Úrskurður yfirskattanefndar

  • Starfstengd hlunnindi
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Álag á vangreidda staðgreiðslu
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 255/2011

Gjaldár 2005, 2006 og 2007

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul.   Lög nr. 45/1987, 1. gr., 4. gr., 5. gr., 7. gr., 15. gr., 20. gr., 28. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 11. gr., 12. gr.   Reglugerð nr. 245/1963, 13. gr. A- og B-liður.  

Í máli þessu var deilt um hvort kæranda, sem var einkahlutafélag, bæri að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjaldi af starfstengdum hlunnindum tilgreindra starfsmanna félagsins, þ.e. nánar tiltekið vegna líkamsræktarstyrkja, tryggingariðgjalda og félagsgjalda. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að staðgreiðslulög væru afdráttarlaus um að hvers konar starfstengd hlunnindi launamanna teldust til staðgreiðsluskyldra launa í skilningi laganna. Var fallist á með skattstjóra að hlunnindi starfsmanna kæranda vegna líkamsræktarstyrkja hefðu verið staðgreiðsluskyld og að borið hefði að reikna staðgreiðslu af þeim. Þá var talið að greiðsla kæranda á persónulegum útgjöldum starfsmanna vegna líftrygginga teldust til skattskyldra tekna viðkomandi starfsmanna og að hlunnindi þeirra vegna slíkra tryggingakaupa hefðu verið staðgreiðsluskyld. Á hinn bóginn var fallist á kröfu kæranda varðandi félagsgjöld vegna starfsmanna sem kæranda bar að inna af hendi á grundvelli kjarasamninga við stéttarfélög. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags á vangreidda staðgreiðslu var hafnað.

I.

Með kæru, dags. 16. mars 2009, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 29. janúar 2009, um endurákvörðun á skilaskyldri staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjaldi kæranda staðgreiðsluárin 2004, 2005 og 2006. Lutu breytingar skattstjóra að staðgreiðslu vegna starfstengdra hlunninda starfsmanna kæranda, þ.e. nánar tiltekið vegna líkamsræktarstyrkja, tryggingariðgjalda og félagsgjalda. Nam fjárhæð vangreiddrar skilaskyldrar staðgreiðslu samkvæmt úrskurði skattstjóra samtals 17.965.166 kr. staðgreiðsluárið 2004, 19.695.239 kr. staðgreiðsluárið 2005 og 23.224.263 kr. staðgreiðsluárið 2006. Við þær fjárhæðir bætti skattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fjárhæð vangreidds tryggingagjalds vegna greindra hlunninda nam alls 1.612.500 kr. rekstrarárið 2004, 1.867.477 kr. rekstrarárið 2005 og 2.299.713 kr. rekstrarárið 2006 samkvæmt úrskurði skattstjóra.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi „og að brott verði felldar allar þær ákvarðanir skattstjóra um greiðsluskyldu kæranda sem í úrskurðinum felast og af honum leiða“, eins og segir í kærunni. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Málavextir eru skilmerkilega reifaðir í gögnum málsins. Þá er gerð ítarleg grein fyrir sjónarmiðum og röksemdum beggja aðila, kæranda annars vegar og skattstjóra hins vegar, í gögnum málsins, m.a. í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 16. mars 2009, og í hinum kærða úrskurði skattstjóra, dags. 29. janúar 2009. Vísast til þessara gagna að því leyti sem ekki verður rakið í úrskurði þessum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 30. október 2007, lagði skattstjóri fyrir kæranda að láta embættinu í té tilgreind gögn og upplýsingar úr bókhaldi félagsins fyrir rekstrarárin 2004, 2005 og 2006. Barst svar frá kæranda með bréfi, dags. 20. júní 2008. Með bréfi, dags. 9. október 2008, boðaði skattstjóri kæranda að hann hygðist gera tilgreindar breytingar á skattframtölum félagsins árin 2005, 2006 og 2007 og endurákvarða opinber gjöld félagsins til samræmis. Þá væri fyrirhugað að gera tilteknar breytingar á staðgreiðsluskilum félagsins og fjárhæðum tryggingagjaldsstofns árin 2004, 2005 og 2006. Ennfremur boðaði skattstjóri kæranda að bætt yrði 10% álagi á vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna hækkunar staðgreiðsluskyldra launa á árunum 2004, 2005 og 2006, sbr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, auk þess sem reiknað yrði álag til viðbótar af upphæð vanskilafjár frá og með gjalddaga sem væri hið sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákvarðaði og birti samkvæmt lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Andmæli kæranda vegna hinna boðuðu breytinga bárust skattstjóra með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 28. nóvember 2008. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 29. janúar 2009, hratt skattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd að því er tók til gjaldáranna 2005, 2006 og 2007, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 6. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sem skattstjóri vísaði til í þessu sambandi. Nam hækkun skilaskyldrar staðgreiðslu kæranda samkvæmt úrskurðinum alls 17.965.166 kr. staðgreiðsluárið 2004, 19.695.239 kr. staðgreiðsluárið 2005 og 23.224.263 kr. staðgreiðsluárið 2006. Vísast um breytingar skattstjóra til kafla I hér að framan.

Verður nú fjallað nánar um einstök kæruefni málsins.

1. Líkamsræktarstyrkir.

Með hinum kærða úrskurði sínum endurákvarðaði skattstjóri fjárhæð skilaskyldrar staðgreiðslu kæranda staðgreiðsluárin 2004, 2005 og 2006 vegna starfstengdra hlunninda starfsmanna vegna líkamsræktarstyrkja. Samkvæmt úrskurði skattstjóra nam hækkun á stofni til skilaskyldrar staðgreiðslu vegna umræddra hlunninda alls 3.836.500 kr. árið 2004, 3.767.000 kr. árið 2005 og 3.939.000 kr. árið 2006. Þá ákvarðaði skattstjóri stofn kæranda til tryggingagjalds umrædd ár til samræmis við framangreindar breytingar. Kom fram að tryggingagjald vegna greindra hlunninda yrði 219.831 kr. rekstrarárið 2004, 215.849 kr. rekstrarárið 2005 og 228.120 kr. rekstrarárið 2006 og yrðu þær fjárhæðir færðar til gjalda í skattskilum kæranda vegna viðkomandi ára, enda væri um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað, sbr. ákvæði 23. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Til stuðnings framangreindum breytingum vísaði skattstjóri til þess að kostnaður vegna íþróttaiðkunar starfsfólks hefði í skatt- og úrskurðaframkvæmd ekki verið talinn falla undir frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, enda yrði ákvæði 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, varðandi kostnað við almenna fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og almenna heilsubótaraðstöðu, ekki skýrt rýmri skýringu en fælist í beinu orðalagi þess. Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 20. mars 2000, þar sem fjallað væri um greiðslur til starfsmanna vegna líkamsræktar, kæmi fram að ríkisskattstjóri liti svo á að greiðslur vinnuveitanda vegna líkamsræktar eða annars sambærilegs kostnaðar fyrir starfsmenn teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Þá hefði ríkisskattstjóri talið að greiðslur af þessu tagi teldust til staðgreiðsluskyldra launa, sbr. ákvæði 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og því bæri launagreiðendum að halda eftir staðgreiðslu af greiðslunum og skila í ríkissjóð. Samkvæmt þessu teldust greiðslur, sem kærandi hefði innt af hendi til starfsmannafélags síns vegna líkamsræktariðkunar starfsmanna, ótvírætt til skattskyldra launa (hlunninda), sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, og jafnframt til staðgreiðsluskyldra launa, sbr. 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987. Engu máli skipti í því sambandi þótt starfsmannafélag kæranda hefði annast um úthlutun greiðslna til einstakra starfsmanna þar sem það væri ráðstöfunin sjálf sem máli skipti, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 354/2006. Um væri að ræða greiðslur sem rynnu til starfsmanna kæranda og leysti viðkoma greiðslnanna hjá starfsmannafélaginu kæranda ekki undan því að bera ábyrgð á upplýsingaskilum eða skattgreiðslum vegna umræddra greiðslna, sbr. 92. gr. og 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, eða staðgreiðsluskilum vegna þeirra, sbr. 16. gr., 1. mgr. 20. gr. og 22. gr. laga nr. 45/1987.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 16. mars 2009, kemur fram að kærandi hafi styrkt starfsmenn félagsins til líkamsræktar á árunum 2004, 2005 og 2006 með fjárframlögum til starfsmannafélags kæranda. Það fyrirkomulag hafi verið við lýði að starfsmenn hefðu snúið sér til starfsmannafélagsins með ósk um styrk og sannað raunveruleg útgjöld sín vegna heilsuræktar með framlagningu kvittana. Á þeim grundvelli hafi starfsmannafélagið greitt starfsmönnum styrki og endurheimt það fé mánaðarlega úr hendi kæranda. Hafi slíkar greiðslur kæranda vegna heilsuræktar starfsmanna numið alls 3.836.500 kr. á árinu 2004, 3.767.000 kr. á árinu 2005 og 3.939.900 kr. á árinu 2006. Af hálfu skattstjóra hafi verið vísað til skatt- og úrskurðaframkvæmdar þess efnis að útgjöld vinnuveitenda af þessum toga teljist ekki til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 472/1997, 1186/1998 og 354/2006. Skattstjóri hafi þó ekki fylgt þeirri framkvæmd í tilviki kæranda með því að hafna frádrætti rekstrarkostnaðar í skattskilum félagsins heldur tekið ákvörðun um að líta á framlög kæranda til starfsmannafélags vegna heilsuræktar starfsmanna sem starfstengd og staðgreiðsluskyld hlunnindi. Hafi skattstjóri þannig tekið sér fyrir hendur að endurákvarða bráðabirgðagreiðslur ótilgreinds hóps launþega úr röðum starfsmanna kæranda án þess að hlutast til um að fram færi uppgjör bráðabirgðagreiðslnanna á móti álögðum opinberum gjöldum starfsmannanna. Í ljósi þess að ákvörðun skattstjóra lúti að greiðsluskyldu til bráðabirgða á sköttum sem kærandi og launamenn hans beri óskipta ábyrgð á hljóti ákvörðun skattstjóra í besta falli að teljast hálfkák. Hvað sem líði bréfi ríkisskattstjóra frá 20. mars 2000, sem skattstjóri hafi byggt á, sé ljóst að ákvörðun skattstjóra gangi á svig við skattframkvæmd sem fyrrgreindir úrskurðir yfirskattanefndar beri vott um og sé mun harkalegri gagnvart kæranda. Ákvörðunin fáist því ekki samrýmst meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda sé ljóst að skattstjóra hafi borið að velja hið vægara úrræði, þ.e. höfnun frádráttar, til þess að ná því markmiði sínu að færa skattskil til rétts vegar. Á þessum forsendum sé krafist ómerkingar á ákvörðun skattstjóra.

2. Tryggingariðgjöld.

Samkvæmt úrskurði skattstjóra um endurákvörðun nam hækkun á stofni kæranda til skilaskyldrar staðgreiðslu staðgreiðsluárin 2004, 2005 og 2006 vegna starfstengdra hlunninda starfsmanna félagsins vegna tryggingariðgjalda alls 14.588.150 kr. árið 2004, 15.842.246 kr. árið 2005 og 19.588.300 kr. árið 2006. Hækkaði skattstjóri stofn kæranda til tryggingagjalds umrædd ár til samræmis og færði þá hækkun tryggingagjalds sem af þessu leiddi eða 835.901 kr. tekjuárið 2004, 907.761 kr. tekjuárið 2005 og 1.134.163 kr. tekjuárið 2006 til gjalda í skattskilum kæranda vegna umræddra ára, sbr. 23. gr. laga nr. 113/1990.

Í úrskurði skattstjóra kom fram að samkvæmt skýringum kæranda væri um að ræða greiðslur kæranda á iðgjöldum vegna líftryggingar starfsmanna hjá félaginu og vegna líf- og slysatrygginga tilgreindra annarra starfsmanna félagsins. Vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt ákvæði 9. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994 teldust hvers konar almenn launatengd gjöld vegna starfsmanna samkvæmt lögum eða kjarasamningum til launa og annars starfsmannatengds kostnaðar. Litið hefði verið svo á að líf- og sjúkdómatryggingar væru persónulegur kostnaður viðkomandi einstaklings sem ekki væri frádráttarbær sem rekstrarkostnaður samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Sama ætti við um sjúkra- og slysatryggingar nema í þeim tilvikum þegar slík trygging fæli í sér greiðslu dagpeninga, þ.e. greiðslu tiltekinnar fjárhæðar á dag vegna sjúkdóms eða slyss, enda væri verið að tryggja viðkomandi gegn forföllum og slíkar bætur teldust til rekstrartekna samkvæmt B-lið 7. gr. sömu laga. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til sjónarmiða sem fram kæmu í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra 03-002 og benti á að í bréfinu væri m.a. tekið fram að ef trygging fæli í sér rétt á greiðslu örorkubóta til starfsmanns vegna slyss eða sjúkdóms þá teldist kostnaður við slík tryggingakaup ekki til rekstrarkostnaðar, heldur yrði litið á hann sem persónuleg útgjöld þess er nyti og farið með á sama hátt og líftryggingariðgjöld, enda væri starfsmaður þá hinn vátryggði og þar með rétthafi bótanna. Ljóst væri samkvæmt framangreindu að líftryggingar teldust til persónulegs kostnaðar hins vátryggða og í ljósi þess yrði að telja kostnað kæranda vegna líftrygginga starfsmanna til skattskyldra hlunninda, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sem og til staðgreiðsluskyldra launa, sbr. 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987. Hvað varðaði iðgjöld vegna líf- og slysatrygginga annarra starfsmanna félagsins þá hefði ekki verið gerð grein fyrir eðli þeirra trygginga eða lögð fram sundurliðun á því hvernig umrædd iðgjöld skiptust. Yrði því að líta á umræddar greiðslur félagsins sem skattskyld hlunnindi starfsmanna með sömu rökum og að framan greinir. Vegna tilvísana kæranda til jafnræðisreglna í þessu sambandi tók skattstjóri fram að jafnræðisreglan veitti mönnum almennt ekki tilkall til neins sem ekki samrýmdist lögum. Tók skattstjóri fram að hann gæti einungis tekið afstöðu til skattskila kæranda en hefði ekki forsendur til að taka afstöðu til skattskila ótilgreindra annarra aðila.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi hafi á umræddum árum tryggt starfsmenn sína fyrir dauða og varanlegri örorku af völdum slysa í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Um sé að ræða hóptryggingar sem hafi tekið annars vegar til tilgreindra starfsmanna og hins vegar til hóps manna sem gegndi annars konar störfum. Fram kemur að kærandi telji ákvörðun skattstjóra að telja greiðslur þessar til staðgreiðsluskyldra hlunninda starfsmanna án lagastoðar og í andstöðu við langvarandi skattframkvæmd. Hafa beri í huga að samkvæmt almennum kjarasamningum sé atvinnurekendum skylt að slysatryggja launþega. Um langan aldur hafi iðgjaldagreiðslur atvinnurekenda af slíkum skyldubundnum tryggingum ekki verið taldar viðkomandi launþegum til skattskyldra tekna. Verði að teljast gagnrýnivert að skattstjóri skuli ganga gegn þeirri skattframkvæmd í tilviki eins launagreiðanda, þ.e. kæranda, og hljóti að felast í því brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af málflutningi skattstjóra verði helst ráðið að hann telji ríkjandi skattframkvæmd ólögmæta og byggja á mistökum. Þeirri skoðun skattstjóra sé vísað á bug. Iðgjöld atvinnurekenda af slysatryggingum samkvæmt kjarasamningum teljist sem launatengd gjöld til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar þeirra, sbr. 9. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Skattstjóri hafi lagt þann skilning í umrætt reglugerðarákvæði að iðgjaldagreiðslur af umræddum toga teljist til launa og annars starfsmannatengds kostnaðar. Ekki verði fallist á þetta með skattstjóra. Í reglugerðinni sé gerður greinarmunur á annars vegar launatengdum gjöldum samkvæmt lögum og kjarasamningum og hins vegar launum og öðrum starfsmannatengdum kostnaði. Kveðið sé á um frádráttarbærni launa og annars starfsmannatengds kostnaðar í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Í þeirri aðgreiningu endurspeglist að iðgjöldin teljist ekki til skattskyldra launatekna í skilningi 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Iðgjöldin teljist þar af leiðandi hvorki til staðgreiðsluskyldra launa, sbr. ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1987, né til tryggingagjaldsstofns, sbr. ákvæði III. kafla laga nr. 113/1990. Ákvörðun skattstjóra sé því án lagastoðar.

Þá er í kærunni vikið að ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra frá 16. janúar 2003 sem skattstjóri hafi byggt á. Tekur umboðsmaður kæranda fram að ekki verði lagður víðtækari skilningur í umfjöllun ríkisskattstjóra í bréfinu en efni þess gefi beinlínis tilefni til miðað við þá fyrirspurn sem svarað sé í bréfinu. Um sé að ræða tilvik sem sé ekki sambærilegt við mál kæranda. Þá kemur fram að ranghermt sé í úrskurði skattstjóra að kærandi hafi ekki gert grein fyrir eðli hinna umdeildu líf- og slysatrygginga starfsmanna félagsins eða lagt fram sundurliðun á skiptingu iðgjalda. Þvert á móti hafi verið gerð grein fyrir hinum umspurðu atriðum í bréfi kæranda, dags. 20. júní 2008, þar sem svarað hafi verið bréfi skattstjóra, dags. 30. október 2007. Með bréfi þessu hafi m.a. fylgt listar vegna hvorrar hóptryggingar fyrir sig og fyrir hvert ár fyrir sig þar sem fram komi sundurliðaðar trygginga- og iðgjaldafjárhæðir vegna hvers og eins starfsmanns. Af úrskurði skattstjóra megi ráða að hann telji málsatvik ekki nægjanlega upplýst um þennan þátt málsins. Af hálfu kæranda hafi þó verið gerð grein fyrir málsatvikum svo sem fyrirspurnir skattstjóra og boðunarbréf hans hafi gefið tilefni til. Verði því að draga þá ályktun af málflutningi skattstjóra að hann hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti. Þegar af þeirri ástæðu beri að ómerkja ákvörðun skattstjóra varðandi þennan þátt málsins, en auk þess standi efnisleg rök til ógildingar ákvörðunarinnar, sbr. hér að framan.

3. Félagsgjöld.

Með úrskurði sínum endurákvarðaði skattstjóri fjárhæð skilaskyldrar staðgreiðslu kæranda vegna starfstengdra hlunninda starfsmanna félagsins sem fólgin væru í greiðslu kæranda á félagsgjöldum vegna þeirra. Nam hækkun staðgreiðsluskyldra launa af þessum sökum alls 28.141.358 kr. staðgreiðsluárið 2004, 32.591.229 kr. staðgreiðsluárið 2005 og 39.718.704 kr. staðgreiðsluárið 2006. Þá ákvarðaði skattstjóri stofn til tryggingagjalds umrædd ár til samræmis. Kom fram að tryggingagjald vegna umræddra hlunninda yrði 1.612.500 kr. rekstrarárið 2004, 1.867.477 kr. rekstrarárið 2005 og 2.299.713 kr. rekstrarárið 2006 og yrðu þær fjárhæðir færðar til gjalda í skattskilum kæranda umrædd ár. Voru forsendur skattstjóra fyrir þessum breytingum á sömu lund og hér að framan er rakið að því er snertir líkamsræktarstyrki og tryggingariðgjöld, þ.e. skattstjóri taldi að um væri að ræða starfstengd hlunnindi starfsmanna sem telja bæri til staðgreiðsluskyldra launa, sbr. m.a. ákvæði 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og 5., 16., 20. og 22. gr. laga nr. 45/1987.

Af hálfu kæranda er komið fram að um sé að ræða greiðslur kæranda til tveggja stéttarfélaga. Er breytingum skattstjóra mótmælt í kæru til yfirskattanefndar á þeim grundvelli að ekki sé um að tefla lögboðin iðgjöld til umræddra stéttarfélaga sem launagreiðanda sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns, sbr. ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, heldur greiðslur sem kæranda hafi borið að inna af hendi til stéttarfélaganna á grundvelli kjarasamninga við þau. Engin þekkt dæmi séu úr skattframkvæmd um að slík framlög launagreiðenda hafi verið talin til skattskyldra hlunninda starfsmanna þeirra. Fram kemur að kærandi hafi ekki talið greiðslurnar frádráttarbærar í skattskilum sínum og því bakfært þær, sbr. ákvæði b-liðar 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, sem frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

III.

Með bréfi, dags. 29. maí 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í úrskurði skattstjóra, dags. 29. janúar 2009, er það gjald sem kærandi greiðir í félagssjóði á grundvelli kjarasamnings við [þargreind stéttarfélög] talið hefðbundið gjald sem greitt sé á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, enda telur skattstjóri að umrædd gjöld feli í sér verðmætaafhendingu til starfsmanna. Leit skattstjóri því á umræddar greiðslur kæranda sem skattskyld hlunnindi þeirra starfsmanna sem nutu, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. og 3. mgr. A-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignaskatt, sbr. 1. mgr. B-liðar sömu greinar.

Í kæru mótmælir umboðsmaður kæranda því sérstaklega að farið sé með greiðslur kæranda í félagssjóði framangreindra stéttarfélaga eins og gert er í úrskurði skattstjóra. Byggir umboðsmaður kæranda kröfu sína um ómerkingu úrskurðar skattstjóra m.a. á því að um samsvarandi greiðslur sé að ræða og almennt er samið um í kjarasamningum, s.s. í kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur við Samtök atvinnulífsins og í kjarasamningum aðildarfélaga Bandalags háskólamanna við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Að virtum málsástæðum og rökum umboðsmanns kæranda telur ríkisskattstjóri unnt að fallast á kröfur kæranda hvað þetta atriði varðar.

Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, að öðru leyti en varðar meðferð greiðslna kæranda í félagssjóði [stéttarfélaga], enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 2. júní 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 8. júní 2009, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í niðurlagi bréfsins kemur fram að kostnaður kæranda af rekstri málsins nemi 696.422 kr., sbr. meðfylgjandi afrit málskostnaðarreiknings vegna hluta þess kostnaðar og yfirlit yfir vinnustundir vegna málsins.

IV.

Kæra í máli þessu varðar endurákvörðun skattstjóra á skilaskyldri staðgreiðslu kæranda, þ.m.t. staðgreiðslu tryggingagjalds, staðgreiðsluárin 2004, 2005 og 2006 auk álagsbeitingar vegna vangreiddrar skilaskyldrar staðgreiðslu, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 29. janúar 2009. Taldi skattstjóri að kæranda bæri að standa skil á staðgreiðslu af starfstengdum hlunnindum starfsmanna félagsins umrædd ár sem fólgin væru í líkamsræktarstyrkjum og greiðslu kæranda á tryggingaiðgjöldum og félagsgjöldum vegna starfsmanna, svo sem nánar greindi. Nam fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu samkvæmt úrskurði skattstjóra samtals 17.965.166 kr. staðgreiðsluárið 2004, 19.695.239 kr. staðgreiðsluárið 2005 og 23.224.263 kr. staðgreiðsluárið 2006. Á þær fjárhæðir bætti skattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fjárhæð vangreidds tryggingagjalds vegna umræddra hlunninda nam alls 1.612.500 kr. rekstrarárið 2004, 1.867.477 kr. rekstrarárið 2005 og 2.299.713 kr. rekstrarárið 2006 samkvæmt því sem fram kom í úrskurði skattstjóra. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi. Þá er þess sérstaklega krafist að álag á vangreidda staðgreiðslu verði fellt niður. Víkur þá að einstökum ágreiningsefnum málsins.

Um líkamsræktarstyrki:

Með bréfi sínu til kæranda, dags. 30. október 2007, lagði skattstjóri fyrir félagið að gera grein fyrir greiðslu ýmiss kostnaðar vegna starfsmanna á árunum 2004, 2005 og 2006, þar á meðal kostnaði vegna líkamsræktar starfsmanna, og hvort slíkar greiðslur hefðu verið gefnar upp á launamiðum vegna viðkomandi starfsmanna. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 20. júní 2008, var greint frá því að kærandi hefði innt af hendi fjárframlög vegna líkamsræktar fastra starfsmanna félagsins á greindum árum. Fyrirkomulag þessa væri með þeim hætti að starfsmannafélag kæranda hefði milligöngu um úthlutun styrkja til líkamsræktar, þ.e. starfsmenn sneru sér til starfsmannafélagsins og sýndu fram á útgjöld sín vegna líkamsræktar með framlagningu kvittana og fengju í kjölfarið greidda styrki. Í lok hvers mánaðar krefði starfsmannafélagið síðan kæranda um greiðslu umrædds fjár með útgáfu reiknings á hendur kæranda vegna greiddra líkamsræktarstyrkja. Bréfinu fylgdu ljósrit af útgefnum reikningum starfsmannafélagsins á hendur kæranda ásamt nánari sundurliðunum.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi.

Í A-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, er fjallað um það hvað teljist til skattskyldra launa og eru í því sambandi nefnd dæmi um slíkar tekjur. Í 1. mgr. B-lið greinarinnar er tekið fram að ekki skipti máli í hverju laun eða endurgjald fyrir unnið verk er fólgið ef það verður metið til peninga. Til launatekna teljist því hvers konar hlunnindi, veitt í launaskyni, og önnur form fyrir greiðslu, svo sem fæði, húsnæði, ljós og hiti, bifreiðaafnot, einkennisbúningur og annar fatnaður, einnig fatnaðarplögg, þjónusta og önnur aðhlynning vinnufólks í sveitum, skepnufóðrun, engjatak, heimatekjur presta, greiðslur í vörum úr verslunum eða afurðum úr framleiðslufyrirtæki, og greiðsla í sérhverjum öðrum verðmætum eða eignum, t.d. hlutafjáreign í hlutafélagi, innstæða í félagi eða fyrirtæki, hlutdeild í skipi eða húseign o.s.frv. Í 2. mgr. B-liðarins er mælt svo fyrir að laun greidd í hlunnindum skuli talin til tekna eftir gangverði á hverjum stað og tíma.

Samkvæmt framansögðu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi, sbr. og 1. mgr. B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Útgjöld starfsmanna kæranda vegna líkamsræktar verða að teljast persónulegur kostnaður þeirra. Í skatt- og úrskurðaframkvæmd hefur og verið lagt til grundvallar að kostnaður launagreiðenda vegna íþróttaiðkunar starfsmanna teljist ekki til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, enda sé ekki um að ræða kostnað af þeim toga sem greinir í 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þ.e. kostnað við almenna fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu eða almenna heilsubótaraðstöðu. Má í þessu sambandi vísa til úrskurða yfirskattanefndar nr. 472/1997, 1015/1997 og 1186/1998 sem birtir eru á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is). Samkvæmt þessu verður að fallast á með skattstjóra að greiðsla kæranda á persónulegum útgjöldum starfsmanna vegna líkamsræktar teljist til skattskyldra tekna viðkomandi starfsmanna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt 1. gr. staðgreiðslulaga nr. 45/1987 er staðgreiðsla opinberra gjalda samkvæmt lögunum bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars launamanna á tekjuári og tryggingagjalds launagreiðenda á því ári nema annað sé tekið fram. Hugtakið launamaður er skilgreint í 4. gr. laganna og kemur m.a. fram í 1. tölul. þeirrar lagagreinar að til launamanns samkvæmt lögunum teljist maður sem fær endurgjald fyrir starfa sem hann innir af hendi á ábyrgð launagreiðanda. Í 5. gr. laga nr. 45/1987 er fjallað um hverjar greiðslur teljist til launa samkvæmt lögunum, sbr. ennfremur 6. gr. sem fjallar um reiknað endurgjald í staðgreiðslu. Samkvæmt 1. tölul. 5. gr. laganna telst til launa samkvæmt lögunum endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, dagpeningar, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til staðgreiðsluskyldra launa, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi.

Samkvæmt framansögðu eru lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, afdráttarlaus um að hvers konar starfstengd fríðindi og hlunnindi launamanna teljist til staðgreiðsluskyldra launa í skilningi laganna, sbr. 1. tölul. 5. gr. þeirra. Er og sérstaklega tekið fram í 1. mgr. 15. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 90/1987, að við ákvörðun launa og afdrátt skuli bætt við fjárhæð launa að meðtöldu orlofsfé skattskyldum hlunnindum samkvæmt mati ríkisskattstjóra, sbr. nú 118. gr. laga nr. 90/2003. Verður því að fallast á með skattstjóra að hlunnindi starfsmanna kæranda vegna líkamsræktarstyrkja, sem málið varðar, hafi verið staðgreiðsluskyld samkvæmt lögum nr. 45/1987, sbr. 1. tölul. 5. gr. þeirra. Bar því að reikna staðgreiðslu af hlunnindunum og standa skil á staðgreiðslufé til innheimtumanns samkvæmt 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 7. gr. sömu laga. Með vísan til framangreinds og þar sem því hefur ekki verið haldið fram í málinu að starfsmannafélagi kæranda hafi sem milligöngumanni um hinar umdeildu greiðslur borið að sinna staðgreiðsluskyldum vegna þeirra, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987, verður að hafna kröfu kæranda varðandi þennan þátt málsins. Vegna tilvísunar kæranda til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal tekið fram að í málinu er um að ræða úrlausn ágreinings um staðgreiðsluskyldu á grundvelli gildandi réttarreglna þar að lútandi. Verður því ekki talið að ákvörðun skattstjóra brjóti á neinn hátt í bága við ákvæði 12. gr. laga nr. 37/1993 hvað sem líður meðferð hinna umdeildu útgjalda í almennum skattskilum kæranda vegna rekstraráranna 2004, 2005 og 2006 og möguleikum skattstjóra til leiðréttinga á skattframtölum félagsins í því sambandi.

Um tryggingariðgjöld:

Með bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 30. október 2007, var lagt fyrir félagið að láta í té upplýsingar um greiðslur félagsins á líf- og/eða sjúkdómatryggingaiðgjöldum vegna starfsmanna þau ár sem málið tekur til og hvort slíkar greiðslur hefðu verið gefnar upp á launamiðum. Samkvæmt svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 20. júní 2008, greiddi kærandi fyrir líftryggingu starfsmanna hjá félaginu á greindum árum og kom fram að slíkar greiðslur hefðu numið samtals 9.500.000 kr. rekstrarárið 2004, 11.304.746 kr. rekstrarárið 2005 og 14.041.800 kr. rekstrarárið 2006. Þá kom fram að kærandi hefði einnig greitt tryggingaiðgjöld vegna hóps annarra starfsmanna og að um hefði verið að ræða „líf- og slysatryggingu“. Hefðu slíkar greiðslur numið samtals 5.088.150 kr. á árinu 2004, 4.537.500 kr. á árinu 2005 og 5.546.500 kr. á árinu 2006. Bréfinu fylgdi nánari sundurliðun þar sem fram komu upplýsingar um viðkomandi starfsmenn kæranda og tryggingafjárhæðir og iðgjöld vegna hvers og eins þeirra. Eins og hér að framan er rakið leit skattstjóri svo á að um staðgreiðsluskyld hlunnindi væri að ræða, enda yrði að telja kostnað vegna líftrygginga starfsmanna hjá kæranda persónulegan kostnað þeirra sjálfra en ekki frádráttarbæran rekstrarkostnað félagsins. Að því er snertir kostnað vegna trygginga annarra starfsmanna, þ.e. „líf- og slysatrygginga“, tók skattstjóri fram að kærandi hefði ekki gert grein fyrir „eðli þeirrar tryggingar eða sett fram sundurliðun á því hvernig umrædd iðgjöld skiptust“, eins og sagði í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 9. október 2008. Benti skattstjóri á í því sambandi að fæli „slysa- eða sjúkdómatrygging“ í sér greiðslu dagpeninga, þ.e. greiðslu tiltekinnar fjárhæðar á dag vegna sjúkdóms eða slyss, væri heimilt að færa iðgjöld vegna slíkrar tryggingar til gjalda í skattskilum án þess að það kæmi skattskilum starfsmanns við, enda væri atvinnurekandinn þá að tryggja sig gegn forföllum starfsmanns. Ef tryggingin fæli hins vegar í sér rétt til greiðslu örorkubóta til starfsmanns vegna slyss eða sjúkdóms þá teldist kostnaður við slík tryggingakaup ekki til rekstrarkostnaðar í skattalegu tilliti heldur yrði litið á kostnaðinn sem persónuleg útgjöld þess er nyti og farið með á sama hátt og kostnað vegna líftrygginga, sbr. hér að framan, enda væri starfsmaður þá hinn vátryggði og þar með rétthafi bóta. Vísaði skattstjóri í þessum efnum til sjónarmiða í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra frá 16. janúar 2003 nr. 03-002 („Sjúkdóma- og líftryggingar hjá rekstraraðilum“).

Eins og áður greinir teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi, sbr. og 1. mgr. B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Iðgjöld vegna líftrygginga starfsmanna kæranda teljast vera persónulegur kostnaður þeirra og í skatt- og úrskurðaframkvæmd hefur verið lagt til grundvallar að útgjöld launagreiðenda vegna kaupa á slíkum tryggingum fyrir starfsmenn teljist ekki til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, enda sé ekki um að ræða kostnað sem leiðir af almennum kjarasamningum, sbr. t.d. úrskurði yfirskattanefndar nr. 807/1997, 1009/1997 og 1053/1997 sem allir eru birtir á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is). Samkvæmt þessu verður að fallast á með skattstjóra að greiðsla kæranda á persónulegum útgjöldum starfsmanna vegna líftrygginga teljist til skattskyldra tekna viðkomandi starfsmanna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Þá verður sömuleiðis að telja að hlunnindi starfsmanna kæranda vegna slíkra tryggingakaupa hafi verið staðgreiðsluskyld samkvæmt lögum nr. 45/1987, sbr. 1. tölul. 5. gr. þeirra. Bar því að reikna og standa skil á staðgreiðslufé af slíkum hlunnindum til innheimtumanns samkvæmt 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 7. gr. sömu laga.

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður að hafna kröfu kæranda að því er snertir greiðslur vegna starfsmanna að fjárhæð 9.500.000 kr. rekstrarárið 2004, 11.304.746 kr. rekstrarárið 2005 og 14.041.800 kr. rekstrarárið 2006, enda liggur fyrir að alfarið var um kostnað vegna líftrygginga að ræða. Verður ekki fallist á með kæranda að ákvörðun skattstjóra varðandi þetta atriði sé á einhvern hátt andstæð skattframkvæmd eða jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda er ekki að neinu leyti um að ræða iðgjöld af slysatryggingum.

Víkur þá að iðgjaldagreiðslum vegna annarra starfsmanna sem námu 5.088.150 kr. á árinu 2004, 4.537.500 kr. á árinu 2005 og 5.546.500 kr. á árinu 2006 samkvæmt því sem fram kom í bréfi kæranda, dags. 20. júní 2008. Eins og hér að framan er rakið kom fram í bréfi þessu að um væri að tefla „líf- og slysatryggingu“ viðkomandi starfsmanna, sbr. og sundurliðun yfir iðgjaldagreiðslur vegna starfsmanna sem fylgdi bréfinu þar sem greiðslur skiptust í iðgjöld vegna líftryggingar annars vegar og slysatryggingar hins vegar. Verður því ekki annað séð en að ranghermt sé í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 9. október 2008, að kærandi hafi ekki lagt fram sundurliðun umræddra tryggingariðgjalda. Þá er ljóst, miðað við forsendur og rökstuðning skattstjóra í málinu, að nauðsynlegt var og í samræmi við rannsóknarskyldur skattstjóra að lögum, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að skattstjóri aflaði nánari upplýsinga eða gagna um eðli þeirra trygginga sem um ræðir, eftir atvikum frá viðkomandi vátryggingafélagi, ellegar skoraði sérstaklega á kæranda að leggja slík gögn fram, enda leit skattstjóri svo á að hluti þessara iðgjalda væri mögulega frádráttarbær frá tekjum kæranda og félli utan staðgreiðsluskyldu, sbr. hér að framan. Verður því að fallast á með kæranda að misbrestur var á því að skattstjóri sæi til þess að málið væri nægjanlega upplýst að þessu leyti, sbr. fyrrgreint ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð skattstjóra verður ekki hjá því komist að ómerkja breytingar hans á staðgreiðsluskilum kæranda vegna umræddra iðgjalda að fjárhæð 5.088.150 kr. staðgreiðsluárið 2004, 4.537.500 kr. staðgreiðsluárið 2005 og 5.546.500 kr. staðgreiðsluárið 2006. Er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til þessa kæruatriðis.

Um félagsgjöld:

Að virtum gögnum málsins, þar á meðal um meðferð þessara útgjalda í skattskilum kæranda, og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda varðandi þetta kæruatriði.

Um álag á vangreidda staðgreiðslu:

Eftir stendur þá umfjöllun um álagsbeitingu skattstjóra, en eins og fram er komið ákvarðaði skattstjóri kæranda álag á vanskilafé í staðgreiðslu samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Af hálfu kæranda er álagsbeitingu skattstjóra mótmælt. Kemur m.a. fram í kæru til yfirskattanefndar að skattframkvæmd á liðnum árum hafi ekki gefið neitt tilefni til að ætla að kæranda bæri að standa skil á staðgreiðslu af hinum umþrættu greiðslum vegna starfsmanna félagsins.

Í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 er boðið að launagreiðandi skuli sæta álagi til viðbótar skilaskyldri staðgreiðslu samkvæmt lögunum ef greiðsla er eigi innt af hendi á tilskildum tíma. Samkvæmt 6. mgr. 28. gr. laganna má fella niður álag ef launagreiðandi færir gildar ástæður sér til afsökunar og skal skattstjóri meta það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Fyrir liggur að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 þar sem kærandi innti ekki skilaskylda staðgreiðslu opinberra gjalda af hendi á gjalddaga. Ekki verður talið að kærandi hafi með fyrrgreindum skýringum fært fram gildar ástæður sér til afsökunar þannig að efni séu til að taka kröfu um niðurfellingu álags til greina, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna vangreiddrar staðgreiðslu því hafnað. Í samræmi við niðurstöðu málsins ber hins vegar að leiðrétta hið umdeilda álag til lækkunar.

Um skattstofna:

Eins og bent er á í kæru til yfirskattanefndar er ekki samræmi í tölulegum tilgreiningum annars vegar í meginmáli úrskurðar skattstjóra og hins vegar í úrskurðarorðum að því er varðar breytingar á stofni til tryggingagjalds. Verður ekki betur séð en að skattstjóra hafi láðst að tilgreina í úrskurðarorðum aðrar breytingar á tryggingagjaldi samkvæmt úrskurðinum en vegna félagsgjalda. Gjaldbreytingar skattstjóra byggðust á fjárhæðum samkvæmt úrskurðarorðum. Þá er þess að geta að gjaldbreyting tryggingagjalds samkvæmt úrskurði skattstjóra kom ekki til framkvæmda gjaldárið 2006. Það leiðir af þessu að þrátt fyrir niðurstöðu í úrskurði þessum verða engar breytingar gerðar á stofni til tryggingagjalds kæranda gjaldárið 2006. Þá munu gjaldbreytingar tryggingagjalds gjaldárin 2005 og 2007 samkvæmt úrskurði þessum taka mið af breytingum skattstjóra eins og þær urðu í reynd. Tekið skal fram að þrátt fyrir umfjöllun í úrskurði skattstjóra um frádráttarbærni tryggingagjalds, sbr. 23. gr. laga nr. 113/1990, og hækkun rekstrarkostnaðar af þeirri ástæðu, kom sú breyting á rekstrarkostnaði kæranda ekki til framkvæmda af hálfu skattstjóra. Ekki verður séð að skattbreytingaseðlar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda hafi fylgt úrskurði skattstjóra. Er því beint til ríkisskattstjóra að annast um þær breytingar á skilaskyldri staðgreiðslu kæranda sem leiða af niðurstöðu þessa úrskurðar.

Um málskostnað:

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Með vísan til framanritaðs og með hliðsjón af framlögðum gögnum um kostnað kæranda af rekstri málsins þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 200.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda varðandi staðgreiðslu af félagsgjöldum. Breyting skattstjóra á staðgreiðslu vegna iðgjalda að fjárhæð 5.088.150 kr. staðgreiðsluárið 2004, 4.537.500 kr. staðgreiðsluárið 2005 og 5.546.500 kr. staðgreiðsluárið 2006 er felld úr gildi. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 200.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja