Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti húsaleigutekjum
  • Tímamörk endurákvörðunar

Úrskurður nr. 892/1993

Gjaldár 1990-1992

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 2. mgr., 95. gr. 1. mgr., 97. gr. 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að framtölum kæranda fylgdu rekstraryfirlit vegna útleigu íbúðarhúsnæðis að M-götu. Leigutekjur samkvæmt rekstraryfirliti gjaldárið 1990 námu 753.100 kr., gjaldárið 1991 námu þær 744.520 kr. og gjaldárið 1992 námu leigutekjur 921.600 kr. Á rekstraryfirlitunum vegna allra þriggja áranna var gerð grein fyrir kostnaði við rekstur húsnæðisins, þar á meðal vaxtagjöldum og töpum frá fyrri árum.

Með bréfi, dags. 2. september 1992, boðaði skattstjóri kæranda tilgreindar breytingar á framtölum hennar 1990 og 1991. Hugðist skattstjóri fella niður af rekstrarreikningi vegna útleigu kæranda vaxtagjöld af skuldabréfi og vaxtagjöld greidd X og Y. Upphæð þessara gjaldaliða nam 183.595 kr. á rekstursreikningi með framtali 1990 og 188.015 kr. á framtali 1991. Ennfremur boðaði skattstjóri niðurfellingu tapa frá fyrri árum 815.100 kr. á framtali 1990 og 499.251 kr. á framtali 1991. Varðandi framangreindar breytingar vísaði skattstjóri til 5. mgr. (sic) 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi mótmælti breytingum skattstjóra í bréfi, dags. 8. september 1992. Kom fram hjá henni að umrætt rekstrartap ætti rætur að rekja til ársins 1987 þegar, að kröfu heilbrigðiseftirlits, hafi verið ráðist í að bæta úr ára langri vöntun á viðhaldi. Af þessum sökum hafi ekki verið auðvelt að dreifa viðhaldi á fleiri ár. Skattstjóri hratt hinum boðuðu breytingum í framkvæmd með tilkynningu, dags. 14. september 1992.

Með bréfi, dags. 24. júlí 1992, tilkynnti skattstjóri kæranda um breytingar á framtali hennar 1992. Felldi hann niður af rekstrarreikningi v/útleigu á M-götu, vexti vegna greiddra vinnulauna 141.300 kr. og tap á útleigu frá fyrra ári 302.130 kr. Kom fram hjá skattstjóra að ekki væri heimilt að færa þessa liði til frádráttar, sbr. leiðbeiningar ríkisskattstjóra nema því aðeins að um atvinnurekstur væri að ræða, sbr. 4. mgr. 4. tl. B-liðs (sic) 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.

Með kæru, dags. 23. september 1992, mótmælti kærandi breytingum á framtölum áranna 1990, 1991 og 1992. Vísaði hún til skýringa í bréfi sínu frá 8. september 1992. Með kæruúrskurði, dags. 29. september 1992, vísaði skattstjóri frá kæru vegna breytinga á skattframtali 1992. Kærufrestur hefði runnið út 29. ágúst 1992 og kæran því of seint fram komin. Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda varðandi skattframtöl 1990 og 1991 með vísan til bréfs síns frá 14. september 1992.

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 19. október 1992. Kemur fram hjá kæranda að henni finnst breyting skattstjóra ekki sanngjörn því ef unnt hefði verið að dreifa viðhaldi á fleiri ár hefði kostnaðurinn fengist frádreginn. Bendir kærandi á að eignin hafi verið í útleigu í 37 ár og viðhald á seinni árum lítið. Á árinu 1987 hafi verið svo komið að heilbrigðiseftirlitið hafi gert kröfur um lagfæringar meðal annars á þaki, svo að rýma hafi þurft húsið, og lítil leiga því komið inn það ár. Lagfæringarnar hafi verið eins einfaldar og hægt hafi verið að komast af með.

Með bréfi, dags. 10. desember 1992, hefur ríkisskattstjóri gert þær kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

II.

Á skattframtölum kæranda hin umræddu ár var gerð grein fyrir þeim gjaldaliðum sem skattstjóri felldi niður undir meðferð þessa máls. Að virtu eðli umræddra liða verður talið að byggja hefði mátt rétta álagningu á framtölum kæranda svo sem þau lágu fyrir af hendi hennar, sbr. ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tímamörk þau sem skattstjóra eru sett varðandi endurákvörðun gjalda, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, voru því liðin varðandi gjaldárið 1990 þegar skattstjóri framkvæmdi breytingu á gjöldum þess gjaldárs þann 14. september 1992. Ber því að ómerkja breytingu skattstjóra varðandi það gjaldár.

Kærandi hefur fært frádrátt á móti leigutekjum þeim sem hún hefur af fasteign sinni. Frádráttur þessi byggir á 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði er ekki heimilt að færa til frádráttar vexti af skuldum og yfirfæranlegt tap. Úrskurður skattstjóra er því staðfestur varðandi gjaldárið 1991.

Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 1. mgr. 98. gr. sé lokið. Auglýsing skattstjóra vegna álagningar 1992 var dagsett 31. júlí 1992 og birtist í 89. tbl. Lögbirtingablaðsins 1992. Kærufresti vegna álagningar 1992 lauk því 31. ágúst 1992, enda bar 29. ágúst 1992 upp á laugardag. Kæra til skattstjóra vegna álagningar opinberra gjalda 1992 var dagsett 23. september 1992 og móttekin hjá skattstjóra þann 24. september 1992. Var kæran því of seint fram komin. Frávísunarúrskurður skattstjóra er staðfestur varðandi álagningu 1992.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Breyting skattstjóra á skattframtali kæranda 1990 er felld úr gildi. Úrskurður skattstjóra er staðfestur varðandi gjaldárin 1991 og 1992.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja