Úrskurður yfirskattanefndar
- Álag á virðisaukaskatt
Úrskurður nr. 649/1993
Virðisaukaskattur 1991
Lög nr. 50/1988, 27. gr. 2. og 6. mgr.
I.
Málavextir eru þeir að hinn 30. apríl 1992 lagði kærandi fram leiðrétta virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins júlí-desember 1991. Samkvæmt skýrslunni hafði kærandi vanreiknað útskatt um 48.461 kr. og ofreiknað innskatt um 135.061 kr. eða samtals vanreiknað greiðslu um 183.522 kr.
Skattstjóri staðfesti móttöku skýrslunnar með bréfi, dags. 14. maí 1992, og tilkynnti kæranda jafnframt að hann hefði breytt virðisaukaskatti kæranda umrætt tímabil í samræmi við það. Þá tilkynnti skattstjóri kæranda jafnframt að álag hefði verið ákveðið 36.704 kr. skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og að dráttarvextir yrðu reiknaðir hjá innheimtumanni í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands.
Með kæru, dags. 5. maí 1992, fór kærandi fram á að áðurgreint álag yrði fellt niður. Misræmi milli landbúnaðarskýrslu og virðisaukaskattsskila hefði komið í ljós þegar kærandi var að ganga frá landbúnaðarskýrslunni hinn 14. apríl 1992 og stafaði aðallega af röngum reikningi frá Mjólkursamlagi Ísfirðinga sem hljóðaði upp á 1.036.465 kr. en hefði átt að vera upp á nokkur þúsund. Gerði kærandi grein fyrir þeim ástæðum er ollu því að ekki hafi tekist að ganga frá leiðréttri skýrslu fyrr en 30. apríl 1992, sem stafaði m.a. af ófærð á því tímabili.
Skattstjóri synjaði kröfu kæranda með kæruúrskurði, dags. 15. maí 1992. Taldi skattstjóri kæranda ekki geta borið við greiðsludrætti vegna ófærðar þar sem aðalskekkjan hafi komið í ljós hinn 14. apríl 1992, en gjalddagi hafi verið 2. mars 1992. Gera yrði þá kröfu til virðisaukaskattsskyldra aðila að þeir könnuðu vel skjöl sem lægju til grundvallar færslu á innskatti í bókhaldi sínu, m.a. að reikningar væru tölulega réttir. Mistök kæranda teldust því ekki gild ástæða til niðurfellingar álags.
Kærandi skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. júní 1992. Gerir hann þá kröfu að umrætt álag verði fellt niður. Vísar hann til fyrri skýringa en greinir auk þess frá því að aðili á Ísafirði hafi séð um færslu bókhalds fyrir kæranda. Sá aðili vissi ekki að reikningur Mjólkursamlags Ísfirðinga væri rangur og því hafi virðisaukaskattsskýrslan orðið röng í upphafi. Kærandi hafi strax greitt mismuninn er honum varð skekkjan ljós.
Með bréfi, dags. 23. desember 1992, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjanda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Að virtum skýringum kæranda er fallist á kröfu hans um niðurfellingu álags 36.704 kr., sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfu kæranda. Álag að fjárhæð 36.704 kr. á virðisaukaskatt tímabilið júlí-desember 1991 falli niður.