Úrskurður yfirskattanefndar
- Samruni
- Sameignarfélag
- Sjálfstæð skattaðild
- Tilkynning til firmaskrár
Úrskurður nr. 796/1993
Gjaldárið 1991
Lög nr. 42/1903, 21. gr. Lög nr. 32/1978, 129. gr. Lög nr. 75/1981, 57. gr.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi (A sf.) taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1991. Við álagningu opinberra gjalda 1991 áætlaði skattstjóri kæranda því skattstofna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að viðbættu álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningunni mótmælt með kæru, dags. 28. ágúst 1991. Í kærunni segir m.a.:
„Sameignarfélagið A sf. var sameinað samnefndu hlutafélagi frá og með 1. janúar 1990 og sameignarfélagið hafði því ekki með höndum neinn rekstur á árinu 1990.
Tilkynning um þessa sameiningu og þar með um afskráningu sameignarfélagsins birtist í Lögbirtingarblaði hinn ... 1990.
Þetta félag var þar með fellt af firmaskrá og í framtali hlutafélagsins er gerð grein fyrir sameiningu þessara félaga og tilkynning um þessa sameiningu var einnig send hlutafélagaskrá með bréfi dags. 01.12.90.
Álagning skattstjóra á félag sem ekki er lengur til í firmaskrá og gerð hefur verið skilmerkileg grein fyrir sameiningu þess við annað félag er því með öllu óskiljanleg og fær ekki staðist.“
Með kæruúrskurði, dags. 26. september 1991, vísaði skattstjóri kærunni frá sem vanreifaðri. Voru forsendur skattstjóra þær að tilkynningu um sameiningu við hlutafélag beri að senda hlutafélagaskrá innan viku frá sameiningu og falli ákvörðun um sameiningu úr gildi hafi hún ekki verið tilkynnt innan tveggja mánaða frá því að sameining var ákveðin, sbr. lög nr. 32/1978, um hlutafélög. Sameining sem tilkynnt sé á síðasta ársþriðjungi 1990 geti því ekki tekið til alls ársins 1990, þannig að kæranda hefði borið að gera reikningsskil fyrir tímabilið frá áramótum til sameiningardags og skila ásamt skattframtali.
Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 10. október 1991. Fellst kærandi ekki á úrskurð skattstjóra og telur að niðurstaða hans geti engan veginn staðist. Eru rök kæranda þessi:
„1. Hlutafélagið A hf. yfirtók sameignarfélagið A sf. í ársbyrjun 1990 og var sameignarfélagið þá lagt niður. Ákvörðun um þetta var tekin á hluthafafundi í A hf. sem haldinn var 2. janúar 1990, sbr. meðf. staðfest ljósrit úr fundagerðarbók A hf.
2. Af úrskurði skattstjóra verður ekki annað ráðið en hann byggi ákvörðun sína alfarið á því, að við sameininguna hafi ekki verið gætt þeirra tímamarka varðandi tilkynningu til hlutafélagaskrár, sem lög nr. 32/1978 um hlutafélög kveða á um. Sameiningin hafi því ekki öðlast lagagildi fyrr en tilkynning um hana barst hlutafélagaskrá.
Skattstjóri vísar í úrskurði sínum ekki til þeirrar greinar hlutafélagalaga sem hann telur að umbj. okkar hafi breytt gegn heldur laganna í heild sinni og er svo að sjá að hann telji að umbj. okkar hafi gerst brotlegur við þann lagabálk allan.
Í XV. kafla laga nr. 32/1978 um hlutafélög er fjallað um samruna hlutafélaga og í 129. gr. laganna eru þau ákvæði sem skattstjóri byggir úrskurð sinn á.
Ef ákvæði þessa kafla laganna eru skoðuð nánar kemur í ljós að þar er eingöngu fjallað um samruna og sameiningu hlutafélaga, en um sameiningu eða samruna hlutafélags og sameignarfélags eru þar engin ákvæði fremur en annars staðar í þeim lögum.
Það mál sem hér um ræðir varðar sameiningu hlutafélags og sameignarfélags. Í hlutafélagalögum eru því engin ákvæði er mál þetta varða. Forsendur skattstjóra hafa því enga stoð í þeim lögum og til annarra laga er ekki vitnað í úrskurði hans.
3. Um tilkynningarskyldu varðandi lok sameignarfélagsins giltu ákvæði 21. gr. laga nr. 42/1903 um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð. Þar er ekki að finna ákvæði um ákveðinn frest á þeim tilkynningum sem til firmaskrár skal senda.
Tilkynning um að sameignarfélagið hafi verið sameinað hlutafélaginu og þar með að því hafi verið slitið, er dagsett 03.09.90 og birtist í ... tölubl. Lögbirtingarblaðsins sem út kom hinn ... september sama ár.
Ekki verður því annað séð en sameining félaganna hafi verið tilkynnt með þeim hætti er lög mæla fyrir um og engar forsendur til að hafna henni á þeim grundvelli.
4. Ekki verður hjá því komist að vekja athygli á því að skattstjóri hefur engar athugasemdir gert um sameiningu þeirra félaga sem hér um ræðir aðrar en þær að tilkynning um hana hafi ekki verið birt innan réttra tímamarka. Skattstjóri hefur heldur ekki gert neinar athugasemdir við framtal hins sameinaða félags, hlutafélagsins.
Í framtali þess er gerð glögg grein fyrir þessari sameiningu og skattstjóra mátti því vera alveg ljóst að ekki var um neinn rekstur hjá sameignarfélaginu að ræða og því enginn grundvöllur til áætlunar gjaldstofna á það félag. Engu að síður leggur skattstjóri gjöld á sameignarfélagið sem nema rúmum 4 milljónum króna og þegar álagning þessi er kærð til hans réttlætir hann gerðir sínar með því að vísa til hlutafélagalaganna í heild sinni, laga sem hafa ekki að geyma nein ákvæði er snerta það mál sem hér um ræðir.“
Gerir kærandi þá kröfu að öll álögð gjöld verði felld niður.
Kærunni fylgdi ljósrit úr fundargerðarbók A hf. af fundargerð hluthafafundar sem haldinn var í félaginu 2. janúar 1990. Þar segir: „Fyrir fundinn var lögð tillaga stjórnar um að A h/f yfirtæki allan rekstur A s/f eignir þess og skuldir frá og með 1. janúar 1991. Tillagan var samþykkt með atkvæðum allra hluthafa. Þá var samþykkt að greiðsla til eigenda sameignarfélagsins fyrir eignarhluti þeirra yrði með þeim hætti að þeir fengju hlutabréf í A h/f sem gagngjald fyrir eignarhluti sína.“
Með bréfi, dags. 3. febrúar 1993, hefur umboðsmaður kæranda sent svohljóðandi yfirlýsingu, dags. 3. febrúar 1993, sem undirrituð er af hluthöfum A hf.:
„Komið hefur í ljós ritvilla í fundargerð A hf. 2. janúar 1990.
Þar sem stendur að A hf. yfirtaki allan rekstur A sf., eignir þess og skuldir frá og með 1. janúar 1991 hefur ártalið misritast þar á að standa 1990 eins og ljóst er af samhengi málsins.“
Með bréfum, dags. 22. nóvember 1991 og 11. júní 1992, er barst 14. júní 1993, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Kærandi hefur lagt fram ljósrit af fundargerð hluthafafundar í A hf. sem haldinn var 2. janúar 1990. Á fundinum var samþykkt að sameina rekstur A sf. rekstri A hf. Ber því að miða tímamark sameiningar félaganna við dagsetningu hluthafafundarins, sbr. framkomna leiðréttingu kæranda. Breytir þar engu að tilkynning um afskráningu sameignarfélagsins var ekki gerð fyrr en 3. september 1990. Um þá tilkynningu giltu ákvæði 21. gr. laga nr. 42/1903, um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð. Að þessu virtu verður ekki annað séð en að uppfyllt séu þau skilyrði, sem sett eru í 57. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að A hf. taki við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum nefnds sameignarfélags. Að svo vöxnu er krafa kæranda tekin til greina.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda er tekin til greina