Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrarkostnaður
- Veðmál
- Duldar arðgreiðslur
Úrskurður nr. 70/2017
Gjaldár 2011, 2012 og 2013
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 11. gr. 2. mgr., 31. gr. 1. tölul. 1. mgr. Lög nr. 145/1994, 9. gr. Lög nr. 108/2007, 2. gr.
Ríkisskattstjóri felldi niður í skattskilum kæranda, sem var einkahlutafélag, gjaldfært tap af veðmálum á íþróttakappleiki á vefsíðunni Betfair þar sem ríkisskattstjóri taldi að um væri að ræða persónuleg útgjöld eiganda og fyrirsvarsmanns kæranda sem ekki tengdust atvinnurekstri félagsins. Yfirskattanefnd féllst ekki á með kæranda að veðmál af greindum toga teldust til fjármálagerninga í skilningi laga um verðbréfaviðskipti eða að þeim mætti jafna til slíkra gerninga. Þá hefði ekki verið gerð grein fyrir tekjum og gjöldum af hinum meintu viðskiptum við Betfair með neinum viðhlítandi hætti í bókhaldi kæranda, enda hefðu niðurstöðutölur eingöngu verið færðar í árslok og þá að því er virtist eingöngu á grundvelli framlagðs fjár til veðmála. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að félagið hefði verið aðili að umræddri veðmálastarfsemi þannig að frádráttur taps af veðmálunum gæti komið til álita í skattskilum félagsins, hvorki sem frádráttarbær rekstrarkostnaður né á öðrum grundvelli. Var kröfum kæranda hafnað.
Ár 2017, miðvikudaginn 29. mars, er tekið fyrir mál nr. 195/2016; kæra A ehf., dags. 29. september 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2011, 2012 og 2013. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 29. september 2016, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 23. október 2016, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 30. júní 2016, um endurákvörðun opinberra gjalda félagsins gjaldárin 2011, 2012 og 2013. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að fella niður í skattskilum kæranda rekstrarárin 2010, 2011 og 2012 gjaldfærðan kostnað að fjárhæð samtals 103.619.612 kr. fyrsta árið, 66.947.508 kr. annað árið og 81.816.000 kr. þriðja árið, vegna tilgreinds taps af veðmálum á vefsíðunni Betfair (www.betfair.com). Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri jafnframt launakostnað kæranda og stofn félagsins til tryggingagjalds um sömu fjárhæðir greind ár vegna gjaldfærslu úthlutunar fjármuna til eiganda félagsins sem launa, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi.
II.
Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 25. október 2013, þar sem ríkisskattstjóri krafði kæranda um bókhaldsgögn vegna rekstraráranna 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012 og lagði fyrir kæranda að gera grein fyrir gjaldfærðum kostnaði að fjárhæð 103.619.612 kr. árið 2010, 66.947.508 kr. árið 2011 og 81.816.000 kr. árið 2012 vegna taps af erlendri getraunastarfsemi (Betfair) í skattskilum félagsins umrædd ár. Fyrirspurn ríkisskattstjóra var svarað af hálfu kæranda með tölvupóstum 5. og 6. nóvember 2013 og bréfi, dags. 13. nóvember 2013. Þá sendi ríkisskattstjóri fyrirspurnarbréf til kæranda, dags. 1. apríl 2014, sem svarað var af hálfu félagsins með bréfi, dags. 5. júní 2014, auk þess sem fyrirspurnarbréf var sent til eiganda og fyrirsvarsmanns kæranda, B, hinn 10. febrúar 2015. Með bréfi til kæranda, dags. 10. febrúar 2016, boðaði ríkisskattstjóra hina kærðu endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2011, 2012 og 2013. Af hálfu kæranda var hinum boðuðu breytingum mótmælt með bréfi, dags. 8. apríl 2016. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 30. júní 2016, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 2011, 2012 og 2013 til samræmis.
Með úrskurði sínum felldi ríkisskattstjóri niður í skattskilum kæranda tilgreint tap af þátttöku í veðmálum á vefsíðunni Betfair á árunum 2010, 2011 og 2012 að fjárhæð 103.619.612 kr. fyrsta árið, 66.947.508 kr. annað árið og 81.816.000 kr. þriðja árið, en þessar fjárhæðir voru gjaldfærðar í rekstrarreikningum félagsins fyrir greind ár undir gjaldaliðnum „Tap af erlendri getraunastarfsemi (Betfair)“. Jafnframt hækkaði ríkisskattstjóri gjaldfærðan launakostnað kæranda svo og stofn til tryggingagjalds í skattframtölum kæranda árin 2011, 2012 og 2013 um sömu fjárhæðir. Hækkun tryggingagjalds af þessum sökun nam 8.963.096 kr. fyrsta árið, 5.790.959 kr. annað árið og 6.373.466 kr. þriðja árið, en þær fjárhæðir komu jafnframt til gjalda í skattskilum kæranda. Af framangreindum breytingum leiddi hækkun á yfirfæranlegu tapi kæranda gjaldárin 2011, 2012 og 2013. Nam hækkun yfirfæranlegs taps kæranda 8.963.096 kr. fyrsta árið eða úr 62.942.247 kr. í 71.905.343 kr., 14.754.055 kr. annað árið eða úr 119.067.074 kr. í 133.821.129 kr. og 21.127.521 kr. þriðja árið eða úr 153.017.085 kr. í 174.144.606 kr.
Í hinum kærða úrskurði rakti ríkisskattstjóri málavexti og vék að þeim skýringum sem gefnar hefðu verið af hálfu kæranda við meðferð málsins. Ríkisskattstjóri tók fram að eigandi og fyrirsvarsmaður kæranda, B, hefði stofnað aðgang á vefsíðunni Betfair (www.betfair.com) í sínu nafni, en að mati ríkisskattstjóra yrði því ekki jafnað saman við viðskiptamannareikning hjá verðbréfamiðlara sem annaðist fjárfestingar fyrir þriðja aðila í eigin nafni, eins og haldið væri fram af hálfu kæranda. Ríkisskattstjóri benti á að um verðbréfaviðskipi giltu sérstök lög andstætt því sem ætti við um þátttöku í getraunastarfsemi eða veðmálum. Í lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. áður lög nr. 33/2003, kæmi hvergi fram að lögin tækju til þátttöku í veðmála- eða getraunastarfsemi og yrði þátttöku í veðmálum á erlendri vefsíðu ekki jafnað til fjármálagerninga er skilgreindir væru í 2. gr. fyrrnefndra laga. Þar sem eigandi og fyrirsvarsmaður kæranda hefði stofnað aðgang að umræddum spilareikningi hjá Betfair væri ljóst að hann ætti sjálfur aðild að þeim veðmálum sem gerð hefðu verið á spilareikningnum, enda hefðu þau öll verið í hans nafni.
Vegna athugasemda kæranda þess efnis að mestu máli skipti uppruni fjármagnsins og hvort innleystur hagnaður rynni í sama farveg benti ríkisskattstjóri á að málið varðaði ekki þann ábata sem hefði orðið af þátttöku í getraunum heldur þvert á móti tap. Þá hafnaði ríkisskattstjóri því að félög gætu haft veðmál sem hluta af starfsemi sinni þó svo að rekstur tengdrar starfsemi gæti fallið þar undir. Aðeins einn flokkur innan ÍSAT atvinnugreinaflokkunarinnar varðaði fjárhættu- og veðmálastarfsemi (flokkur 92), en til atvinnugreina sem undir flokkinn féllu væri sala á happdrættismiðum, lottó, rekstur spilakassa, rekstur fjárhættuspila á netinu, starfsemi veðmangara og önnur veðmálastarfsemi og svo rekstur spilavíta. Hefði kærandi ekki verið skráður með framangreint ÍSAT númer. Benti ríkisskattstjóri á að í 1. mgr. 183. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væri kveðið á um að sá sem gerði sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu skyldi sæta refsingu. Þá kæmi einnig fram í 181. gr. sömu laga að öflun tekna með fjárhættuspili félli undir það að afla sér framfærslu með ólöglegu móti. Samkvæmt þessu rúmuðust fjárhættuspil eða veðmál ekki innan þeirra atvinnugreina sem einkahlutafélög hér á landi stunduðu.
Einnig vék ríkisskattstjóri að skilgreiningu á hugtakinu „atvinnurekstur“ og tók fram að það væri alkunna að þeir einstaklingar sem stunduðu það að veðja á íþróttir eða tækju þátt í annars konar getraunastarfsemi gerðu það sem lið í tómstundum sínum en hefðu það ekki að atvinnu. Ítrekaði ríkisskattstjóri það viðhorf sitt að umrædd veðmál hefðu verið gerð af eiganda og fyrirsvarsmanni kæranda og ekki yrði séð hver aðkoma kæranda hefði getað verið. Væri kærandi því ekki aðili að umræddum veðmálum og ekki væri unnt að líta á þessi veðmál sem lið í atvinnurekstri félagsins. Yrði því að líta á það tap sem kærandi hefði staðið straum af vegna þátttöku eiganda og fyrirsvarsmanns félagsins í getraunastarfsemi á vefsíðunni Betfair sem persónulegan kostnað eigandans, en ekki sem kostnað sem fallið hefði til í atvinnurekstri kæranda. Taldi ríkisskattstjóri samkvæmt þessu að ekki væri um að ræða frádráttarbæran gjaldalið í skattskilum kæranda, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.
Ríkisskattstjóri tók fram að ekki hefði verið farið með umræddar greiðslur, sem embættið virti sem persónuleg útgjöld eiganda kæranda, B, sem lið í arðgreiðslum til hans. Því væri um óheimila úthlutun af fjármunum félagsins til B að ræða, sbr. 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Í ljósi þess að B hefði verið starfsmaður félagsins teldust umræddar fjárhæðir til skattskyldra tekna hjá honum sem laun samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Af þessari ástæðu væri launakostnaður kæranda hækkaður um framangreindar fjárhæðir auk þess sem umrædd hækkun á launum leiddi til hækkunar á stofni kæranda til tryggingagjalds umrædd ár, sbr. rakningu fjárhæða hér að framan.
III.
Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru félagsins til yfirskattanefndar. Í kærunni er gerð grein fyrir málsatvikum og forsendur ríkisskattstjóra í hinum kærða úrskurði raktar.
Í kærunni kemur fram að kærandi hafi frá stofnun stundað umfangsmikil viðskipti sem fólust í spákaupmennsku með samninga tengdum gjaldmiðlum. Í eðli sínu hafi slík viðskipti ekki verið neitt annað en veðmál um þróun eða gengi ákveðins andlags út frá ákveðnum forsendum. Af hálfu kæranda sé því hafnað að félagið hafi ekki haft með höndum starfsemi sem fólst í að leggja fé undir í veðmálum fyrir árið 2010. Eftir fall fjármálakerfisins árið 2008 hafi félagið ekki haft tök á að eiga áfram í þeim viðskiptum sem það hafði stundað þar sem flestir markaðir hafi lokast, m.a. vegna gjaldeyrishafta. Hafi kærandi þá byrjað að afla tekna með þátttöku í erlendri getraunastarfsemi með hagnaðarvon í huga, en árangurinn hafi látið á sér standa. Telji kærandi að umrædd starfsemi hafi að fullu samræmst tilgangi félagsins og fyrri starfsemi þess, enda hafi hún falið í sér spákaupmennsku. Hafi félagið hagnast vel á spákaupmennsku og staðið skil á sköttum vegna hennar, en að mati kæranda geti ríkisskattstjóri ekki hafnað gjaldfærslu af tapi sem hlotist hafi af spákaupmennsku sem byggi á sömu forsendum.
Af hálfu kæranda er því haldið fram að með gildistöku laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, hafi hugtakið fjármálagerningur breyst, einkum hvað varðar afleiður og fjármálaafurðir. Að mati kæranda sé ekkert í lögum nr. 108/2007 sem mæli gegn því að samningur sem leggi til grundvallar mat á úrslitum eða atvikum íþróttaviðburðar geti ekki fullnægt skilyrðum um afleiðusamninga. Vísar kærandi í þessu sambandi til þess að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 108/2007 sé gert ráð fyrir að samningar þar sem undirliggjandi viðmið séu breytingar á veðurfari fullnægi skilyrðum laganna. Sé það mat kæranda að veðmál geti fallið undir h-lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, enda sé enginn eðlismunur á afleiðusamningum og veðmáli þar sem í báðum tilvikum sé veðjað á ákveðna þróun ákveðins andlags með það að markmiði að hagnast.
Kærandi bendir á að ef hagnaður hefði orðið af veðmálunum væri hann skattskyldur hjá félaginu samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. C-lið sömu lagagreinar, og skattlagður sem rekstrartekjur samkvæmt 1. tölul. 71. gr. laganna. Leiði það til þeirrar gagnályktunar að félaginu hljóti að vera heimilt að gjaldfæra tapið á grundvelli 1., 2. og 4. tölul. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Því geti ekki staðist að banna félaginu að gjaldfæra umrætt tap.
Í kærunni rekur kærandi að samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 teljist vinningar í veðmáli til skattskyldra tekna og telur ósamræmis gæta í íslenskri lagaframkvæmd hvað varði veðmálastarfsemi. Telur kærandi ákveðna rökvillu felast í því að hafna því að telja veðmálastarfsemi til atvinnurekstrar þegar gert sé ráð fyrir skattskyldu hennar á sama tíma og vinningar sem komi frá fyrirtækum sem hafi einkarétt á rekstri íþróttagetrauna og talnaleikja séu skattfrjálsir. Þá sé atvinnugreinaflokkun aðeins til viðmiðunar um atvinnustarfsemi en henni sé ekki ætlað að vera tæmandi yfir alla þá atvinnustarfsemi sem kunni að vera rekin hverju sinni. Ósamræmi sé milli flokkunar atvinnugreina sem ríkisskattstjóri telji löglega og þeirrar ólöglegu starfsemi sem almenn hegningarlög leggi bann við. Að mati kæranda sé þátttaka í veðmálum á vefsíðum eins og um ræði í tilviki félagsins eina löglega veðmálastarfsemin sem bæði gæti flokkast undir flokk 92 í ÍSAT atvinnugreinaflokkuninni og brjóti ekki í bága við 183. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Einnig heldur kærandi því fram að íslensk löggjöf brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins með því að hindra aðgang Betfair að íslenskum markaði og hindra möguleika íslenskra einstaklinga og fyrirtækja að stunda þá starfsemi sem um ræðir. Af hálfu kæranda er um þetta m.a. vísað til dóms EFTA-dómstólsins í máli E-3/06 (Ladbrokes).
IV.
Með bréfi, dags. 12. desember 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. desember 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
V.
Ágreiningsefni máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði embættisins um endurákvörðun, dags. 30. júní 2016, að fella niður í skattskilum kæranda gjaldfærðan kostnað að fjárhæð 103.619.612 kr. gjaldárið 2011, 66.947.508 kr. gjaldárið 2012 og 81.816.000 kr. gjaldárið 2013, vegna tilgreinds taps af veðmálum á íþróttakappleiki á vefsíðunni Betfair. Byggði ríkisskattstjóri ákvörðun sína því að umrædd útgjöld tengdust ekki atvinnurekstri kæranda og væri því ekki um að ræða frádráttarbæran kostnað samkvæmt 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Jafnframt taldi ríkisskattstjóri að um væri að ræða persónuleg útgjöld eiganda og fyrirsvarsmanns félagsins, B, sem kærandi hefði greitt. Væri þannig um að ræða tekjur B af hlutareign í kæranda. Á þeim grundvelli tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld B til endurákvörðunar með úrskurði, dags. 30. júní 2016, og færði honum framangreindar fjárhæðir til tekna sem laun í skattframtölum hans árin 2011, 2012 og 2013, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga, enda hefði ekki verið farið með umræddar greiðslur sem lið í arðgreiðslum til B og hann verið starfsmaður kæranda á umræddum árum. Með hinum kærða úrskurði í máli kæranda hækkaði ríkisskattstjóri gjaldfærð laun kæranda gjaldárin 2011, 2012 og 2013 og stofn til tryggingagjalds þau ár um sömu fjárhæðir.
Ljóst er af forsendum og rökstuðningi ríkisskattstjóra að hann byggði annars vegar á því að kærandi hefði í reynd ekki verið aðili að hinum umdeildu veðmálum á árunum 2010, 2011 og 2012, heldur eigandi og fyrirsvarsmaður félagsins, B, eins og áður segir, og hins vegar að hvað sem liði aðild að veðmálastarfseminni samkvæmt framansögðu gæti greint tap af henni ekki talist til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar kæranda þar sem tap af veðmálum á íþróttakappleiki á erlendri vefsíðu gæti ekki talist til starfsemi sem stunduð væri af einkahlutafélagi hér á landi.
Af hálfu kæranda er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og færð rök fyrir því að hið umþrætta tap tilheyri kæranda en ekki B, m.a. með vísan til laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Þá er því haldið fram að að ósamræmis gæti í íslenskri löggjöf að því er varði þá starfsemi sem um ræðir, svo sem rakið hefur verið.
Rétt þykir að víkja í upphafi að sjónarmiðum kæranda þess efnis að veðmál, sem leitt hafi til þess taps sem um ræðir í málinu, hafi verið eða megi jafna til fjármálagerninga í skilningi laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. h-lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þessu til stuðnings hefur því verið borið við að afleiður séu í eðli sínu veðmál og hljóti slík veðmál sem um ræðir í málinu því að teljast til „annarra afleiða“ í skilningi fyrrgreinds h-liðar 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, og því fjármálagerningar. Virðist þessum sjónarmiðum haldið á lofti gegn þeim viðhorfum ríkisskattstjóra að veðmál er tengjast íþróttakappleikjum á erlendri vefsíðu geti ekki talist til starfsemi sem stunduð sé af einkahlutafélagi hér á landi. Af þessu tilefni þykir rétt að gera stuttlega grein fyrir reglum þessum og þýðingu þeirra fyrir mál kæranda. Með lögfestingu laga nr. 108/2007 komu til framkvæmda hér á landi annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE (e. Markets in Financial Instruments Directive eða MiFID-tilskipunin), og hins vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB um samræmingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB (e. transparency directive eða gagnsæistilskipunin). Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 108/2007 kemur fram að lagt sé til að skilgreining á hugtakinu fjármálagerningur verði fært til samræmis við skilgreiningu hugtaksins í tilskipun 2004/39/EB, þ.e. MiFID-tilskipuninni. Í VI. kafla reglugerðar nr. 994/2007, um innleiðingu reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1287/2006 frá 10. ágúst 2006, um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB að því er varðar skyldur fjármálafyrirtækja varðandi skýrsluhald, tilkynningar um viðskipti, gagnsæi á markaði, töku fjármálagerninga til viðskipta og hugtök sem eru skilgreind að því er varðar þá tilskipun, er svo fjallað um afleiðufjármálagerninga samkvæmt 7. og 10. lið C-þáttar I. viðauka við tilskipun 2004/39/EB. Þar eru tilgreind ákveðin viðmið sem samningar þurfa að uppfylla til að teljast til annarra afleiðufjármálagerninga samkvæmt tilskipuninni. Lúta viðmið þessi t.a.m. að því að viðskipti með samninginn fari fram á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) eða sambærilegum vettvangi. Þess skal getið að í leiðbeinandi kynningarefni frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um tilskipun 2004/39/EB, sem finna má á vefsvæði framkvæmdastjórnarinnar (ec.europa.eu), er þess sérstaklega getið að íþróttaveðmál teljist ekki til fjármálagerninga samkvæmt tilskipuninni, en aðildarríkjum sé þó í sjálfsvald sett hvort þau telji íþróttaveðmál til fjármálagerninga að landsrétti. Verður ekki talið að með innleiðingu framangreindra tilskipanna í lög á Íslandi hafi íþróttaveðmálum verið fundinn staður með fjármálagerningum innan þess lagabálks sem um ræðir, enda er þess hvorki getið í framangreindum lögum eða reglugerðum né verður sú niðurstaða leidd fram með venjubundinni túlkun laganna á grundvelli viðurkenndra lögskýringarsjónarmiða. Með hliðsjón af framangreindum reglum og hvað sem líður eðli afleiðusamninga verður að telja ljóst að veðmál á íþróttakappleiki á erlendum vefsíðum á borð við Betfair teljast hvorki til fjármálagerninga í skilningi laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, né að jafna megi þeim til slíkra gerninga, eins og kærandi heldur fram.
Samkvæmt því sem fram er komið í málinu voru umtalsverðar fjárhæðir greiddar inn á spilareikning hjá Betfair á árunum 2010, 2011 og 2012 með viðskiptakorti eiganda kæranda, B, hjá kæranda. Ekkert kemur fram í framlögðum gögnum um umfang veðmála á árunum 2010 og 2011, hvað sem greiðslum þessum líður, en af yfirliti frá Betfair yfir viðskipti ársins 2012 má ráða að það ár hafi einkum verið veðjað um markafjölda í knattspyrnuleikjum og aðra hliðstæða þætti, eins og tiltekna markatölu leikja og úrslit í knattspyrnu- og körfuboltaleikjum. Samkvæmt yfirlitinu voru viðskiptin gerð á öllum tímum sólarhringsins en þó einkum á kvöldin, eða að því er virðist á þeim tíma sem viðkomandi leikir fóru fram.
Með fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 1. apríl 2014, var kærandi m.a. krafinn um upplýsingar og gögn um stofnun aðgangs á vefsíðunni Betfair, þ.e. gögn er sýndu fram á hver hefði stofnað og átt umræddan aðgang á vefsíðunni. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 5. júní 2014, kom fram að gögn um þetta hefðu ekki fundist, en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði eigandi kæranda stofnað aðganginn. Væri hægt að kalla eftir gögnum um þetta frá rekstraraðila vefsíðunnar væri þess óskað, en kærandi teldi þetta atriði hins vegar hafa litla þýðingu þar sem viðskiptum þessum mætti jafna við viðskiptamannareikning hjá verðbréfamiðlara sem annaðist fjárfestingar fyrir þriðja aðila í eigin nafni. Á síðari stigum málsins byggði ríkisskattstjóri á því að umrædd viðskipti á vefsíðunni Betfair hefðu verið á vegum eiganda kæranda, enda aðgangur að síðunni stofnaður í hans nafni. Þrátt fyrir þetta tilefni hafa af hálfu kæranda engin gögn verið lögð fram sem styðja það að kærandi hafi átt aðild að þeim veðmálum sem um ræðir í málinu. Liggur samkvæmt þessu ekki annað fyrir í málinu en að þau hafi verið gerð í nafni eiganda og fyrirsvarsmanns félagsins, B, svo sem ríkisskattstjóri hefur talið.
Við athugun á hreyfingalistum bókhalds kæranda rekstrarárin 2010, 2011 og 2012, sem fyrir liggja í málinu, kemur í ljós að fyrri tvö árin eru færðar allmargar greiðslur af bankareikningum félagsins inn á viðskiptakort eiganda kæranda hjá félaginu, nánast alltaf í þúsundum króna, samtals 137.818.200 kr. á árinu 2010 og 48.649.697 kr. á árinu 2011 að teknu tilliti til útskriftagjalds og annars kostnaðar. Í bókhaldi ársins 2010 er heildarfjárhæð innborgana á viðskiptakortið það ár færð út með einni færslu, sem dagsett er 31. desember 2010, og sú fjárhæð annars vegar gjaldfærð sem tap af þátttöku í Betfair á árinu 2010 með 103.619.612 kr. og hins vegar færð sem greiðsla til eiganda kæranda með færslu í viðskiptareikning hans í bókhaldinu með 18.765.172 kr. með skýringartextanum „Tap af Betfair“ svo og sem sérstakur eignaliður að fjárhæð 15.433.416 kr. með skýringunni „Erl. gj.eyrir hjá Betfair, EUR 100.628,65“. Í bókhaldi ársins 2011 er síðastnefndur eignaliður færður út meðal lokafærslna 31. desember 2011 með textanum „Tap af þátttöku í Betfair“. Með annarri færslu sama dag eru með sama skýringartexta færðar 51.514.092 kr. til gjalda vegna þátttöku í veðmálastarfseminni en mótfærsla er á fyrrgreindan reikning vegna viðskiptakorts. Í bókhaldi ársins 2012 kemur viðskiptakort ekki við sögu í bókhaldsfærslum vegna veðmála á vegum Betfair, heldur er gjaldfærð fjárhæð 81.816.000 kr. sem „Tap af þátttöku í Betfair“ færð með einni færslu, dags. 31. desember 2012, af bankareikningi kæranda. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki séð að gerð hafi verið grein fyrir tekjum og gjöldum af meintum viðskiptum við Betfair með neinum viðhlítandi hætti í bókhaldi kæranda, sbr. m.a. ákvæði 9. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, enda niðurstöðutölur eingöngu færðar í árslok og þá að því er virðist aðallega á grundvelli framlagðs fjár til veðmála. Verður að telja að þessi tilhögun á bókhaldsfærslum styðji þá ályktun ríkisskattstjóra að veðmál þessi hafi í raun ekki farið fram á vegum kæranda.
Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að félagið hafi verið aðili að hinni umþrættu veðmálastarfsemi á árunum 2010, 2011 og 2012 þannig að frádráttur taps af veðmálum þessum geti komið til álita í skattskilum félagsins umrædd rekstrarár, hvorki sem frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 né á öðrum grundvelli. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu kæranda. Er þá ekki tekin afstaða til frádráttarbærni taps af slíkum viðskiptum eða meðferð slíks taps í skattskilum að öðru leyti.
Víkur þá að þeim breytingum ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 30. júní 2016, er ríkisskattstjóri taldi leiða af þeirri ákvörðun sinni að telja eiganda kæranda og fyrirsvarsmanni, B, til tekna óheimila úthlutun af fjármunum kæranda (dulinn arð) á árunum 2010, 2011 og 2012, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun í máli B, dags. 30. júní 2016. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 71/2017 í máli B er sérstaklega leyst úr ágreiningi málsins sem lýtur að skattlagningu launatekna vegna hinnar meintu ólögmætu úthlutunar fjármuna úr kæranda á árunum 2010, 2011 og 2012. Varð niðurstaðan sú að ákvörðun ríkisskattstjóra var látin standa óhögguð. Með vísan til forsendna fyrir þeirri niðurstöðu í nefndum úrskurði verður að sama skapi ekki haggað við ákvörðun ríkisskattstjóra um gjaldfærslu launanna hjá kæranda og breytingum hans að öðru leyti. Er kröfu þar að lútandi því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.