Úrskurður yfirskattanefndar

  • Barnabætur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 77/2017

Gjaldár 2016

Lög nr. 90/2003, 68. gr. A-liður 1. mgr., 99. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 22. gr.  

Ríkisskattstjóri synjaði kröfu kæranda um að honum yrðu ákvarðaðar barnabætur með dóttur sinni á þeim forsendum að dóttirin væri ekki með lögheimili hjá kæranda. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að miðað við upplýsingar í skattframtali kæranda árið 2016 um framfærslu dótturinnar hefði ekki verið unnt að slá því föstu að kærandi gæti ekki talist framfærandi hennar í árslok 2015. Þar sem ríkisskattstjóri var ekki talinn hafa séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst var úrskurður hans felldur úr gildi og kæra kæranda send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Ár 2017, miðvikudaginn 26. apríl, er tekið fyrir mál nr. 229/2016; kæra A, dags. 4. desember 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2016 og sætti af þeim sökum áætlun ríkisskattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2016, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattframtal kæranda barst ríkisskattstjóra hinn 21. júní 2016 og var tekið til meðferðar sem skattkæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Í athugasemdum í skattframtalinu kom fram að kærandi hefði verið með dóttur sína í fóstri í lok árs 2015 og séð fyrir henni frá maí 2015. Kærandi hefði ekki fengið barnabætur eða meðlög. Barnið hefði verið með lögheimili hjá ömmu sinni þrátt fyrir að hafa ekki búið þar umrætt tímabil. Fram kom að móðir barnsins hefði ekki verið „inn í myndinni“ á þessum tíma.

Með kæruúrskurði, dags. 8. september 2016, féllst ríkisskattstjóri á að leggja skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2016. Með vísan til athugasemdar kæranda í skattframtalinu tók ríkisskattstjóri fram að barnabætur væru miðaðar við fjölskyldustöðu eins og hún væri í þjóðskrá 31. desember á tekjuári. Á árinu 2015 hefði barnið verið í fóstri hjá kæranda, en barnabætur greiddust ekki fósturforeldri fyrr en lögheimili barnsins hefði verið flutt til fósturforeldrisins. Voru kæranda samkvæmt þessu ekki ákvarðaðar neinar barnabætur.

II.

Með kæru, dags. 4. desember 2016, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 8. september 2016, til yfirskattanefndar og farið fram á að honum verði ákvarðaðar barnabætur vegna tekjuársins 2015. Í kærunni kemur fram að dóttir kæranda hafi búið hjá honum frá maí 2015 til ágúst 2016. Hafi dóttir kæranda verið í fóstri hjá honum þar sem móðir barnsins hafi ekki verið til staðar fyrir barnið á þeim tíma. Hafi kærandi ekki fengið barnabætur, fósturbætur eða meðlag á meðan barnið var hjá honum og hafi móðir barnsins staðið í vegi fyrir því að hann flytti lögheimili barnsins til sín. Kemur fram í kærunni að kærandi hafi verið framfærandi barnsins á þessu tímabili og hafi fjárhagsstaða hans verið erfið, svo sem nánar er lýst.

Kærunni fylgir ljósrit af tilkynningu um búsetu barns hjá foreldri frá barnavernd, dags. 14. nóvember 2016, þar sem fram kemur að dóttir kæranda hafi dvalið hjá honum frá maí 2015. Þá fylgir kærunni yfirlit frá sveitarfélagi yfir leikskólagreiðslur kæranda á árinu 2016.

III.

Með bréfi, dags 22. desember 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu þar sem fram kemur að barnabætur séu miðaðar við fjölskyldustöðu eins og hún sé í þjóðskrá 31. desember á tekjuári, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Á árinu 2015 hafi barnið verið í fóstri hjá kæranda, en barnabætur greiðist ekki til fósturforeldris fyrr en lögheimili barnsins hafi verið flutt til fósturforeldrisins. Krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. desember 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Um barnabætur er fjallað í A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 skal ríkissjóður greiða barnabætur með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna. Bæturnar skal greiða til framfæranda barnsins, en framfærandi telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Tekið er fram að sá er greiðir meðlag með barni teljist ekki framfærandi í þessu sambandi.

Eins og hér að framan greinir kom fram í athugasemdum í skattframtali kæranda árið 2016 að kærandi hefði verið með dóttur sína í fóstri í lok árs 2015 og hefði hún verið á hans framfæri frá maí 2015. Hefði dóttirin ekki búið hjá ömmu sinni þrátt fyrir að vera með skráð lögheimili hjá henni. Með hinum kærða úrskurði, dags. 8. september 2016, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að honum yrðu ákvarðaðar barnabætur með dóttur sinni þar sem við ákvörðun barnabóta væri miðað við fjölskyldustöðu eins og hún væri í þjóðskrá 31. desember á tekjuárinu, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/2003. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að dóttir kæranda hefði verið í fóstri hjá kæranda á árinu 2015 og tók fram að barnabætur væru ekki greiddar fósturforeldri fyrr en lögheimili barns hefði verið flutt til fósturforeldrisins.

Eins og fram hefur komið taldi kærandi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2016 og sætti því áætlun ríkisskattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2016, sbr. ákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003. Skattframtal kærenda árið 2016 barst ríkisskattstjóra hinn 21. júní 2016 og var það tekið sem skattkæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Eins og málið bar að samkvæmt þessu var ríkisskattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 90/2003 hygðist hann breyta skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Ríkisskattstjóra bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið væri nægjanlega upplýst, væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks.

Að virtum þeim upplýsingum sem fram komu í skattframtali kæranda árið 2016 varðandi framfærslu dóttur kæranda á árinu 2015 verður ekki talið að unnt hafi verið að slá því föstu að kærandi gæti ekki talist framfærandi barnsins í árslok 2015, sbr. 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, hvað sem leið lögheimilisskráningu. Verður að telja að þessar upplýsingar hafi gefið tilefni til að ríkisskattstjóri kannaði nánar hvernig högum kæranda og dóttur hans væri háttað. Rétt er að taka fram að ekki verður annað séð en að kærandi hafi hagað framtalsskilum sínum að þessu leyti í samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra sjálfs á vef embættisins, en þar kemur fram varðandi barnabætur að sé barn skráð til heimilis annars staðar en hjá raunverulegum framfæranda skuli það leiðrétt með því að færa barn á framtal hans og rita skýringar í athugasemdir. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að ríkisskattstjóri hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók hina umdeildu ákvörðun sína, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993. Þá er til þess að líta að í kæruúrskurði ríkisskattstjóra var í engu getið þeirra lagareglna sem gilda um greiðslu barnabóta, sbr. A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 og ákvæði reglugerðar nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta. Var rökstuðningur ríkisskattstjóra ófullnægjandi og uppfyllti ekki lagakröfur, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra, sem telja verður verulega, verður ekki hjá því komist að ómerkja kæruúrskurð ríkisskattstjóra að því leyti sem varðar kæruefni málsins. Af því leiðir að senda verður ríkisskattstjóra kæru kæranda til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar í samræmi við það sem að framan greinir og að gættum þeim atriðum sem þýðingu hafa fyrir úrlausnarefnið.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður ríkisskattstjóra er felldur úr gildi og kæra kæranda send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja