Úrskurður yfirskattanefndar
- Eftirgjöf skulda
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 261/2011
Gjaldár 2010
Lög nr. 90/2003, 95. gr., 96. gr.
Sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda, að hækka launatekjur frá X hf. vegna meintrar eftirgjafar á skuld kæranda við félagið, var ómerkt með því að ríkisskattstjóri gætti þess ekki að gefa kæranda kost á að leggja fram skýringar og gæta réttar síns að öðru leyti áður en skattframtalinu var breytt á hinn umdeilda veg.
I.
Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 2010 tilfærði kærandi laun frá X hf. að fjárhæð 88.706.400 kr.
Með bréfi, dags. 23. júlí 2010, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um þá breytingu á skattframtali árið 2010 að kæranda hefði verið færð til tekna sem laun eftirgjöf vaxta frá X hf. að fjárhæð 33.800.069 kr. þar sem ekki yrði annað séð en að um skattskyldar tekjur kæranda væri að ræða, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í bréfinu greindi ríkisskattstjóri frá því að embættinu hefði borist verktakamiði frá X hf. þar sem tilgreind væri verktakagreiðsla til kæranda að fjárhæð 122.506.469 kr. á árinu 2009. Við nánari athugun hefði komið í ljós að greiðslan væri byggð á samkomulagi sem X hf. hefði gert við kæranda um niðurfellingu skuldar og vaxta á árinu 2009. Rakti ríkisskattstjóri efni þess samkomulags og gat þess að m.a. hefði verið um að ræða uppgjör á skuld kæranda við X hf. vegna láns sem félagið hefði veitt kæranda á árinu 2008. Með samkomulaginu hefði kærandi fallist á að greiða 50% af höfuðstól lánsins eða 88.706.400 kr., en áfallnir vextir af láninu að fjárhæð 33.800.069 kr. hefðu verið gefnir eftir. Hinir niðurfelldu vextir væru þannig hluti fjárhæðar sem gefin hefði verið upp á verktakamiða X hf. Umrædd eftirgjöf skuldar og vaxta hefði tengst starfslokum kæranda hjá X hf. á árinu 2008, svo sem fram kæmi í samkomulaginu. Var þessu lýst nánar í bréfinu. Þá tók ríkisskattstjóri fram að ekki yrði séð að eftirgjöf skuldarinnar hefði tengst nokkrum öðrum málefnum en lokauppgjöri félagsins við kæranda vegna launakrafna. Eftirgjöfina bæri því að telja til skattskyldra tekna kæranda, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, þar á meðal eftirgjöf vaxta, enda yrði ekki annað ráðið en að eftirgefnir vextir teldust til skattskyldra tekna á sama hátt og eftirgefinn höfuðstóll, sbr. fyrrgreint lagaákvæði, þegar eftirgjöf væri veitt í beinum tengslum við launauppgjör og starfslokagreiðslur. Ekki væri þannig um að ræða eðlilegan og venjulegan afslátt á vaxtakröfu í tengslum við uppgjör heldur væri öll vaxtakrafan felld niður, sem þætti óvenjulegt og gæti eingöngu byggst á því að um væri að ræða uppgjör launa í beinum tengslum við starfslokasamning.
Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 26. ágúst 2010, var framangreindri breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2010 mótmælt. Í kærunni kom fram að þær upplýsingar, sem ríkisskattstjóri hefði aflað frá X hf. um samkomulag félagsins við kæranda á árinu 2009, væru ekki fyllilega nákvæmar og að hluta til rangar, svo sem nánar var rakið. Fram kom að ekki væri þó neinn ágreiningur um að kærandi hefði ekki fengið neinar verktakagreiðslur frá X hf. á árinu 2009 þar sem samkomulag aðila hefði einkum lotið að uppgjöri launa vegna starfsloka kæranda hjá félaginu og skuldar vegna láns sem kærandi hefði fengið á árinu 2008. Kærandi gerði á hinn bóginn athugasemdir við útreikning X hf. á fjárhæð vaxta af fyrrnefndri skuld, þ.e. samningsvaxta og dráttarvaxta að fjárhæð samtals 33.800.069 kr., enda væri ekkert tillit tekið til samkomulags aðila um uppgjöf og skuldajöfnuð við þann útreikning. Var gerð nánari grein fyrir þessu í kærunni og bent á að með tölvupósti til kæranda hinn 17. ágúst 2010 hefði X hf. lagt fram leiðréttan útreikning á vöxtum. Kærandi liti svo á að þar sem samkomulag aðila í öndverðu hefði ekki gert ráð fyrir neinum vöxtum yrði ekki talið að um neina eftirgjöf vaxta væri að ræða í tilviki kæranda. Var þess aðallega krafist í kærunni að hin kærða tekjufærsla á eftirgjöf vaxta yrði felld niður sem og álagning tryggingagjalds, enda væri ekki um að ræða verktakagreiðslur til kæranda. Til vara var þess krafist að tekjufærsla vegna eftirgjafar á vöxtum yrði lækkuð í 18.511.319 kr. til samræmis við meðfylgjandi leiðréttan útreikning X hf. á vöxtum miðað við efni samkomulags aðila á árinu 2009. Til þrautavara krafðist umboðsmaður kæranda þess að dráttarvaxtahluti hinna tekjufærðu vaxta yrði felldur niður sem hefði í för með sér að tekjufærsla lækkaði um 11.011.084 kr.
Með kæruúrskurði, dags. 3. nóvember 2010, felldi ríkisskattstjóri niður álagningu tryggingagjalds á kæranda að fjárhæð 9.070.373 kr. Að öðru leyti hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda.
II.
Með kæru, dags. 31. janúar 2011, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. nóvember 2010, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess aðallega krafist að breytingar ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2010 verði felldar úr gildi. Til vara er þess krafist að tekjufærsla vegna eftirgjafar á vöxtum verði lækkuð í 22.788.985 kr. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði að fjárhæð 875.000 kr., sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Í kærunni er gangur málsins rakinn. Er m.a. fundið að því að ríkisskattstjóri hafi lagt rangar upplýsingar frá starfsmönnum X hf. í bréfi, dags. 9. júní 2010, til grundvallar í málinu án þess að afla nánari skýringa frá félaginu á misræmi milli þeirra upplýsinga annars vegar og efnisatriða fyrirliggjandi samkomulags aðila frá árinu 2009 hins vegar. Ríkisskattstjóra hafi þó verið í lófa lagið að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst að þessu leyti. Varðandi efnisatriði málsins er ítrekað að kærandi hafi talið fram launatekjur að fjárhæð 88.706.400 kr. í skattframtali sínu árið 2010 í samræmi við umrætt samkomulag við X hf. Sé aðalkrafa kæranda byggð á því að ekki hafi verið um að ræða neina eftirgjöf vaxta til hans af hendi X hf., m.a. þar sem kærandi hefði lýst yfir skuldajöfnuði vegna krafna sinna á hendur félaginu áður en lánssamningur kæranda féll í gjalddaga. Sömuleiðis hafi yfirlýsing kæranda um skuldajöfnuð haft í för með sér að engin dráttarvaxtakrafa hafi getað stofnast, sbr. um réttarstöðu við skuldajöfnuð dóm Hæstaréttar Íslands frá 2. desember 2010 í málinu nr. 185/2010. Engir dráttarvextir hafi því verið gefnir eftir, enda hafi aldrei til þeirra stofnast, sbr. varakröfu kæranda. Í niðurlagi kærunnar kemur fram að málskostnaðarkrafa kæranda sé til komin vegna 32 klukkustunda vinnu lögmanns hans við málið.
III.
Með bréfi, dags. 29. apríl 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. maí 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, getur ríkisskattstjóri leiðrétt fjárhæðir einstakra liða í skattframtali ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild ríkisskattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga, um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eins og fram er komið byggði ríkisskattstjóri hina kærðu breytingu sína á skattframtali kæranda árið 2009, sem laut að hækkun launatekna frá X hf. vegna meintrar eftirgjafar á skuld kæranda við félagið, á upplýsingum og gögnum sem ríkisskattstjóri aflaði frá X hf. með bréfi, dags. 31. maí 2010, á grundvelli 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003. Að þessu athuguðu og eins og sakarefni málsins er vaxið verður hvorki talið að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en ríkisskattstjóri tók ákvörðun sína með bréfi, dags. 23. júlí 2010, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né að staðist hafi að kærandi fengi ekki neytt andmælaréttar síns áður en breytingin var ákveðin, sbr. 13. gr. sömu laga. Voru ekki skilyrði til þess að ríkisskattstjóri færi með umrædda breytingu eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, heldur bar honum að fylgja ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga. Af þessum sökum verður að ómerkja hina kærðu breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2010. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Með hliðsjón af því sem fram er komið um kostnað kæranda af málinu og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu slíks kostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 250.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hin kærða breyting ríkisskattstjóra er felld úr gildi. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 250.000 kr.