Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsnæðishlunnindi
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 484/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 116. gr.   Lög nr. 45/1987, 5. gr.   Reglugerð nr. 334/1982, 5. gr.   Skattmat í staðgreiðslu árið 1995   Skattmat fyrir tekjuárið 1995  

Yfirskattanefnd synjaði kröfu kæranda um frádrátt frá tekjufærðum húsnæðishlunnindum vegna hitunar- og rafmagnskostnaðar viðkomandi húsnæðis með því að engin heimild væri til frádráttar á slíkum kostnaði.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996 og sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda barst skattstjóra þann 15. ágúst 1996 og var það tekið sem kæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæruúrskurði, dags. 16. september 1996, féllst skattstjóri á að leggja skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 með tilgreindum breytingum. Skattstjóri færði kæranda til tekna húsnæðishlunnindi að fjárhæð 93.744 kr. Kom fram hjá skattstjóra að hlunnindi þessi væru reiknuð út frá fasteignamati 6.833.000 kr., fjölskyldustærð og skattmati ríkisskattstjóra. Varðandi fasteignamat vísaði skattstjóri til bréfs umboðsmanns kæranda, dags. 4. september 1996. Ekki er ágreiningur um aðrar breytingar skattstjóra.

Með kæru, dags. 10. október 1996, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni tekur hann fram að húsnæðishlunnindi sín hafi verið ákvörðuð út frá fasteignamati þess íbúðarhúss sem hann hafi til umráða. Húsið sé 300 m2 að stærð og sé ljóst að lítil fjölskylda, hjón með tvö lítil börn, nýti ekki nema um það bil helming þessa rýmis. Hins vegar þurfi þau að kynda allt húsið og það sé kostnaðarsamt eins og meðfylgjandi ljósrit af orkureikningum sýni. Fer kærandi fram á að 50% af rafmagnskostnaði verði dreginn frá húsnæðishlunnindunum, þ.e. 83.071 kr. en það sé líkt og skattstjóri hafi fallist á vegna fyrra árs.

II.

Með bréfi, dags. 17. janúar 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra, sbr. auglýsingu nr. 3/1995, skal af endurgjaldslausum afnotum launamanns á orku (rafmagni og hita) reikna staðgreiðslu af kostnaðarverði. Endurgjaldslaus afnot launamanns á orku eru því hlunnindi sem talin eru að fullu til tekna á kostnaðarverði. Engin heimild er fyrir því að draga orkukostnað frá öðrum húsnæðishlunnindum þótt kærandi beri þann eðlilega kostnað sjálfur."

III.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal telja til tekna endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Þar með teljast til dæmis hvers konar biðlaun, starfslaun, fæði og húsnæði. Samkvæmt 116. gr. laga nr. 75/1981 skal ríkisskattstjóri árlega gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, teljast m.a. húsnæðishlunnindi til launa sem reikna skal staðgreiðslu af. Um mat húsnæðishlunninda tekjuárið 1995 fór eftir skattmatsreglum ríkisskattstjóra sem birtar voru með auglýsingu nr. 1/1995 í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt þeim skulu endurgjaldslaus afnot íbúðarhúsnæðis, sem launagreiðandi lætur launamanni sínum í té, metin launamanni til tekna og af þeim reiknuð staðgreiðsla. Fyrir ársafnot skal reikna 2,7% af gildandi fasteignamati íbúðarhúsnæðis (þ.m.t. bílskúr) og lóðar. Einnig skal reikna fulla staðgreiðslu af þeim hluta orkukostnaðar launamanns sem launagreiðandi hans greiðir. Í framangreindu skattmati kemur fram að ef starfi launþega fylgi kvöð um búsetu í húsnæði, sem vinnuveitandi lætur honum í té, þá sé skattstjóra heimilt að lækka mat húsnæðishlunninda með hliðsjón af ákvæðum 5. gr. reglugerðar nr. 334/1982 við álagningu opinberra gjalda á næsta ári eftir staðgreiðsluár, svo sem verið hafi. Í auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 4/1996 um skattmat tekjuárið 1995 (framtalsárið 1996) sem birt var með auglýsingu nr. 26/1996 í B-deild Stjórnartíðinda eru ekki ákvæði um framtal framangreindra hlunninda, sbr. hins vegar skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1994 (framtalsárið 1995), sem birt var með auglýsingu nr. 2/1995 í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem fram kemur að afnot íbúðarhúsnæðis og orku skuli meta til tekna í samræmi við reglur um staðgreiðslu 1994. Í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra 1996 (RSK 8.01) kemur fram að frí afnot af íbúðarhúsnæði sem vinnuveitandi lætur launþega í té skuli telja til tekna sem 2,7% af gildandi fasteignamati. Fylgi starfi kvöð um búsetu sé heimilt að lækka hlunnindamat skv. 5. gr. reglugerðar nr. 334/1982.

Í kæruúrskurði færði skattstjóri kæranda til tekna hlunnindatekjur vegna húsnæðis að fjárhæð 93.744 kr. Tók skattstjóri fram að hann byggði á fasteignamati 6.833.000 kr., fjölskyldustærð kæranda og skattmati ríkisskattstjóra. Í kæruúrskurði sínum gerði skattstjóri ekki frekari grein fyrir útreikningi hinna tekjufærðu hlunninda. Hins vegar er ljóst að við mat á hlunnindum kæranda hefur skattstjóri litið til heimildar í 5. gr. reglugerðar 334/1982, enda nema 2,7% af fasteignamati húsnæðisins 184.491 kr. Kærandi hefur gert þá kröfu að til frádráttar tekjufærðum hlunnindum komi 50% hitunar- og rafmagnskostnaðar. Engin heimild er til frádráttar á slíkum kostnaði. Að svo vöxnu er kröfu kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja