Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 171/1990

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 11. gr. 1. mgr. — 13. gr. 1. mgr. — 14. gr. 2. mgr. — 32. gr. — 44. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Söluhagnaður — Fasteign — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður fyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Lóð — Mannvirki — Söluhagnaður, útreikningur — Útreikningur söluhagnaðar — Uppgjörsaðferð söluhagnaðar — Söluhagnaður, uppgjörsaðferð — Stofnverð — Fyrning — Fyrning, sérstök — Sérstök fyrning — Sérstök fyrning á móti skattskyldum söluhagnaði — Fasteignamat ríkisins — Fasteignamatsverð — Endurákvörðun fasteignamatsverðs — Fasteignamatsverð notað í stað stofnverðs — Fyrnanleg eign

Málavextir eru þeir, að á árinu 1986 seldi kærandi fasteignir sínar í X, Reykjavík, og var söluverð þeirra samtals 19.760.000 kr. Nánar tiltekið seldi kærandi hús á lóðinni nr. .. við X auk eignarlóðanna nr. .. og .. við sömu götu. Bókfært verð húss nam 1.871.629 kr. Fasteignamatsverð lóðanna 1/12 1986 nam 8.947.000 kr. Í skattskilum sínum fyrir árið 1986 byggði kærandi á þessum verðum og taldi skattskyldan söluhagnað nema 8.941.371 kr. Á móti söluhagnaði þessum færði kærandi sérstaka fyrningu jafnháa söluhagnaðinum, sbr. 1. ml. 1. mgr. 13. gr. og 1. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hreinar tekjur kæranda í reit 62 námu 91.257 kr. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 var byggt á skattframtali kæranda óbreyttu.

Næst gerðist það, að með bréfi, dags. 28. febrúar 1989, sneri umboðsmaður kæranda sér til ríkisskattstjóra varðandi breytingu skattálagningar gjaldárið 1987. Segir svo í bréfi þessu:

„A eignaðist fasteign og lóð á árinu 1977 og hafði því heimild til þess að beita ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, við útreikning á stofnverði lóðarinnar. Vegna lækkunar á fasteignamati lóðarinnar 1980 að tilhlutan Borgarsjóðs var við útreikning á stofnverði lóðar miðað við gildandi fasteignamat, sem leiddi til skattskyldu sem mætt var með aukafyrningum. Við framtalsgerð 1989 tókum við eftir þessum mistökum okkar og viljum því leyfa okkur að óska eftir leiðréttingu á framtali 1987 vegna þessa.

Eftirfarandi upplýsingar og útreikningar ættu að nægja til þess að leiða fram rétta skattstofna:

* STOFNVERÐ LÓÐAR:

Fasteignamat lóðar 1/12 1979

211.830.000 : 100 x 13,1455 Kr. 27.846.113

Bókfært verð hússins „ 1.871.629

Kr. 29.717.742

Söluverð „ (19.760.000)

TAP Á SÖLU Kr. 9.957.742

* ÚTREIKNINGUR SÖLUHAGNAÐAR 1986:

Bókfært verð hússins 1986 Kr. 1.871.629

Fasteignamat lóðar 1/12 1986 „ 8.947.000

Kr. 10.818.629

Söluverð 1986 „ (19.760.000)

SÖLUHAGNAÐUR Á FRAMTALI 1987 Kr. 8.941.371

* TEKJUSKATTSTOFN SKV. FRAMTALI 1987:

Leiðréttingar:

Tekjur færðar á framtal Kr. 91.257

Bakfærður söluhagnaður „ (8.941.371)

Bakfærð aukafyrning „ 8.941.371

Tap á sölu fasteigna „ (9.957.742)

TAP YFIRFÆRT TIL NÆSTA ÁRS Kr. (9.866.485)

* TEKJUSKATTSSTOFN SKV. FRAMTALI 1988:

Leiðréttingar:

Yfirfæranlegt tap til næsta árs Kr. (1.105.784)

Tap frá fyrra ári kr. 9.866.485 x 1,795 „ (17.710.340)

TAP YFIRFÆRT TIL NÆSTA ÁRS Kr. (18.816.124)

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til úrlausnar þann 8. maí 1989. Ekki féllst hann á það að byggja á útreikningi umboðsmanns kæranda, enda yrði ekki annað séð en að fasteignamat það, sem hann miðaði við, væri rangt. Samkvæmt gögnum, er lægju fyrir hjá embætti ríkisskattstjóra vegna eldra máls kæranda, hefði fasteignamatsverð umræddra eigna verið kært til lækkunar til Fasteignamats ríkisins. Það embætti hefði lækkað fasteignamatið með úrskurði, dags. 11. nóvember 1981, og hefði fasteignamat lóðanna verið lækkað úr 2.118.300 kr. í 866.670 kr. Samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins 27. apríl 1989 hefði þessu fasteignamati ekki verið breytt. Væri útreikningur umboðsmanns kæranda því rangur, þar sem hann miðaði við fasteignamat eins og það hefði verið fyrir lækkun í stað þess að miða við fasteignamat eignanna eins og það væri skráð hjá Fasteignamati ríkisins. Þar sem fyrir lægi að útreikningur söluhagnaðar í skattframtali 1987 væri rangur, þætti rétt að leiðrétta hann og miða við fasteignamat lóðanna í árslok 1979 eins og það væri skráð hjá Fasteignamati ríkisins. Skv. því yrði útreikningur söluhagnaðar sem hér segir:

„Lóð 866.670 x 13.1455 = 11.392.810. Bókfært verð húss 1.871.629 eða stofnverð kr. 13.264.439. Söluverð var kr. 19.760.000. Söluhagnaður verður kr. 6.495.561. Aukafyrningar samkv. fyrningarskýrslu með framtali 1987 lækka um kr. 2.445.810. Aðstöðugjaldsstofn lækkar um þá fjárhæð eða úr kr. 17.033.044 í kr. 14.587.234. Aðstöðugjald verður kr. 189.630.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda var fyrrgreind endurákvörðun ríkisskattstjóra kærð með kæru, dags. 12. maí 1989. Skírskotaði umboðsmaðurinn til 3. ml. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem svo væri kveðið á um, að skattaðila væri heimilt að nota gildandi fasteignamat í árslok 1979 að teknu tilliti til verðbreytinga skv. 26. gr. í stað stofnverðs, ef hann hefði eignast hina seldu eign fyrir árslok 1978. Umboðsmaðurinn gat þess, að ágreiningur væri um þýðingu orðalagsins „gildandi fasteignamat í árslok 1979“. Bæri að skilja það svo, að átt væri við það mat, sem í gildi hefði verið, þegar 1. desember 1979 hefði runnið upp en þá hefði matið verið 2.118.300 kr. Það væri þessu óviðkomandi, að fasteignamati lóðanna hefði verið breytt til lækkunar 11/11 1981.

Með kæruúrskurði, dags. 12. júní 1989, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda með svofelldum rökum:

„Málavextir eru þeir að á árinu 1986 seldi gjaldandi fasteignir að X, Reykjavík.

Gjaldandi hafði eignast þessar eignir á árinu 1977 og í bréfi umbm. gjaldanda til ríkisskattstjóra mótt. 2. mars 1989 var farið fram á leiðréttingu söluhagnaðar í framtali 1987 og verði við útreikning á söluhagnaði vegna sölu lóðar farið eftir ákvæðum 2. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981.

Í útreikningi umbm. gjaldanda var miðað við fasteignamat lóðar í árslok 1979 eins og það var áður en því var breytt með úrskurði Fasteignamats ríkisins dags. 11/11 1981.

Með bréfi umbm. gjaldanda til Fasteignamats ríkisins dags. 23. okt. 1981 var fasteignamat X kært til lækkunar vegna áranna 1976, 1977, 1978, 1979 og 1980. Með úrskurði Fasteignamats ríkisins dags 11/11 1981 var fasteignamat eignanna vegna fyrrgreindra ára lækkað. Í úrskurði ríkisskattstjóra dags. 8. maí 1989 var ekki fallist á þennan útreikning umbm. gjaldanda, heldur var við útreikning söluhagnaðarins miðað við fasteignamat lóðar eins og því var breytt með úrskurði Fasteignamats ríkisins.

Ríkisskattstjóri fellst ekki á að breyta útreikningi söluhagnaðar á þann veg sem umbm. gjaldanda gerir kröfu til. Ef útreikningur söluhagnaðar fer eftir 2. mgr. 14. gr. laga lítur ríkisskattstjóri svo á að miða beri við gildandi fasteignamat í árslok 1979 eins og það er skráð hjá fasteignamati ríkisins.“

Með kæru, dags. 14. júní 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra til ríkisskattanefndar og mótmælir útreikningi ríkisskattstjóra á söluhagnaði vegna títtnefndra eigna. Vísar umboðsmaðurinn til sjónarmiða sinna og rökfærslu, er fram hafi komið við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 21. júlí 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í máli þessu liggur fyrir ljósrit úrskurðar Fasteignamats ríkisins, dags. 11. nóvember 1981, varðandi endurmat lóðanna nr. .. - .. við X fyrir árin 1976, 1977, 1978, 1979 og 1980 samkvæmt beiðni kæranda sjálfs þar um. Með úrskurði þessum var fasteignamatsverð lóðanna pr. 1. desember 1979 lækkað úr 2.118.830 kr. í 866.670 kr. Hefur kærandi unað mati þessu. Þykir bera að leggja mat þetta til grundvallar sem gildandi fasteignamat í árslok 1979 í skilningi 2. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda þykir eigi hafa verið sýnt fram á það af kæranda hálfu að miða beri við annað mat í þessu tilliti sérstaklega. Þykir því bera að synja kröfu kæranda. Rétt þykir, að fram komi, að kæranda hefur athugasemdalaust verið heimiluð sérstök fyrning á móti öllum söluhagnaði af nefndum eignum, þ.e. tveimur lóðum og mannvirki á annarri, og er eigi neinn ágreiningur um þann þátt málsefnisins.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja