Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning sambýlisfólks
  • Vaxtabætur

Úrskurður nr. 620/1993

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr., 69. gr. C-liður 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að skattframtal kæranda árið 1992 var lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda það gjaldár. Við álagninguna voru honum ekki ákvarðaðar vaxtabætur. Með kæru til skattstjóra, dags. 17. ágúst 1992, fór kærandi fram á að í reit 87 á skattframtali hans 1992 yrðu færð vaxtagjöld að fjárhæð 247.465 kr. í stað 123.732 kr. og að sér yrðu ákvarðaðar vaxtabætur á sama hátt og öðrum sem rétt ættu til slíkra bóta.

Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda með kæruúrskurði, dags. 23. október 1992. Voru forsendur hans svohljóðandi:

„Samkvæmt upplýsingum í framtalsgögnum kæranda 1991 á hann 35% af íbúð að X-götu, en skuldar helming af áhvílandi skuldum og greiðir því helming af vaxtagjöldum vegna íbúðarinnar.

Á skattframtölum kæranda hefur hann fært til frádráttar helming vaxtagjalda og virðist það eðlilegt. Hækkun vaxtagjalda sem kærandi fer fram á varðandi skattframtal 1992 er einungis í því fólgin að tvöfalda vaxtagjöldin sem ekki er réttmætt samkvæmt framanrituðu. Er því ekki fallist á beiðni kæranda ...“

Með kæru, dags. 29. október 1992, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Upplýsir hann að hann sé í skráðri sambúð og telur rétt sinn til vaxtabóta því hinn sama og hjá hjónum og eignarhlutföll á íbúð og skuldum séu þeirri ósk óviðkomandi. Þykir honum miður að ekki skuli hægt að samþykkja tvöföldun vaxtagjalda í reit 87 vegna þessa máls og fer fram á að yfirskattanefnd endurskoði afstöðu skattstjóra.

Með bréfi, dags. 23. desember 1992, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Kærandi upplýsir í kæru að hann sé í óvígðri sambúð. Samkvæmt skráningu þjóðskrár hefur sú sambúð varað frá því á árinu 1987. Er því ótvírætt að kærandi og sambýliskona hans eiga rétt til skattlagningar sem hjón væru vegna tekna sinna á árinu 1991 og eigna í lok þess árs. Þar af leiðir að ákvarða ber kæranda helming þeirra vaxtabóta sem samanlögð vaxtagjöld, tekjuskattsstofn og eignir umfram skuldir hjá kæranda og sambýliskonu hans gefa tilefni til, sbr. 2. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Samanlögð vaxtagjöld nema 247.465 kr. og samanlagður tekjuskattsstofn 3.211.727 kr. Útreiknaðar vaxtabætur nema því 54.761 kr. og er hlutur kæranda þar af 27.381 kr. Ekki kemur til skerðingar bótanna vegna eignastöðu. Tekið skal fram að sambýliskona kæranda nýtur húsnæðisbóta.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Vaxtabætur kæranda 1992 verða 27.381 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja