Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 155/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 74. gr. 1. tl. 1. mgr.   Lög nr. 88/1987 — 3. gr. 2. mgr.  

Fasteign — Fasteignamatsverð — Fasteignamatsverð, áætlun — Áætlun skattstjóra á fasteignamatsverði — Eignarskattur — Eignarskattsverð — Eignarskattsstofn — Sérstakur eignarskattur — Skattverð fasteigna — Fasteignamatsverð, vöntun — Iðnaður — Verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Kærð er álagning eignarskatts og sérstaks eignarskatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði gjaldárið 1988. Kröfugerð umboðsmanns kæranda fyrir ríkisskattanefnd er svohljóðandi:

„1. Farið er fram á að fasteignarmat húseignarinnar að X verði lagt til grundvallar útreiknings og álagningar eignarskatta.

2. Farið er fram á að tillit verði tekið til þess að sá hluti fasteignar félagsins, sem notaður er til iðnaðar, þ.e. þroskunar banana, verði undanþegin álagningu sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhús.“

Með bréfi, dags. 16. janúar 1989, lét umboðsmaður kæranda í té vottorð verkfræðistofu, dags. 10. janúar 1989, um útreikning á hlutdeild iðnaðarstarfsemi (bananaþroskunar) í heildarhúsnæði kæranda að X í Reykjavík. Reyndist hún „vera 43,9% af heildarhúsnæði þ.e. sjálft bananaþroskunarrýmið að viðbættri hlutdeild í afgreiðslu, móttöku og skrifstofu og vélahúsi“, svo sem í vottorðinu greinir.

Með bréfi, dags. 8. desember 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„a. Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

b. Þá er krafist synjunar á kröfu kæranda skv. lið 2 í kæru enda er fráleitt að þroskun banana sé iðnaður.“

Í gögnum þessa máls liggur það fyrir, að húseignin X, Reykjavík, hafði ekki verið metin til fasteignamats í árslok 1987. Bar því skattstjóra við mat á nefndri húseign til eignar við álagningu eignarskatts og sérstaks eignarskatts á kæranda gjaldárið 1988 að fara eftir ákvæðum 2. og 3. ml. 1. mgr. 1. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þykir því bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra varðandi álagðan eignarskatt og sérstakan eignarskatt á kæranda gjaldárið 1988. Þá þykir með vísan til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/1987, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sbr. og fyrrnefnd ákv. 1. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, mega staðfesta úrskurð skattstjóra varðandi eignamat áðurnefndrar húseignar við álagningu þess skatts á kæranda gjaldárið 1988. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar fer kærandi fram á það, að tiltekin hlutdeild „bananaþroskunar“ í nefndri húseign verði ekki talin mynda stofn til hins sérstaka skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þessi þáttur kærunnar þykir vanreifaður af hálfu kæranda og er málinu hvað þetta varðar vísað frá að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja