Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður hlutabréfa
  • Álag

Úrskurður nr. 285/2011

Gjaldár 2005

Lög nr. 90/2003, 18. gr., 108. gr. 2. mgr.  

Í úrskurði yfirskattanefndar var kröfu kærenda um niðurfellingu 25% álags á vantalinn söluhagnað hlutabréfa hafnað.

I.

Með kæru, dags. 14. janúar 2011, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. desember 2010, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárin 2005, 2007 og 2008. Með úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri ýmsar breytingar á skattframtölum kærenda árin 2005, 2006, 2007, 2008 og 2009 sem þó leiddu einungis til breytinga á álögðum opinberum gjöldum kærenda gjaldárin 2005, 2007 og 2008. Kæruefni málsins varðar þá ákvörðun ríkisskattstjóra að færa til skattskyldra tekna í skattframtali kærenda árið 2005 söluhagnað hlutabréfa að fjárhæð 38.259.924 kr. vegna sölu hlutabréfa í X hf. á árinu 2004, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 við þá hækkun skattstofna kærenda gjaldárið 2005 sem af þeirri breytingu leiddi og nam fjárhæð álagsins 9.564.981 kr. Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, A, dags. 14. júní 2010, og svarbréf hennar, dags. 8. júlí 2010, og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 8. nóvember 2010, og svarbréf kærenda, dags. 10. desember 2010. Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að um væri að ræða vanframtalinn söluhagnað hlutabréfa og þar sem um vantaldar tekjur væri að ræða, þ.e. verulegan annmarka á framtali, þættu ekki standa rök til annars en að beita 25% álagi á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Ekki hefðu verið færð fram gild rök fyrir því að kærendum yrði ekki kennt um annmarkana, sbr. ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Þá benti ríkisskattstjóri á að skattaðili gæti ekki losnað undan ábyrgð á annmörkum skattframtals með því að fela öðrum aðila gerð þess og skil, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 145/2004. Vegna athugasemda kærenda, sem lutu að því að við framtalsgerð vegna sölu hlutabréfa hefðu þau stuðst við fyrirliggjandi gögn frá viðkomandi fjármálastofnun, þ.e. Íslandsbanka hf., sem af einhverjum ástæðum hefðu einungis tilgreint viðskipti með hlutabréf á seinni hluta ársins 2004, en ekki viðskipti sem farið hefðu fram á fyrri hluta sama árs, tók ríkisskattstjóri fram að kærendum hefði mátt vera ljóst að verulega skorti á að umrædd yfirlit gerðu grein fyrir öllum viðskiptum þeirra þar sem alveg skorti að gerð hefði verið grein fyrir viðskiptum á tímabilinu janúar til júní 2004.

Í kæru umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar er þess krafist að 25% álag á hækkun skattstofna kærenda gjaldárið 2005 verði fellt niður og að kærendum verði einnig úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni er ítrekað að við gerð skattframtals árið 2005 hafi kærendur stuðst við fyrirliggjandi gögn frá fjárvörsluaðila, þ.e. Íslandsbanka hf. Er bent á að á greindum tíma hafi upplýsingar um kaup og sölu hlutabréfa ekki verið forskráðar í skattframtöl, en skattframtal kærenda umrætt ár hafi verið gert í samræmi við meðfylgjandi yfirlit frá Íslandsbanka hf. Af einhverjum ástæðum væri í yfirlitinu eingöngu getið um hlutabréfaviðskipti kærenda á seinni hluta ársins 2004. Kærendur hefðu ekki gert sér grein fyrir þessu fyrr en að fengnu bréfi ríkisskattstjóra, dags. 14. júní 2010. Engar skýringar hefðu fengist frá Íslandsbanka hf. á þessu. Sé farið fram á að álag verði fellt niður þar sem kærendur hafi við framtalsgerð byggt á gögnum frá skattstjóra og bankastofnunum.

II.

Með bréfi, dags. 11. mars 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu ríkisskattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. mars 2011, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Kæra í máli þessu lýtur einungis að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 20. desember 2010, að beita 25% álagi á hækkun skattstofna kærenda gjaldárið 2005, þ.e. stofn til fjármagnstekjuskatts, sem leiddi af breytingu hans vegna söluhagnaðar hlutabréfa, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eru breytingar ríkisskattstjóra að öðru leyti ágreiningslausar og koma ekki til umfjöllunar. Er krafa kærenda um niðurfellingu álags studd þeim rökum að þau hafi við framtalsgerð byggt á fyrirliggjandi upplýsingum fjárvörsluaðila, þ.e. Íslandsbanka hf., um hlutabréfaviðskipti á árinu 2004 sem reynst hafi rangar af ókunnum ástæðum, sbr. kafla II hér að framan.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattframtali kærenda umrætt ár, þar sem engin grein var gerð fyrir verulegum skattskyldum hagnaði af sölu hlutabréfa í X hf., þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kærenda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kærenda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu kærenda um niðurfellingu álags því hafnað. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kærenda, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja