Úrskurður yfirskattanefndar
- Álag á virðisaukaskatt
Úrskurður nr. 680/1993
Virðisaukaskattur 1992
Lög nr. 50/1988, 26. gr., 27. gr. 1. mgr., 38. gr. Reglugerð nr. 81/1991, 2. gr.
I.
Kærð er ákvörðun skattstjóra um álag 111.565 kr. á virðisaukaskatt kæranda uppgjörstímabilið janúar-febrúar 1992.
Kærandi var skráður á virðisaukaskattsskrá vegna útleigu bifreiða. Á virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir framangreint uppgjörstímabil voru færðar í reit C (útskattur) 5.529 kr. og í reit D (innskattur) 557.825 kr. Í reit E var færður mismunur, 552.296 kr., og merkt við að fjárhæðin væri til inneignar. Skýrslan er móttökustimpluð 1. apríl 1992. Áður en skattstjóri samþykkti inneign virðisaukaskatts samkvæmt skýrslunni til endurgreiðslu fór hann fram á við kæranda að hann legði fram bókhaldsgögn er skýrslan byggðist á. Í framhaldi af athugun skattstjóra á bókhaldsgögnum kæranda boðaði hann honum með bréfi, dags. 29. apríl 1992, að fyrirhugað væri að „endurákvarða fjárhæðir á virðisaukaskattsskýrslu“ kæranda uppgjörstímabilið janúar-febrúar 1992 með vísan til 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Kvaðst skattstjóri jafnframt hafa í hyggju að ákvarða álag samkvæmt sömu lagagrein meðal annars á þeirri forsendu að samkvæmt 6. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, væri óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun, rekstri og leigu fólksbifreiða fyrir færri en níu menn nema aðili hafi með höndum sölu eða leigu þessara bifreiða. Virðisaukaskattur að fjárhæð 542.148 kr. væri vegna kaupa á fólksbifreið og virðisaukaskattur að fjárhæð 5.613 kr. væru vegna fylgihluta í sömu bifreið. Samkvæmt framlögðum bókhaldsgögnum væru engin merki um útleigu bifreiðarinnar þrátt fyrir talsverðan akstur en á tímabilinu hafi verið keyptur 121 lítri af bensíni á bifreiðina. Með framlögðum bókhaldsgögnum hafi hluti fylgiskjala næsta tímabils á eftir fylgt með þar sem fram komi kaup á 485 lítrum af bensíni án þess að séð yrði að neinn leigusamningur hafi verið gerður vegna þessa aksturs. Að fengnu svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 11. maí 1992, þar sem fallist var á athugasemdir skattstjóra, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 15. maí 1992, að hann hefði ákveðið að „endurákvarða fjárhæðir á virðisaukaskattsskýrslu“ hans á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988 og reikna honum álag samkvæmt sömu lagagrein. Felldi skattstjóri hinn tilgreinda innskatt niður. Við þá breytingu varð virðisaukaskattur til greiðslu 5.529 kr. Ekki var vikið að fjárhæð álags í bréfi þessu eða af hvaða stofni það væri ákvarðað. Leiðbeint var um kærufrest til skattstjóra. Þá liggja fyrir í málinu tvær tilkynningar skattstjóra, dags. 18. júní 1992. Er þar annars vegar tilkynnt að virðisaukaskattsskýrsla kæranda uppgjörstímabilið janúar-febrúar 1992 hefði verið tekin til afgreiðslu og áður gerð áætlun verið felld niður. Samtals næmi fjárhæð til greiðslu 5.529 kr. Jafnframt var getið um kærufrest til ríkisskattanefndar. Hins vegar var tilkynnt um hækkun álags á sama tímabili um 111.565 kr. og kærufrest til skattstjóra.
Með kæru til skattstjóra, dags. 2. september 1992, mótmælti umboðsmaður kæranda álagi á virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 1992. Tilgangur kaupa á bifreiðinni hafi verið að leigja hana út. Þetta hefði þó nokkuð breyst og hefði bifreiðin verið seld og fallist á sjónarmið skattstjóra, enda ekki litið á sölu bifreiðarinnar sem skattskylda. Kærandi hafi síðan óskað eftir því að vera tekinn af virðisaukaskattsskrá. Af einhverjum ástæðum hefðu verið lögð á viðurlög vegna endurgreiðslu innskatts sem aldrei hefði verið greiddur út. Hefði ekki verið um neinn greiðsludrátt að ræða af hálfu kæranda. Taldi umboðsmaður kæranda beitingu þessara viðurlaga ekki samrýmast 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda væri ætíð talað um viðurlög ofan á þá upphæð sem vangreidd væri eða hefði verið. Í þessu tilfelli væri ekki um slíkt að ræða.
Með kæruúrskurði, dags. 11. september 1992, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeirri forsendu að kærandi hefði fært sem innskatt virðisaukaskatt af kaupum bifreiðarinnar þótt kæranda hefði mátt vera ljóst að sá innskattur væri kæranda ekki heimill. Samkvæmt upplýsingum bifreiðaskrár hefði bifreiðin verið keypt 10. febrúar 1992 og seld aftur 24. mars 1992. Ljóst væri af skýrslum kæranda og bókhaldi að bifreiðin hafði aldrei verið leigð út. Síðan sagði:
„Samkvæmt framansögðu verður ekki annað séð, en að beinn ásetningur hafi verið hjá félaginu til að sækja sér innskatt sem því var ekki heimill. Álag er í eðli sínu viðurlög vegna ófullnægjandi skila, eins og glöggt má ráða af ákvæði 1. mgr. 40 .gr. laga nr. 50/1988, en þar er kveðið á um að álag skuli dragast frá sektarfjárhæð er gjaldanda kann að vera gert að greiða. Þá er álag beinlínis nefnt viðurlög í athugasemdum við lagafrumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988, í umfjöllun um 27. gr. frumvarpsins.
Eðli álags verður að hafa í huga við skýringu á ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga 50/1988. Með hliðsjón af viðteknum lögskýringarsjónarmiðum refsiréttar verður að telja þann verknað [kæranda], að sækja sér innskatt umfram heimild, fullframinn við skýrslugjöfina þann 1. apríl 1992. Óeðlilegt er að eftirfarandi aðgerðir skattstjóra leysi félagið undan álagi, enda varð ekki ráðið af skýrslunni einni sér, að tilgreindur innskattur væri félaginu óheimill. Á þá túlkun félagsins er ekki fallist, að álagi verði aðeins beitt hafi endurgreiðsla átt sér stað.“
II.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 8. október 1992, mótmælir umboðsmaður kæranda ákvörðun álags. Tilgangur kæranda, sem stofnað hafi verið ..., sé rekstur ferðaskrifstofu og bílaleigu. Hafi ein bifreið verið keypt sem ætlunin hafi verið að leigja út þegar ferðamannatíminn hæfist. Þar sem bifreiðin hafi verið ætluð til útleigu hafi forráðamenn kæranda fært innskatt vegna kaupanna á virðisaukaskattsskýrslu og sent skattstjóra. Þegar skýrslan var send hafði bifreiðin verið seld aftur. Forráðamenn kæranda gerðu sér grein fyrir því að greiða þyrfti skattinn til baka, en hins vegar hafi þeir talið þetta rétta málsmeðferð og haldið sig við upphaflega skýrslugerð. Skattstjóri hafi ekki viljað fallast á heimild til innskatts á þeirri forsendu að bifreiðin hefði ekki verið leigð út. Forráðamenn kæranda hafi getað sætt sig við þá niðurstöðu að innskattur kæmi ekki til endurgreiðslu, enda yrði þar með litið á sölu bifreiðarinnar sem skattfrjálsa, og hafi þeir því fallist á sjónarmið skattstjóra. Í bréfi skattstjóra frá 15. maí 1992 þar sem innskattur sé felldur niður sé félaginu gert að greiða 5.529 kr. í útskatt. Ekki sé að finna í þeim úrskurði hver fyrirhuguð viðurlög séu eða á hvaða grunni þau byggjast. Var því reiknað með að viðurlög legðust á ógreiddan virðisaukaskatt, 5.529 kr. Engin kæra var lögð fram af hálfu kæranda vegna þessarar niðurstöðu skattstjóra. Síðla sumars hafi kærandi fengið tilkynningu um vangreiddan virðisaukaskatt. Hafi komið í ljós að um væri að ræða viðurlög sem lögð hefðu verið á reiknaðan innskatt sem þó hafi aldrei verið greiddur út. Telur umboðsmaður kæranda það ekki samrýmast 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Er því krafist niðurfellingar álags að fjárhæð 111.565 kr.
III.
Með bréfi, dags. 31. desember 1992, krefst ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
IV.
Svo sem greinir í málavaxtalýsingu var tilgreindur innskattur að fjárhæð 557.825 kr. á virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir viðkomandi uppgjörstímabil. Áður en skattstjóri tók skýrsluna til afgreiðslu kannaði hann bókhaldsgögn sem þar lágu til grundvallar, sbr. heimildir skattstjóra þar að lútandi í 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Varð það niðurstaða skattstjóra að kæranda bæri ekki sá innskattur sem tilfærður var á skýrslunni. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 skal skattskyldur aðili sæta álagi ef virðisaukaskattsskýrslu hefur verið ábótavant og endurgreiðsla skv. 26. gr. laganna verið of há. Með því að ekki kom til of hárrar endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt umræddri virðisaukaskattsskýrslu verður ekki talið að lagaskilyrði séu til hins umþrætta álags að öðru leyti en nemur álagi af vangreiddum virðisaukaskatti uppgjörstímabilsins. Er því fallist á kröfu kæranda um lækkun álags í 1.106 kr.
Það er að athuga við málsmeðferð skattstjóra að í tilkynningu hans, dags. 15. maí 1992, um breytingu á virðisaukaskattsskýrslu kæranda, kom ekki fram fjárhæð þess álags sem skattstjóri ákvarðaði kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Álag á virðisaukaskatt uppgjörstímabilið janúar-febrúar 1992 lækki úr 111.565 kr. í 1.106 kr.