Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Innskattur, sönnun
Úrskurður nr. 579/1993
Virðisaukaskattur 1990
Lög nr. 50/1988, 16. gr. 1. mgr., 20. gr. 1. og 7. mgr. Reglugerð nr. 501/1989, 8. gr. 2. mgr. (brrg. nr. 156/1990) Reglugerð nr. 531/1989, 1. gr. a-liður
I.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 23. september 1992, hefur kærandi mótmælt lækkun skattstjóra á innskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum kæranda öll uppgjörstímabil ársins 1990.
Málavextir eru þeir að í framhaldi af athugun skattstjóra á bókhaldsgögnum kæranda, sem er hlutafélag, boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 6. apríl 1992, lækkun innskatts á framangreindum uppgjörstímabilum um alls 163.660 kr. á þeim forsendum að um væri að ræða kostnað sem ekki bæri virðisaukaskatt eða ekki væri heimilt að telja virðisaukaskatt af aðföngunum til innskatts eða bókhaldsskjöl væru ekki fullnægjandi, sbr. nánar lista er fylgdi bréfi skattstjóra um fylgiskjöl, sem ekki væri fallist á að leggja til grundvallar innskatti, ásamt athugasemdum við hvert einstakt þeirra. Vísaði skattstjóri til 16. og 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 8. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með síðari breytingum. Hinn 6. maí 1992 tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið boðuðum breytingum í framkvæmd, en engin svör eða athugasemdir hefðu borist við boðunarbréfi.
Með kæru, dags. 27. ágúst 1992, féllst umboðsmaður kæranda á að innskattur hefði verið oftalinn um 10.834 kr., en mótmælti breytingum skattstjóra að öðru leyti. Með kæruúrskurði, dags. 21. september 1992, féllst skattstjóri á fram komnar athugasemdir og skýringar að því er varðaði innskatt að fjárhæð 106.769 kr., en hafnaði kröfum kæranda að öðru leyti.
II.
Nánar tiltekið eru kæruatriði í máli þessu sem hér segir:
1. Skattstjóri hafnaði innskatti vegna fylgiskjala nr. 197, 208, 286, 299, 343, 355, 357, 399, 405, 437, 459, 485, 494 og 562 (að hluta), sem eru staðgreiðslukvittanir frá ýmsum smásöluaðilum, m.a. olíufélögum, á þeirri forsendu að um væri að ræða staðgreiðslukvittanir án viðhefts sjóðvélastrimils og væri það andstætt 8. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með síðari breytingum. Af hálfu kæranda er komið fram í málinu að virðisaukaskattur hafi nýlega verið tekinn upp og nokkur óvissa og vanþekking verið ríkjandi við framkvæmd hans. Starfsmenn kæranda hafi m.a. séð um innkaup á ýmsum rekstrarvörum og þjónustu og hafi þeir m.a. ekki áttað sig á því að óska eftir umræddum strimlum úr hendi seljenda, enda þeim ókunnugt breytingu á reglugerð þar að lútandi. Jafnframt verði að líta svo á að hin nýja reglugerð nr. 156/1990 leggi skyldur á hendur seljanda vörunnar eða þjónustunnar frekar en á hendur kaupanda. Hæpið sé að vanræksla á að þeirri reglu sé fylgt til hins ítrasta eigi að bitna á kæranda með þeim hætti að honum verði synjað um nefndan innskatt þótt fullnægjandi sönnun um viðskiptin liggi fyrir svo sem fullyrt sé af kæranda.
2. Skattstjóri hafnaði innskatti vegna fskj. nr. 176 á þeirri forsendu að ekki kæmi fram hver væri seljandi (nafn, heimili, kennitölu og virðisaukaskattsnúmer vanti) og uppfylli það því ekki skilyrði 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 4. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Af hálfu kæranda er tekið fram að um sé að ræða reikning frá Z hf., vegna aksturs með beitusíld til Sandgerðis.
3. Skattstjóri hafnaði innskatti vegna fskj. nr. 269, sem er staðgreiðslukvittun frá B, á þeirri forsendu að ekki kæmi fram nafn og kennitala kaupanda, sem væri andstætt 20. gr. laga nr. 50/1988. Af hálfu kæranda kemur fram að starfsmaður kæranda hafi lagt út fé fyrir tveimur rafgeymum og hafi honum verið endurgreiddur sá kostnaður.
4. Skattstjóri hafnaði innskatti vegna fskj. nr. 69, 291, 298, 509, 529, 530, 531 og 540 á þeirri forsendu að fylgiskjölin finndust ekki í bókhaldi kæranda en það væri grundvallarforsenda fyrir færslu innskatts að áreiðanleg og fullnægjandi fylgiskjöl væru til staðar, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Þá hafnaði skattstjóri innskatti vegna fskj. nr. 566, sem sé að sögn kæranda til komið sem leiðrétting á fskj. nr. 527, 528 og 530, sem hafi verið færð á rangan bókhaldslykil. Síðastnefnd skjöl finnist hins vegar ekki í bókhaldi. Af hálfu kæranda er greint frá því að gögn þessi hafi af einhverjum ástæðum mislagst, en um sé að ræða raunverulegan rekstrarkostnað kæranda.
5. Skattstjóri hafnaði innskatti vegna fskj. nr. 562 (að hluta) á þeirri forsendu að það væri ekki stílað á kæranda og gæti því ekki talist fullnægjandi til grundvallar innskatti hans, sbr. 20. gr. laga nr. 50/1988. Af hálfu kæranda er komið fram í málinu að starfsmaður kæranda hafi lagt út fyrir kostnaði og fengið hann síðan endurgreiddan frá kæranda.
Í kæru til yfirskattanefndar er vísað til þess sem fram hafi komið af kæranda hálfu fyrir skattstjóra. Síðan segir:
„Þrátt fyrir einhverja hnökra á formlegum frágangi þessara fylgiskjala, er þess vænst að nægilega hafi verið sýnt fram á tilvist þeirra útgjalda umbj. míns. Sérstaklega er mótmælt, að lög standi til þess, að sé ekki gætt ýtrustu formlegra krafna um frágang og meðferð kvittana eða reikninga vegna útgjalda umbj. míns, eigi það eitt sér að leiða til niðurstöðu skattstjóra. Brot á þeim lagaákvæðum, sem mæla fyrir um bókhald, varða sektum en eiga ekki að leiða til þeirra viðbragða, sem skattstjóri hefur beitt í máli þessu.“
III.
Með bréfi, dags. 31. desember 1992, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjanda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
IV.
Um 1. lið: Ekki er um það deilt að útgefendur þeirra sölureikninga sem hér um ræðir hafi með höndum smásölu í skilningi 1. mgr. 21. gr. laga nr. 50/1988, og falli jafnframt undir ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. tilvitnaðrar reglugerðar, svo sem henni var breytt með reglugerð nr. 156/1990, skal smásali við sölu til annars virðisaukaskattsskylds aðila gefa út sölureikning og hefta kassakvittun, sbr. a-lið 1. gr. reglugerðar nr. 531/1989, um sjóðvélar, við eintak kaupanda. Þessa reglu er ekki að finna í lögum nr. 50/1988, en um lagastoð er í reglugerðum, sem hér hafa verið nefndar, vísað til 23. gr. laganna þar sem m.a. er heimilað að setja fyrirmæli í reglugerð um notkun sjóðvéla og annarra gagna til sönnunar færslum í bókhaldi virðisaukaskattsskyldra aðila. Beinist reglan að því að tryggja sönnun fyrir því að viðskipti samkvæmt sölureikningi frá smásala hafi verið skráð í sjóðvél hans. Að þessu athuguðu verður talið að vöntun kassakvittunar með sölureikningi frá smásöluverslun, er lagður hefur verið fram til stuðnings innskatti, leiði til þess að bókhaldsskjalið verður ekki talið fullnægjandi til sönnunar á innskatti, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, enda sé ekki sýnt fram á það með jafngildum hætti að seljandi hafi skráð viðskiptin. Er kröfu kæranda því hafnað um þetta kæruatriði.
Um 2. lið: Á umræddum reikningi koma engar upplýsingar fram um seljanda og er hann að því leyti ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 20. gr. laganna. Að virtu orðalagi 7. mgr. 20. gr. laganna verður að fallast á það með skattstjóra og ríkisskattstjóra að reikningur þessi verði ekki talinn fullnægjandi til sönnunar á innskatti kæranda, sbr. og þau ákvæði reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með síðari breytingum, sem skattstjóri hefur byggt niðurstöðu sína á. Er kröfu kæranda því hafnað um þetta kæruatriði.
Um 3. lið: Umræddur reikningur er að fjárhæð 38.970 kr. Á honum kemur ekki fram nafn og kennitala kaupanda og eru hann því ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 20. gr. laganna. Með vísan til þess sem fram kom í 2. lið hér að framan, er kröfunni hafnað um þetta kæruatriði.
Um 4. lið: Úrskurður skattstjóra er staðfestur um þetta kæruatriði með vísan til forsendna hans.
Um 5. lið: Kærandi er hlutafélag. Verður ekki talið að reikningur á nafn starfsmanns kæranda geti talist fullnægjandi til sönnunar á innskatti kæranda, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988. Er í þessu sambandi litið til þess að samkvæmt skilgreiningum í 3. og 4. mgr. 15. gr. laganna er hugtakið innskattur bundið við virðisaukaskatt sem fellur á kaup skattaðila sjálfs á vörum og skattskyldri þjónustu til nota í rekstri hans. Er kröfu kæranda því hafnað um þennan lið kærunnar.
Skattstjóri hófst handa með mál þetta hinn 26. mars 1992. Hafði hann þá í höndum skattframtal kæranda árið 1991 ásamt ársreikningi fyrir árið 1990. Ekki verður séð af málsgögnum að skattstjóri hafi hækkað rekstrarkostnað kæranda samkvæmt ársreikningnum um virðisaukaskatt sem skattstjóri taldi ekki geta talist til innskatts, en ekki hefur skattstjóri vefengt að um frádráttarbæran rekstrarkostnað sé að ræða, sbr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Álagður virðisaukaskattur standi óbreyttur.