Úrskurður yfirskattanefndar

  • Arður af hlutabréfum
  • Tekjutímabil

Úrskurður nr. 605/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. B-liður 2. tölul. (brl. nr. 8/1984, 4. gr. A-liður)  

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 22. júní 1991, fór umboðsmaður kærenda fram á að skattframtal kærenda árið 1991 yrði leiðrétt á þann veg að í reit 09 í framtalinu yrði færður fenginn arður 269.096 kr. af hlutabréfum í X hf. Jafnframt yrði fjárhæð þessi færð í töluliði 8.1 og 8.2 (reiti 00 og 82) í skattframtalinu. Í tölulið 10.4 í framtalinu var hlutafjáreign kærenda í nefndu hlutafélagi talin 1.170.000 kr. í árslok 1990. Samkvæmt gögnum málsins varð skattstjóri við þessari beiðni og færði arð 269.096 kr. í reit 09 og jafnframt í reit 00 í tölulið 8.1 í framtalinu. Til frádráttar í reit 82 í tölulið 8.2 færði skattstjóri hins vegar 175.650 kr., þ.e. á þeim forsendum bersýnilega að við ætti lögmælt hámark 15% af nafnverði hlutafjárins, sbr. 2. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Af hálfu umboðsmanns kærenda var álagning opinberra gjalda gjaldárið 1991 kærð til skattstjóra með kæru, dags. 22. ágúst 1991, og varð af kærunni ráðið að umrædd arðsfjárhæð ætti að koma að fullu til frádráttar í reit 82. Með kæruúrskurði, dags. 1. október 1991, vísaði skattstjóri kærunni frá sem tilefnislausri með vísan til þess að beiðni um leiðréttingu arðs til tekna og frádráttar hefði verið framkvæmd í samræmi við lög og fyrirliggjandi upplýsingar.

II.

Með kæru, dags. 24. október 1991, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Umboðsmaðurinn greinir frá því að í X hf. hafi verið gefin út jöfnunarhlutabréf á árinu 1990 og miðað við þá útgáfu hafi hlutafjáreign kærenda í þessu hlutafélagi verið 1.749.129 kr. í árslok 1990. Greiddur hafi verið út 15% arður eða 262.369 kr., er fallið hefði í hlut kærenda. Leiðrétta þyrfti hlutabréfaeign í X hf. í 10.4 í skattframtali árið 1991 úr 1.170.000 kr. í 1.749.129 kr. eða um 579.129 kr., sem væri fjárhæð jöfnunarhlutabréfa, er færa bæri í reit 10 í tölulið 10.4. Samtala í reit 08 yrði því 1.827.129 kr. Kærunni fylgdu ljósrit hlutafjármiða þessum upplýsingum til staðfestingar. Umboðsmaðurinn tekur fram að arður hafi ranglega verið sagður 269.096 kr. en átt að vera 262.369 kr. og krefst þess að arðsfjárhæð þessi er sé 15% af hlutafjáreign komi að fullu til frádráttar í skattframtali árið 1991.

III.

Með bréfi, dags. 6. mars 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að því er varðar frádrátt arðsgreiðslu er niðurstaða skattstjóra staðfest.

Fallist er á kröfu kæranda um að greiddur arður sé 262.369 í stað 269.096. Tekjuskattsstofn [kæranda A] verður því 1.950.283 í stað 1.957.010.

Fallist er á kröfu kæranda um að hækka hlutafjáreign í X h.f. úr kr. 1.170.000 í kr. 1.749.129. Þá láðist að færa í reit 10 í skattframtali útgáfu jöfnunarhlutabréfa kr. 579.129. Eignir hjónanna í reit 16 í skattframtali breytast því úr kr. 10.106.493 í 10.685.622.“

IV.

Krafa kærenda í máli þessu varðar færslu arðs 262.369 kr. til tekna og sömu fjárhæðar til frádráttar svo og færslu jöfnunarhlutabréfa 579.129 kr. og breytingu á fjárhæð hlutafjáreignar til hækkunar um þá fjárhæð. Ekki er neinn ágreiningur um það að umrædd útgáfa jöfnunarhlutabréfa í X hf. hafi farið fram á lögformlegan hátt og hefur ríkisskattstjóri í kröfugerð sinni í málinu fallist á leiðréttingu á hlutafjáreign kærenda um umkrafða fjárhæð vegna útgáfu jöfnunarhlutabréfa og að þessi útgáfa teljist skattfrjáls. Að þessu virtu og skattframtali X hf. árið 1991 sem liggur fyrir í málinu er krafa kærenda tekin til greina um þetta kæruatriði. Að því er varðar tekjufærslu arðs og frádrátt hans samkvæmt 2. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er til þess að líta að samkvæmt skattframtali X hf. árið 1991, sem liggur fyrir í málinu, var um að ræða arð vegna rekstrarársins 1990, er hlutafélagið dró frá tekjum þess árs, er og arðurinn var reiknaður af. Var arðsfjárhæðin færð til skuldar hjá hlutafélaginu í árslok 1990. Verður ekki talið að arður þessi eigi að koma til tekna og frádráttar hjá kærendum í skattframtali árið 1991. Eins og málið liggur fyrir þykir rétt að fella niður bæði tekjufærslu arðsins og frádrátt á móti honum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda varðandi leiðréttingu á hlutafjáreign vegna útgáfu jöfnunarhlutabréfa. Tekjufærður arður í reitum 09 og 00 og frádráttur arðs í reit 82 í skattframtali árið 1991 fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja