalheimilis væri talin milli 4.500 og 5.000 kwh á ári eða innan við 20% af heildarnotkun kæranda. Krafðist hann þess að framtalinn orkukostnaður yrði óbreyttur. Að lokum tók umboðsmaðurinn fram að sótt yrði til ríkisskattstjóra á grundvelli 50. gr. laga nr. 75/1981 um að fyrningarskýrsla 1989 yrði samþykkt óbreytt hvað varðaði gróðurhúsin og að gróðurhús byggt 1987 fengist tekið inn á fyrningarskýrslu á grundvelli húsbyggingarskýrslu. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 27. desember 1990, var skattstjóra sent afrit af boðuðu erindi til ríkisskattstjóra, dags. 21. desember 1990. Var þar m.a. tekið fram að fyrning gróðurhúsa hefði alla tíð verið reiknuð 6% og það látið átölulaust af skattstjóra þar til hann hefði á fyrningarskýrslu fyrir árið 1989 leiðrétt fyrningu fyrri ára. Félli verulegur frádráttur ónýttur af þessum sökum. Ríkisskattstjóri synjaði erindinu með bréfi, dags. 30. júlí 1991.
Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 6. desember 1991, kom fram að hann taldi hvorki hafa verið gerða fullnægjandi grein fyrir akstursþörf né rafmagnsnotkun vegna búreksturs. Með hliðsjón af framkomnum skýringum þótti honum þó mega fallast á að hækka gjaldfærðan bifreiðakostnað á landbúnaðarskýrslu í 88.520 kr. eða sem svaraði 4.000 km akstri. Af fyrra árs framtali virtist honum mega ráða að hitaveita væri notuð til upphitunar í gróðurhúsum og í kærubréfi væru engar upplýsingar um rafmagnsnotkun þar. Féllst hann því ekki á hækkun gjaldfærðs rafmagns á landbúnaðarskýrslu. Þá tók skattstjóri fram að með úrskurði ríkisskattstjóra hinn 30. júlí 1991 hefði beiðni kæranda um breytingu á fyrningargrunni gróðurhúsa á eldri fyrningarskýrslum verið synjað. Ekki yrði því um að ræða breytingu á fyrningarskýrslu með skattframtali 1990.
II.
Af hálfu kæranda hefur framangreindum breytingum skattstjóra á landbúnaðarskýrslu með skattframtali 1990 verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. desember 1991. Að því er varðar rafmagns- og aksturskostnað er vísað til þess sem fram hafi komið í kæru til skattstjóra, dags. 17. desember 1990, en til viðbótar tekið fram að við plöntuuppeldi séu notaðir orkufrekir lampar a.m.k. tvo mánuði á ári. Auk þess séu rafmagnsdælur notaðar til dælingar á heitu vatni í hitalögn til vökvunar og jarðvegssuðu. Einnig sé rafsuða töluvert notuð vegna viðhalds og endurbóta. Vegna breytingar á fyrningarskýrslu er m.a. tekið fram að í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 21. desember 1990, hafi umboðsmaður kæranda vakið athygli á því að skattstjóri hefði látið hjá líða að leiðrétta fyrningarhlutfall þar til mál þetta hafi komið upp. Vekur kærandi í því sambandi athygli á því að skv. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 skuli skattstjóri leiðrétta augljósar reikningsskekkjur o.s.frv. Krefst hann þess að fyrningargrunnur 31. desember 1988 og fyrningar ársins 1989 verði látnar standa óbreyttar frá fyrningarskýrslu og fyrningar framvegis reiknaðar á grundvelli þess. Jafnframt ítrekar hann umsókn sem kom í nefndu erindi til ríkisskattstjóra í desember 1990 um að mega færa á fyrningarskýrslu áætlaðan byggingarkostnað gróðurhúss sem byggt hafi verið árið 1987 og tekið í notkun á árinu 1988.
Með bréfi, dags. 29. júní 1992, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
III.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Ekki verður talið að kærandi hafi sýnt fram á að honum beri meiri frádráttur aksturskostnaðar en skattstjóri hefur samþykkt. Er því kröfum um hækkun þess frádráttar hafnað. Með hliðsjón af því sem fram kemur í kæru til ríkisskattanefndar um raforkunotkun kæranda þykir mega fallast á kröfur hans um að gjaldfærður raforkukostnaður standi óbreyttur frá framtali 81.005 kr.
Í afgreiðslu sinni á skatterindi kæranda breytti skattstjóri fengnum fyrningum frá fyrri árum vegna gróðurhúsa. Breyting þessi var í raun breyting á eldri skattframtölum kæranda og leiddi hún til þess að hjá kæranda féllu til rekstrargjöld sem kæranda hafa ekki nýst á viðkomandi gjaldárum. Verður að telja að við umræddar breytingar á framtölum kæranda hefði skattstjóri orðið að taka viðkomandi gjaldár til endurákvörðunar, sbr. ákvæði 96. gr. laga nr. 75/1981. Ber því að fella breytingar skattstjóra á fyrningum fyrri ára úr gildi. Að svo vöxnu verður byggt á fyrningu gróðurhúss (byggingarár 1978) samkvæmt innsendri fyrningarskýrslu. Almennar fyrningar gróðurhúsa 1989 verða því 336.052 kr.
Krafa kæranda um eignfærslu áætlaðs byggingarkostnaðar gróðurhúsa 1987 kom fyrst fram í erindi til ríkisskattstjóra sem synjaði erindinu. Liggur þannig engin kæranleg ákvörðun fyrir af hálfu ríkisskattstjóra sem kæranleg var til ríkisskattanefndar skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992. Ber því að vísa kröfum kæranda varðandi fyrningar og eignfærslu áætlaðs byggingarkostnaðar frá yfirskattanefnd.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda um rekstrarkostnað bifreiðar er hafnað. Fallist er á kröfu hans um gjaldfærslu raforkukostnaðar. Breyting skattstjóra á fyrningu gróðurhúsa er ómerkt. Kröfu um eignfærslu áætlaðs byggingarkostnaðar er vísað frá yfirskattanefnd.