Úrskurður yfirskattanefndar

  • Útbúið skattframtal
  • Álag

Úrskurður nr. 292/2011

Gjaldár 2009

Lög nr. 90/2003, 90. gr. 7. mgr. (brl. nr. 164/2008, 6. gr.), 108. gr. 1. og 2. mgr.  

Ríkisskattstjóri færði kæranda til tekna í skattframtali árið 2009 vanframtaldar vaxtatekjur og söluhagnað hlutabréfa að viðbættu 25% álagi. Kærandi benti á að hann hefði ekki talið fram til skatts umrætt ár og að skattframtalið hefði verið útbúið af skattstjóra á grundvelli fyrirliggjandi framtalsupplýsinga. Yfirskattanefnd taldi verða að byggja á því að kærandi hefði ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests umrætt ár. Af því leiddi að um álagsákvörðun hefði borið að fara eftir 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 en ekki 2. mgr. sömu lagagreinar. Var því fallist á kröfu kæranda um lækkun álagsfjárhæðar úr 25% í 15% af skattstofni.

I.

Með kæru, dags. 24. febrúar 2011, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 2010, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009. Með úrskurði þessum hækkaði ríkisskattstjóri fjármagnstekjuskattsstofn kæranda umrætt gjaldár um 147.408.398 kr. annars vegar vegna skattlagningar söluhagnaðar hlutabréfa að fjárhæð 143.145.695 kr. vegna sölu hlutabréfa í X hf. og Y ehf. á árinu 2008, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga, og hins vegar vegna skattlagningar vaxtatekna að fjárhæð 4.262.703 kr., sbr. 8. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 3. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 við þá hækkun sem leiddi af tekjufærslu söluhagnaðar hlutabréfa og nam fjárhæð álagsins 35.786.424 kr. Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 3. ágúst 2010, sbr. ítrekun í bréfi, dags. 30. sama mánaðar, og svarbréf (tölvupóst) umboðsmanns kæranda, dags. 8. október 2010, og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 25. október 2010, sem ekki urðu nein viðbrögð við af hendi kæranda. Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að um væri að ræða vanframtalinn söluhagnað hlutabréfa og vaxtatekjur, enda hefði kærandi enga grein gert fyrir viðskiptum með umrædd verðbréf í skattframtali sínu árið 2009. Þar sem um vantaldar tekjur væri að ræða, þ.e. vanframtalinn söluhagnað hlutabréfa, þættu ekki standa rök til annars en að beita 25% álagi á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, enda væri um að ræða verulega annmarka á skattframtali kæranda og ekki verið færð fram gild rök fyrir því að kæranda yrði ekki kennt um annmarkana, sbr. ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að álag verði lækkað úr 25% í 15% eða úr 35.786.424 kr. í 21.471.854 kr. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til afdreginnar staðgreiðslu af vaxtatekjum að fjárhæð 426.270 kr. Farið er fram á að 2,5% álag vegna verðbóta verði leiðrétt til samræmis. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði að fjárhæð 60.000 kr. vegna alls fimm klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda við málið. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2009 og af þeim sökum sætt áætlun skattstofna umrætt gjaldár. Kærandi hafi gert tilraun til þess að telja fram til skatts á netinu á miðju ári 2009, en ekki komist inn í rafrænt framtalseyðublað þar sem upplýsingar hefðu komið fram um að framtali hefði þegar verið skilað. Í tilefni af bréfum ríkisskattstjóra, dags. 3. og 30. ágúst 2009, hefði kærandi gengið frá skattframtali á pappír og sent ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 8. október 2010. Sé þar um að ræða hans fyrstu og einu framtalsskil á árinu 2009. Ljóst sé samkvæmt framansögðu að ekki sé um að ræða vanframtalda skattstofna í tilviki kæranda, enda hafi upphaflegt skattframtal hans árið 2009 verið útbúið af skattstjóra og verið byggt á gögnum frá launagreiðendum og bönkum. Með vísan til 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 sé þess því krafist að álag verði 15% í stað 25%.

II.

Með bréfi, dags. 29. apríl 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Umboðsmaður kæranda gerir þá kröfu í kæru að ríkisskattstjóri lækki álag vegna skattlagningar tekna ársins 2008 úr 25% í 15% þar sem ekki hafi verið um vantalda skattstofna að ræða heldur hafi skattframtali 2009 verið skilað einu sinni með innsendingu 8. október 2010.

Hið rétta er að kærandi skilaði skattframtali 2009 þann 12. júní 2009, en í því framtali voru vanframtaldar fjármagnstekjur vegna vaxtatekna og söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfa á árinu 2008. Kærandi skilaði síðan inn leiðréttu skattframtali 15. október 2010, þ.e. eftir álagningu. Með vísan til 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, var ríkisskattstjóra því heimilt að leggja 25% álag á vantalda skattstofna.

Umboðsmaður kæranda fer fram á endurútreikning 2,5% álags vegna verðbóta. þar sem ekki hafi verið tekið tillit til afdreginnar staðgreiðslu af fjármagnstekjum að fjárhæð kr. 426.270 við útreikning verðbótaþáttar álagsins.

Þykir mega fallast á kröfu umboðsmanns kæranda um að tekið verði tillit til framangreindrar staðgreiðslu við útreikning 2,5% álags vegna verðbótaþáttar þar sem umboðsmaður hefur nú lagt fram gögn er renna stoðum undir þá kröfu hans.

Að framagreindu virtu er krafist staðfestingar á álagsbeitingu ríkisskattstjóra a.ö.l. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. maí 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 23. maí 2011, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu kemur fram að ranghermt sé í kröfugerð ríkisskattstjóra að kærandi hafi staðið skil á skattframtali 12. júní 2009. Er í því sambandi skírskotað til meðfylgjandi yfirlits yfir framtalsskil kæranda á liðnum árum, sem prentað hafi verið út af vef ríkisskattstjóra, þar sem fram komi að skattframtal árið 2009 hafi þegar verið fullgert af skattstjóra. Umrætt skattframtal, sem skilað hafi verið í júní 2009, hafi því verið gert af skattstjóra en ekki kæranda. Sé krafa kæranda um lækkun álags því áréttuð.

Með bréfi, dags. 15. júlí 2011, hefur ríkisskattstjóri lagt fram framhaldskröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda. Kemur þar fram að kröfugerð embættisins frá 29. apríl 2011 sé ítrekuð þar sem ekki verði séð að nein ný gögn eða málsástæður komi fram í bréfi kæranda, dags. 23. maí 2011.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. júlí 2011, var kæranda sent ljósrit af framhaldskröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 28. júlí 2011, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu er vísað til meðfylgjandi ljósrits af álagningarseðli kæranda gjaldárið 2009 þar sem skýrlega komi fram að álagningin sé byggð á skattframtali sem útbúið hafi verið af skattstjóra, sbr. 7. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003. Líta beri á umrætt skattframtal skattstjóra sem ígildi áætlunar. Þá sé ljóst að ákvæði 7. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 hafi engan veginn getað tekið til kæranda á greindum tíma í ljósi umsvifa hans, t.d. vegna verðbréfaeignar. Hafi og komið á daginn að verulegar eignabreytingar hafi átt sér stað á árinu 2008 sem ríkisskattstjóri hafi ekki haft neinar upplýsingar um.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er ríkisskattstjóra heimilt, telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests, að bæta allt að 15% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar. Berist framtal, sem álagning verður byggð á, eftir lok framtalsfrests, en áður en álagningu ríkisskattstjóra er lokið, má þó aðeins bæta 0,5% álagi á skattstofna fyrir hvern dag sem skil hafa dregist fram yfir frestinn, þó ekki hærra álagi en 10%. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisskattstjóra heimilt, séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr. laganna, eða einstakir liðir ranglega fram taldir, að bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó ekki beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Í kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu, dags. 29. apríl 2011, er því haldið fram að kærandi hafi staðið skil á skattframtali árið 2009 hinn 12. júní 2009 þar sem engin grein hafi verið gerð fyrir söluhagnaði vegna sölu hlutabréfa á árinu 2008. Af gögnum málsins, þ.m.t. gögnum sem kærandi hefur lagt fram með bréfum sínum, dags. 23. maí og 28. júlí 2011, verður þó ekki annað séð en að álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009 hafi byggst á skattframtali útbúnu af skattstjóranum í Vesturlandsumdæmi á grundvelli heimildar í 7. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 6. gr. laga nr. 164/2008, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að hafi framtalsskyldur maður ekki sinnt framtalsskyldu samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 sé skattstjóra heimilt að útbúa skattframtal á viðkomandi með fyrirliggjandi framtalsupplýsingum, enda telji skattstjóri þær fullnægjandi. Er tekið fram að þannig gert skattframtal skuli auðkennt sérstaklega og réttaráhrif þess séu þau sömu og áætlunar samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt framansögðu verður að byggja á því að kærandi hafi ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 2009. Af því þykir leiða að um álagsákvörðun hafi borið að fara eftir ákvæðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 en ekki 2. mgr. sömu lagagreinar. Er krafa kæranda um lækkun á fjárhæð álags úr 35.786.424 kr. í 21.471.854 kr. því tekin til greina. Þá er fallist á kröfu kæranda um að tekið verði tillit til afdreginnar staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 426.270 kr., sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra. Það leiðir af framangreindum niðurstöðum úrskurðarins að fjárhæð 2,5% álags samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laga nr. 90/2003 lækkar til samræmis, sbr. kröfu kæranda þar að lútandi.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Af hálfu kæranda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hans vegna meðferðar málsins, en gerð er grein fyrir slíkum kostnaði í kæru til yfirskattanefndar. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 60.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfur kæranda. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 60.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja