Úrskurður yfirskattanefndar
- Útvarpsgjald
- Félagsslit
Úrskurður nr. 332/2011
Gjaldár 2010
Lög nr. 6/2007, 11. gr. 1. mgr. 1. tölul.
Félagsslit kæranda, sem var hlutafélag, í janúar 2010 voru ekki talin geta breytt neinu um gjaldskyldu félagsins til útvarpsgjalds gjaldárið 2010, enda féll félagið ekki undir neina af undanþágum lögaðila frá gjaldskyldu til þess gjalds.
I.
Með kæru, dags. 3. maí 2011, sbr. rökstuðning fyrir kæruatriðum í bréfi, dags. 28. sama mánaðar, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. febrúar 2011, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2010. Er þess krafist af hálfu kæranda að útvarpsgjald að fjárhæð 17.200 kr., sem lagt var á kæranda við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2010, verði fellt niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.
II.
Málavextir eru þeir að við almenna álagningu opinberra gjalda á lögaðila var kæranda, sem er hlutafélag, ákvarðað útvarpsgjald 17.200 kr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf. Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2010, krafðist umboðsmaður kæranda niðurfellingar álagðs útvarpsgjalds á kæranda gjaldárið 2010. Í kærunni var vísað til þess að skilanefndarmenn í kæranda hefðu tilkynnt um skiptalok í félaginu þann 26. janúar 2010. Kærandi hefði því ekki verið gjaldskyldur lögaðili á þeim tíma sem um ræðir, auk þess sem einungis gætu komið til greiðslu kröfur á hendur félaginu sem lýst hefði verið innan tveggja mánaða frá innköllun, sbr. almenn réttaráhrif innköllunar.
Með kæruúrskurði, dags. 3. febrúar 2011, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum kom fram að útvarpsgjald, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, væri almennt gjald eða skattur sem rynni í ríkissjóð án þess að nokkuð sérgreint endurgjald kæmi fyrir. Væri gjaldskylda byggð á því einu að lögaðili væri skattskyldur samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og væri ekki sérstaklega undanþeginn gjaldskyldu, sbr. 3. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, eða heyrði beinlínis undir ákvæði 4. gr. laga nr. 90/2003. Því hvíldi gjaldskylda til útvarpsgjalds á öllum skráðum lögaðilum óháð félagaformi, nema um tilgreindar undanþágur væri að ræða. Kærandi væri skráð einkahlutafélag (sic) og skattskyldur aðili samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 og félli ekki undir neinar þær undanþágur frá gjaldskyldu til útvarpsgjalds sem tilgreindar væru í lögum. Álagning útvarpsgjalds tæki mið af þeim félögum sem bæru skattskyldu gjaldárið 2010 vegna tekjuársins 2009. Félli kærandi þar undir, enda hefði félagið staðið skil á skattframtali árið 2010. Slit félagsins hefðu ekki átt sér stað fyrr en á árinu 2010 sem varðaði framtalsskyldu gjaldárið 2011. Þar sem forsendur fyrir undanþágu frá útvarpsgjaldi væru samkvæmt framansögðu ekki fyrir hendi í tilviki kæranda yrði að synja kæru félagsins.
III.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 3. maí 2011, sbr. greinargerð í bréfi, dags. 28. sama mánaðar, er þess krafist að álagning útvarpsgjalds á kæranda gjaldárið 2010 verði felld niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni eru reifuð ákvæði 11. gr. laga nr. 6/2007 og 93. gr. laga nr. 90/2003 og tekið fram að álagningu opinberra gjalda á lögaðila gjaldárið 2010 hefði verið lokið 28. október 2010. Þá kemur fram að samkvæmt samræmisskýringu ákvæða 11. gr. laga nr. 6/2007 virðist sem um sé að ræða álagningu útvarpsgjalds innan þess árs sem félag starfi. Af því leiði að félögum, sem slitið hafi verið á árinu 2010, beri ekki að standa ríkissjóði skil á greiðslu gjaldsins gjaldárið 2010. Þegar hið umdeilda útvarpsgjald hafi verið lagt á kæranda hafi verið búið að slíta félaginu. Þrátt fyrir að kærandi hafi borið skattskyldu vegna tekjuársins 2009 sé orðalag 11. gr. laga nr. 6/2007 skýrt að því leyti að álagning skuli vera samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/2003. Sú lagagrein eigi ekki við um félög sem hafi verið slitið. Af framangreindu leiði að ekki sé unnt að leggja útvarpsgjald á félög sem hafi verið slitið fyrir álagningu samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 11. gr. laga nr. 6/2007. Þá geti ekki verið um að ræða gjaldskyldu lögaðila sem slitið hafi verið á árinu 2010 þar sem gjalddagi útvarpsgjalds sé lögbundinn 1. nóvember á ári hverju, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007. Samræmisskýring ákvæða 1. og 2. mgr. umræddrar lagagreinar leiði því sömuleiðis til þeirrar niðurstöðu að hafi félagi verið slitið fyrir álagningu gjalda sé ekki heimild fyrir töku útvarpsgjalds. Hafa beri í huga að skýra verði umrædd ákvæði þröngt kæranda í hag, enda sé um að ræða íþyngjandi ákvæði gagnvart félaginu.
IV.
Með bréfi, dags. 22. júlí 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
V.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., eins og ákvæði þetta hljóðaði við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2010, teljast til tekna Ríkisútvarpsins ohf. tekjur af sérstöku gjaldi sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjald þetta rennur í ríkissjóð. Hvílir gjaldskylda á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 4. gr. sömu laga. Skal gjaldið nema 17.200 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila, sbr. breytingu á greindum lögum með c-lið 1. gr. laga nr. 174/2008 sem öðluðust gildi 1. janúar 2009, sbr. 2. gr. laganna.
Kærandi var skráð hlutafélag og sjálfstæður skattaðili gjaldárið 2010, eftir því sem gögn málsins bera með sér, samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Féll kærandi ekki undir neina framangreindra undanþága lögaðila frá gjaldskyldu til útvarpsgjalds sem tæmandi eru taldar í 3. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007. Slit kæranda í janúar 2010 geta ekki breytt neinu um gjaldskyldu félagsins gjaldárið 2010 samkvæmt framangreindu. Að þessu athuguðu verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu, þar á meðal kröfu félagsins um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.