Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Eignayfirfærsla við eigendaskipti á fyrirtæki

Úrskurður nr. 657/1993

Virðisaukaskattur 1991

Lög nr. 50/1988, 11. gr. 3. mgr., 12. gr. 4. mgr., 15. gr. 3. mgr., 16. gr. 1. mgr.  

I.

Kærð er ákvörðun skattstjóra um að synja kæranda um innskatt, 245.000 kr., á uppgjörstímabilinu nóvember-desember 1991 vegna kaupa hans á vörum af X hf.

Málavextir eru þeir að hinn 9. desember 1991 sendi kærandi skattstjóra tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi (RSK 10.22), sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var tekið fram í tilkynningunni að starfsemi, sem fælist í rekstri verslunar, hefði hafist 1. desember 1991 og frá þeim tíma hefði starfsemi „Versl. X“ verið yfirtekin. Var gerð grein fyrir því að yfirteknar hefðu verið vörubirgðir að verðmæti 1.000.000 kr. svo og fasteign. Í málinu liggur einnig fyrir sams konar tilkynning, dags. 2. september 1992, samhljóða hinni fyrri að öðru leyti en því að fram er tekið að ekki sé um að ræða yfirtöku á annarri starfsemi.

Á virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 1991 var tilgreindur útskattur 345.520 kr. og innskattur 721.057 kr. Áður en skattstjóri samþykkti inneignina til greiðslu tók hann bókhaldsgögn kæranda til athugunar. Með bréfi, dags. 23. mars 1992, boðaði skattstjóri kæranda þá breytingu á skýrslunni að innskattur yrði lækkaður um 265.599 kr., þar af 245.000 kr. vegna virðisaukaskatts sem fram kæmi á reikningi frá X hf. Væri um að ræða kaup kæranda á lager þess fyrirtækis. Seljandi hefði verið með rekstur á sama stað og kærandi. Taldi skattstjóri óheimilt að telja virðisaukaskatt af viðskiptunum til innskatts, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Ekki var bréfi þessu svarað af hálfu kæranda innan svarfrests og hinn 8. apríl 1992 tilkynnti skattstjóri kæranda um breytingar á virðisaukaskattsskýrslu sem fólust í lækkun innskatts úr 721.057 kr. í 455.458 kr.

Með bréfi, dags. 10. apríl 1992, mótmælti kærandi boðuðum breytingum samkvæmt bréfi skattstjóra, dags. 23. mars 1992. Kvað kærandi einungis hafa verið um að ræða kaup á vöru af óskyldum aðila en ekki eignayfirfærslu fyrirtækis í heild eða að hluta. Leigusamningur um verslunarhúsnæðið hafi verið gerður við eiganda þess, þ.e. Y hf., þ.e. allt annan aðila.

Skattstjóri tók bréfið sem kæru, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 og kvað upp kæruúrskurð hinn 14. maí 1992. Staðfesti hann fyrri ákvörðun sína með vísan til þess að X hf. virtist hætt rekstri, enda ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum fyrir tímabilin nóvember-desember 1991 og janúar-febrúar 1992. Einnig lægi fyrir að kærandi ræki verslun sína á sama stað og það fyrirtæki. Samkvæmt fyrirliggjandi sölureikningi frá X hf., sem kærandi hefði byggt innskattsfrádrátt sinn á, væri ljóst að um væri að ræða kaup vörulagers. Þá vísaði skattstjóri til þess að á tilkynningu kæranda um virðisaukaskattsskylda starfsemi kæmi fram að félagið hefði yfirtekið rekstur „Versl. X“ og þar með vörubirgðir að fjárhæð 1.000.000 kr. Taldi skattstjóri tvímælalaust að um væri að ræða viðskipti sem féllu undir ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988.

II.

Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 12. júní 1992, sbr. greinargerð, dags. 25. október 1992, er þess krafist að heimilaður verði innskattsfrádráttur af viðskiptum við X hf. Vísað er til rökstuðnings í kæru til skattstjóra og því mótmælt að kærandi verði gerður ábyrgur fyrir gerðum eða aðgerðarleysi þess aðila, sbr. þá athugasemd skattstjóra að X hf. hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum. Um þá athugasemd skattstjóra að komið hafi fram á tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi að kærandi hafi yfirtekið rekstur „Versl. X“ segir í kærunni:

„Hér er um hrein ósannindi að ræða og vekur furðu að skattstjóri skuli setja þetta á blað, sbr. meðfylgjandi ljósrit af téðri tilkynningu "RSK 10.22" er skýrt tekið fram að ekki er um yfirtöku á öðru fyrirtæki að ræða.“

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 15. febrúar 1993, lagt fram svofellda kröfugerð í málinu f.h. gjaldkrefjanda:

„Lögmæltur 30 daga kærufrestur rann út þann 14. júní 1992. Kærubréf kæranda barst hins vegar ekki fyrr en 15. júní 1992. Þar sem 14. júní bar upp á sunnudag þykir rétt að líta svo á að kæran hafi borist innan kærufrests sbr. þá úrskurði yfirskattanefndar sem gengið hafa um svipuð tilvik t.d. úrskurði nr. 1 og 2/1993.

Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Telja verður að þarna sé ljóst að um yfirtöku sé að ræða þar sem haldið er áfram með sams konar verslun á sama stað. Ekki verður annað talið en viðskiptin falli undir 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Að öðru leyti er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Í máli þessu er um það deilt hvort ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, taki til þeirra viðskipta kæranda og X hf., sem í málinu greinir, svo sem skattstjóri og ríkisskattstjóri halda fram, eða hvort um sé að ræða viðskipti er falli undir 3. mgr. 11. gr. laganna, svo sem byggt er á af hálfu kæranda. Samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði má ekki telja eignayfirfærslu vörubirgða, véla og annarra rekstrarfjármuna til skattskyldrar veltu þegar yfirfærslan á sér stað í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess og hinn nýi eigandi hefur með höndum skráðan eða skráningarskyldan rekstur samkvæmt lögunum. Við slíka sölu skal seljandi tilkynna skattyfirvöldum um eigendaskipti og söluandvirði eigi síðar en átta dögum eftir að eignayfirfærsla fór fram, sbr. 2. ml. málsgreinarinnar. Samkvæmt síðarnefndu lagagreininni telst sala eða afhending véla, tækja og annarra rekstrarfjármuna til skattskyldrar veltu skráðs aðila. Taka lagaákvæðin í 3. mgr. 11. gr. og 4. mgr. 12. gr. til sams konar verðmæta, en meðferð virðisaukaskatts við afhendingu þeirra fer eftir því hvort um er að ræða almenn viðskipti eða eignayfirfærslu í tengslum við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess. Vegna ákvæðis 3. mgr. 15. gr. laganna, þar sem hugtakið innskattur er skilgreint, skiptir sköpum um rétt kæranda til frádráttar innskatts vegna kaupa kæranda á umræddum tækjum og vörubirgðum hvort virðisaukaskattur hafi með réttu fallið til við kaupin eða ekki.

Fyrir liggur í málinu að í upphafi desembermánaðar 1991 keypti kærandi vörubirgir X hf. Samkvæmt sölureikningi frá því fyrirtæki, dags. 2. desember 1991, nam söluverð án virðisaukaskatts 1.000.000 kr. Þá liggur fyrir að á sama tíma hóf kærandi verslunarrekstur í því húsnæði sem X hf. hafði áður á leigu. Kveðst kærandi hafa gert leigusamning við Y hf. um húsnæðið. Að öðru leyti en hér hefur verið rakið, liggur ekkert fyrir í málinu um önnur viðskipti kæranda og seljanda vörubirgðanna, svo sem varðandi innréttingar í verslunarhúsnæðinu eða yfirtöku viðskiptasambanda, um tengsl aðila eða önnur atriði er gætu skýrt eðli þeirra viðskipta sem um ræðir í málinu. Ekkert var af hálfu skattstjóra leitt í ljós um rekstrarlok seljanda svo sem með skýrslutöku af forsvarsmönnum hans, en ámælisvert er að í kæruúrskurði reifar skattstjóri skattskil þess aðila. Á tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi, sem kærandi stóð skil á til skattstjóra hinn 9. desember 1991, var lýst yfir að um væri að ræða yfirtöku á rekstri X hf. Gegn eindregnum andmælum kæranda þykir ekki unnt að byggja á því að í tilkynningu þessari hafi falist yfirlýsing um yfirtöku á rekstri nefnds aðila. Er í því sambandi einnig til þess að líta að upplýsingar í tilkynningunni um yfirtöku húsnæðis eru ekki í samræmi við það sem að öðru leyti er komið fram í málinu.

Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að skattstjóri hafi með nægilega skýrum hætti sýnt fram á að ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 taki til umræddra viðskipta. Að svo vöxnu er krafa kæranda tekin til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Innskattur uppgjörstímabilið nóvember-desember 1991 hækki um 245.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja